Íslandsmeistarar Skáksveit Vatnsendaskóla sigraði á Íslandsmóti 1.-7. bekkjar grunnskóla. Sigursveitina skipuðu, f.v.: Arnar Logi Kjartansson, Tómas Möller, Mikhael Bjarki Heiðarsson, Guðmundur Sveinbjörnsson og Jóhann Helgi Hreinsson. Aftari röð, f.v.: Hjörvar Steinn Grétarsson sem afhenti verðlaun og Kristófer Gautason liðsstjóri. — Morgunblaðið/SÍ

Keppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands sem frestað var í byrjun apríl er aftur komin á dagskrá og hefst sumardaginn fyrsta, 22. apríl nk. Davíð Kjartansson getur ekki verið með og tekur Sigurbjörn Björnsson sæti hans. Aðrir keppendur sem fyrr: Alexander Oliver Mai, Björn Þorfinnsson, Bragi Þorfinnsson, Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Helgi Áss Grétarsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Jóhann Hjartarson og Vignir Vatnar Stefánsson.

Komst fram hjá tveim hindrunum

Sú breyting sem varð á högum landsmanna vegna hertra sóttvarnaráðstafana leiddi til þess að skákiðkun færðist aftur yfir á netið og síðustu daga hafa farið fram nokkur athyglisverð skákmót á þeim vettvangi. Lenka Ptacnikova stóð fyrir mótum fyrir börn og unglinga bæði hér og í Tékklandi. Evrópska skáksambandið, ECU, hefur haldið nokkur mót og í gær fór t.d. fram Evrópumót þingamanna – einstaklings- og sveitakeppni. Brynjar Níelsson, Páll Magnússon og Karl Gauti Hjaltason settust við taflið í gær og tefldu eftir tímamörkunum 10 2.

Um síðustu helgi tefldu nokkur ungmenni í móti á vegum ECU á stigabilinu 1000-1400 elo-stig. Keppendur skiptu hundruðum og teflt var um keppnisrétt í enn stigahærri flokki. Til þess að komast svo langt þurftu keppendur að komast í gegnum tvö mót. Birkir Hallmundarson nýorðinn 8 ára og Arnar Logi Kjartansson 11 ára komust báðir í gegnum fyrri hindrunina og Birkir náði svo alla leið seinni keppnisdaginn, varð í 79. sæti af 250 keppendum. Birkir sem var skráður með 1050 elo-stig tefldi alls 17 skákir, og tekur um þessa helgi þátt í stigaflokknum 1400-1700 elo. Í lokaumferðinni mátti hann alls ekki tapa en fokið virtist í flest skjól þegar þessi staða kom upp:

Stigamót ECU á netinu 2021:

Atakan Basdar –

Birkir Hallmundarson

Hvítur er skiptamun og peði yfir og sannarlega góð ráð dýr hjá unga manninum. Hann lék nú 37. … Kh5. Hvítur sá nú leið til að komast í „gjörunnið“ hróksendatafl og lék: 38. Hxg7?? Bxg7 39. Hxg7, en þá kom skyndilega 39. … Hxf2+! og eftir 40. Kxf2 var svartur patt. Jafntefli í höfn.

Afturvirkar skákþrautir

Ég misskildi dæmið sem þú birtir um daginn. Eitthvað á þessa leið hófst samtal sem ég átti við kunningja minn um daginn. Hann hafði talið það „afturvirka skákþraut“ sem ég birti í blaðinu. Síðast spunnust umræður um þrautir þar sem verkefnið er að rekja leikina aftur á bak. Ekki kom kunninginn alveg að tómum kofunum hjá greinarhöfundi sem endur fyrir löngu eignaðist bókina „The chess mysteries of Sherlock Holmes“. Til upphitunar fyrir lesendur skellti höfundurinn, Raymond Smullyan rökfræðingur, taó-isti, heimspekingur og stærðfræðingur, eftirfarandi dæmi á forsíðu:

Sherlock Holmes kemur á vettvang skákviðburðar ásamt félaga sínum Watson, sér þar stöðu og tekst að rekja atburðarásina afturvirkt:

Hvítur á leik.

Hver var síðasti leikur svarts – og hver var leikur hvíts þar á undan?

Þessi er nú frekar létt og skellum okkar í annað dæmi aðeins snúnara:

 

 

 

Svartur á leik.

Er löglegt að hrókera?

Gefið er að hvorki hvítur né svartur hefur drepið annan taflmann í síðasta leik.

Lausnir í næsta pistli.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 17. apríl 2021.

- Auglýsing -