Einvígisborðið og stólarnir frægu Kjörgripir í eigu Þjóðminjasafnsins. — Morgunblaðið/Óli K. Magnússon

Á næstu dögum, nánar tiltekið þann 19. apríl nk., taka upp þráðinn aftur þeir átta keppendur sem hófu áskorendakeppni FIDE í Yekaterinburg í Rússland upp úr miðjum marsmánuði í fyrra. Það er mikið í húfi; sigurvegarinn öðlast réttinn til að skora á heimsmeistarann Magnús Carlsen. Heimsmeistaraeinvígið hefur verið sett á dagskrá í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hefst 24. nóvember nk. og lýkur í síðasta lagi 16. desember. Stóra fréttin frá sjónarhóli Íslendinga er sú að þetta heimsmeistaraeinvígi mun, ef að líkum lætur, fara fram á nákvæmri eftirlíkingu af einvígisborðinu sem smíðað var fyrir einvígi Fischers og Spasskís sumarið 1972.

Eftir fyrstu sjö umferðir áskorendamótsins er staðan þessi: 1. Jan Nepomniachtchi og Maxime Vachier-Lagrave 4 ½ v. (af 7) 3.- 6. Caruana, Giri, Wang Hao og Grischuk 3 ½ v. 7.- 8. Liren Ding og Alekseenko 2½ v.

Efstu menn eru líklegastir en þó eiga allir keppendur einhverja möguleika. Og lítið þarf að gerast til að staðan gerbreytist og má búast við æsispennandi lokaumferðum.

Greinarhöfundi finnst Jan Nepomniachtchi einna líklegastur til að vinna mótið. Hann varð skákmeistari Rússlands í lok síðasta árs, vann Magnús Carlsen í netskákmóti á dögunum og ætti að vera fullur sjálfstrausts. Frakkinn Vachier Lagrave hefur ekki verið alveg jafn sannfærandi en hann er af mörgum talinn betur undirbúinn í byrjunum en allir aðrir.

Ég veit ekki til þess að neinn íslenskur skákmaður hafi teflt kappskák við Nepo – nema undirritaður. Það var á Aeroflot-mótinu í Moskvu í vetrarbyrjun árið 2008. Þegar skákinni lauk með sigri Nepo sló þeirri hugsun niður að þessi ungi maður myndi sennilega vinna mótið og það gerði hann. Skák okkar var athygliverð og ég reyndi lengi að kryfja ástæður ósigursins því ekki var byrjuninni um að kenna, staðan eftir þann þátt var býsna vænleg:

Aeroflot-mótið 2008; 2. umferð:

Helgi Ólafsson – Jan Nepomniachtchi

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 e6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 c6 5. e3 Rbd7 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bd3 Bb7 9. e4 b4 10. Ra4 c5 11. e5 Rd5 12. dxc5 Bxc5 13. Rxc5 Rxc5 14. Bb5+ Kf8 15. O-O Db6 16. Bc4 h6

17. Bxd5!

Vel teflt. Hvítur reynir að notfæra sér leppun riddarans. 17. … Bxd5 18. Be3 Da5 19. Rd4 Rd7 20. f4 g6 21. Dd2 Rb6 22. b3 Be4 23. a3

Í sjálfu sér ágætt en 23. Hac1 kom einnig sterklega til greina.

23. … Rd5 24. axb4 Db6

Honum gast ekki að 24. … Dxb4 vegna 25. Rxe6+ fxe6 26. Dxb4+ Rxb4 27. Bc5+ og hvítur á peði meira þó að staðan sé jafnteflisleg. Hvíta staðan er nú mun betri.

25. b5?!

Vélarnar vilja leika 25. Ha5, t.d. 25. … Kg8 26. He1. Þetta lítur vel út en er samt ónákvæmt!

25. … Rxe3 26. Dxe3 Bb7 27. Hfc1 Kg7 28. b4?

Staðan er jöfn eftir þennan leik en betra var 28. h3 eða 28. Hc4.

28. … Hhd8 29. Hc5 a5 30. bxa6 Hxa6 31. Hxa6 Dxa6 32. Hc1 Da2 33. Rf3 Db2 34. Hf1 Ba6 35. He1 Dxb4 36. h3 Hd3 37. Dc1 Bb7!

Drægi biskupsins ræður úrslitum. Það er ekki hægt að halda stöðunni saman. Lokin teflir Nepo af mikilli nákvæmni.

38. Hf1 Db6 39. Kh2 Bxf3 40. gxf3 Dd4 41. Kg3 Hd2 42. De1 g5 43. fxg5 hxg5 44. De4 Db2 45. f4 He2 46. Df3 Dd2 47. Hf2 gxf4 48. Dxf4 Hxf2 49. Dxf2 Dxf2 50. Kxf2 Kg6 51. Kg3 Kg5!

– Hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 10. apríl 2021.

- Auglýsing -