Toppslagur Ingi R. að tefla við Tal. Fjær sést Boris Spasskí. — Ljósmynd/Úr bók John Don.

Góð ljósmynd getur sagt meira en mörg þúsund orð. Greinarhöfundur var að blaða í nýútkominni bók Bandaríkjamannsins Johns Donaldssons en titill hennar er: Bobby Fischer and his world og undirtitill: The man, the riddle, and the colorful characters who surrounded him . Þetta mikla verk er 644 blaðsíður í stóru broti og prýtt fjölda ljósmynda. Þar sem Ísland leikur stórt hlutverk í lífshlaupi söguhetjunnar verður lesningin enn áhugaverðari.

John Donaldsson, sem verið hefur liðsstjóri bandaríska ólympíuliðsins um áratuga skeið, fer út um víðan völl en rauði þráðurinn í skrifum hans er virðing fyrir viðfangsefninu. Kemur það þeim sem þekkja höfundinn ekki á óvart. Persónulega finnst mér þetta ágæta verk benda í þá átt að afstaða Bandaríkjamanna til Fischers sé að mildast en ímynd hans skaddaðist verulega eftir býsna stórkarlalegar yfirlýsingar í útvarpsviðtölum í kringum síðustu aldamót.

Á bls. 203 í bókinni blasir við mynd sem á erindi við skáksögu okkar: Ingi R. Jóhannsson að tefla við Mikhael Tal á Ólympíumótinu í Havana á Kúbu 1966. Fjær sést Boris Spasskí sem þennan dag tefldi á 1. borði fyrir Sovétmenn gegn Friðriki Ólafssyni.

Ingi fékk ekki góða stöðu eftir byrjunina í skákinni við Tal og tapaði eftir 44 leiki en íslenska sveitin komst í A-úrslit og varð í 11. sæti, sem lengi vel var besti árangur íslensks liðs á ólympíumóti.

Ingi R. hafði ekki teflt mikið í aðdraganda skákhátíðarinnar í Havana. Hann byrjaði vel og átti sinn þátt í því að Íslendingar náðu inn í A-úrslit. Í undanrásunum vann hann einn besta skákmann Mongólíu sem síðar vann sér það til frægðar að gera jafntefli við Bobby Fischer á millisvæðamótinu í Palma árið 1970:

ÓL í Havana 1966; 3. umferð undanrása:

Tudev Ujtumen (Mongólía) – Ingi R. Jóhannsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 e6 5. Rc3 Dc7 6. g3 a6 7. Bg2 Rf6 8. 0-0 Be7 9. Be3

Uppstilling léttu mannanna í þessu afbrigði sikileyjarvarnar skiptir öllu máli. Sennilega er beittara að leika 9. He1 eða 9. b3.

9. … 0-0 10. De2 d6 11. Had1 Bd7 12. h3 Hac8 13. a3 b5 14. f4 Rxd4 15. Hxd4 Bc6 16. Hd2 Db7 17. Bd4 Rd7 18. Kh2

Eftir varfærnislega byrjun missti hvítur af eina tækifærinu sem hann fékk í skákinni. Hér var 18. Rd5 best sem tryggir a.m.k. jafnvægi því að 18. … Bd8 má svara með 19. Rb4.

18. … e5 19. fxe5 dxe5 20. Rd5

Of seinn! Nú kom þessi leikur en Ingi kunni að svara fyrir sig.

20. … Bxd5 21. exd5 Bd6 22. Be3 f5!

Hann hefur náð að skorða peð hvíts á drottningarvæng en jafnframt byggt upp sterka peðastöðu á kóngsvæng.

23. Kh1 Hce8 24. Dh5 g6 25. Dh4 Dc7 26. Bh6 Hf7 27. He2 e4 28. g4 Dc4!

Snarplega leikið. Drottningin ryður braut svörtu peðanna.

29. Hee1 f4 30. Df2 f3 31. Kg1 Dxd5 32. Bh1

32. …g5! 33. b4 Bc7 34. Hd1 De5

– og hvítur gafst upp.

 

Lausn á skákdæmi

Tveir riddarar eiga ekki að geta knúið fram mát nema peði eða peðum andstæðingsins sé til að dreifa. Þetta skýrist vel í dæminu sem birtist í síðasta pistli.

Hvítur leikur og mátar.

Lausnin:

1. Rf5!

a) 1. …Kf1 2. Re3+ Ke1 3. Kc2 f2 3. Kc1 f1 (D, H, B, R) 4. Rc2 mát.

b) 1. …f2 2. Re3 f1 (D, H, B, R) 3. Rc2 mát.

c) 1. …e3 2. Rxe3 f2 3. Rf4 f1 (D, H, B, R) 4. Rd3 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 3. apríl 2021.

- Auglýsing -