læsilega á Íslandsmóti grunnskóla, 1.-10. bekkjar. Sigursveitin frá vinstri: Iðunn Helgadóttir, Leifur Þorsteinsson liðsstjóri, Adam Omarsson, Jósef Omarsson, Jón Louie Thoroddsen og Guðmundur Kjartansson sem afhenti verðlaun — Morgunblaðið/SÍ

Þegar sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda flugu fyrir var keppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands blásin af, öll innanfélagsmót Taflfélags Reykjavíkur og fleiri viðburðir. Vignir Vatnar Stefánsson var „krýndur“ sigurvegari Yrðlingamóts TR en hann hafði unnið allar fimm skákir sínar en átti að tefla við helsta keppinaut sinn, Guðmund Kjartansson, í sjöttu umferð. Á skákmóti öðlinga voru Magnús Pálmi Örnólfsson og Helgi Áss Grétarsson efstir með 4½ vinning af fimm mögulegum. Þeir áttu að tefla saman í sjöttu umferð.

En það var sem betur fer búið að ljúka nokkrum skákkeppnum, t.d. Íslandsmóti grunnskólasveita sem fram fór um síðustu helgi en 38 sveitir tefldu í eldri og yngri flokki.

Þá lauk Skákþingi Akureyrar á dögunum með sigri Rúnars Sigurpálssonar sem vann allar skákir sínar, sjö talsins.

Skákþing Vestmannaeyja hafði þá sérstöðu að „gestur“ var á meðal keppenda. Guðmundur Kjartansson sigldi fjórum sinnum á milli lands og Eyja, tefldi 2-3 skákir í hverri ferð. Eyjamenn tóku vel á móti Guðmundi en veittu honum jafnframt harðvítuga mótspyrnu. Til þess að Guðmundur næði markmiði sínu um stigahækkun varð hann að vinna hverja einustu skák og það gerði hann – en ekki átakalaust. Stigahækkunin fleytti honum áleiðis að 2.500 elo-stiga-markinu. Mér lék nokkur forvitni á að vita hvernig Sigurjóni Þorkelssyni, sem oftast allra hefur orðið Vestmannaeyjameistari, myndi ganga í skákinni við Guðmund. Þeir mættust í níundu umferð:

Skákþing Vestmannaeyja 2021

Sigurjón Þorkelsson – Guðmundur Kjartansson

Þessi staða kom eftir 26. leik Guðmundar, Bh7-g8. Sigurjón gat nú leikið 27. Bxe4! Hxe4 28. Rg6+ Kh7 29. f3 og eftir 29. … Hxe3 á hann gangandi þráskák. Í raun og veru getur hann líka teflt til vinnings með 29. Rf4 sem hótar 30. f3. En í stað þess valdi hann að leika 27. Hab1 og eftir 27. … Rd6 var hann með ágæta stöðu sem tapaðist þó eftir 61 leik.

Sigurjón varð efstur heimamanna, hlaut 8½ vinning af 11 og varð Vestmannaeyjameistari í 15 sinn. Í 3.-4. sæti komu Hallgrímur Steinsson og Benedikt Baldursson, báðir með átta vinninga.

Giri efstur á boðsmóti Magnúsar

Magnús hefur enn ekki unnið í mótaröð sem kennd er við hann og um síðustu helgi náði hann að vísu að leggja Wesley So að velli en það var í keppni um 3. sætið. Á sama tíma vann Hollendingurinn Anisyh Giri sigur í úrslitaeinvíginu við Rússann Nepomniachtchi. Norðmaðurinn féll úr keppni þegar hann tapaði fyrir Nepo í undanúrslitum en á lokasprettinum kom þessi staða upp í einni af skákum þeirra:

Magnús Carlsen – Jan Nepomniachtchi

Staða hvíta kóngsins er ótrygg en ekki er svo að auðvelt að notfæra sér það, t.d. 43. … Hxe3 44. Hxg7+! o.s.frv. En Nepo fann lausnina:

43. … Kh6! 44. Kxf5 Hxe3! 45. Hc5 g6+ 46. Kg4 Hfxf3

– og við hótuninni 47. … f5+ er ekkert svar. Hvítur gafst upp.

 

Skákdæmi Horts

Á ágætri vefsíðu Chessbase birtast stundum skemmtilegar frásagnir Vlastimils Horts. Þessi tékkneski stórmeistari hefur rifjað upp kynni sín af ýmsum stórum persónuleikum skáksögunnar og í einum pistli birti hann tvö skákdæmi. Annað þeirra er svona:

Hvítur leikur og mátar.

Birti lausnina í næsta pistli.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 27. mars 2021.

- Auglýsing -