Høgni Egilstoft Nielsen skákmeistari Færeyja 2021.

Um þessa páska hefðu þrjú meistaramót Norðurlanda farið fram í venjulegu árferði. Meistaramóti Danmerkur var frestað með löngum fyrirvara en Skákþingi okkar Íslendinga með aðeins nokkurra daga fyrirvara. Og verður vonandi sett á síðar í vor. Færeyringar héldu hins vegar sitt meistaramót í dymbilvikunni og lauk því í gær eftir umdyst (umspil) í landsliðs- og unglingabólkum (flokkum).

Mótið var æsispennandi og svo fór að Høgni Egilstoft Nielsen og Martin Poulsen komu jafnir og efstir í marki í landsliðsflokki. Hans Kristian  Simonsen sem lengi hafði verið efstur þurfti að sætta sig við þriðja sæti.

Færeyringar fara sömu leið og við Íslendingar komi menn jafnir í mark. Tefla til þrautar með skemmri umhugunartíma. Fyrst tvær atskákir (25+5). Sé jafnt þá tvær hraðskákir (3+2) og sé enn jafnt þá bráðabanaskák.

Høgni þurfti hraðskákina til að leggja Martin að velli. Lokatölur urðu 2½–1½ fyrir Høgna.

Umgjörð mótsins var til mikillar fyrirmyndar eins og lesa má um á heimasíðu færeyska skáksambandsins.

- Auglýsing -