Íslandsmeistari Lenka t.v. og Jóhanna við taflið sl. fimmtudag. — Ljósmynd/Helgi Ólafsson

Lenka Ptacnikova varð Íslandsmeistari kvenna í þrettánda skipti sl. fimmtudag er hún vann Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur í tveggja skáka aukakeppni þeirra um titilinn, 1½ : ½ . Skákirnar voru tefldar með styttri umhugsunartíma eða 25 10. Þær urðu jafnar í efsta sæti á Íslandsmóti kvenna á dögunum, gerðu þá jafntefli í innbyrðis viðureign, en unnu allar aðrar skákir. Jóhanna, sem hefur margsinnis velgt Lenku undir uggum undanfarið, og er án efa sú íslensk skákkona sem tekið hefur mestum framförum undanfarið, náði sér ekki á strik í aukaeinvíginu. Lenka fékk yfirburðastöðu eftir byrjunina í báðum skákunum en tókst ekki að nýta sér færin og Jóhanna að snúa taflinu við. Hún gat fengið jafntefli en vildi meira og féll að lokum á tíma með tapað tafl. Í seinni skákinni varð Jóhanna að vinna til að geta haldið baráttunni áfram en tapaði snemma peði og átti aldrei möguleika á sigri og Lenka var allan tímann nær sigri en sættist á skiptan hlut.

Wesley So sigursæll

Filippseyingurinn Wesley So, nú búsettur í Bandaríkjunum, vann glæsilegan sigur á Paris Rapid&blitz-mótinu sem lauk á þriðjudaginn en mótið var hluti af Grand Chess tour-mótasyrpunni. Fyrirkomulag Parísarmótsins var gamalkunnugt, einföld umferð at-skáka þar sem hver vinningur gaf tvö stig og síðan tvöföld umferð, hraðskák þar sem hver vinningur gaf eitt stig. Keppendur voru 10 talsins þannig að tefldar voru 27 umferðir. So varð efstur bæði í hraðskákinni og atskákinni en þess má geta að þeir Bacrot og Kramnik skiptu með sér taflmennsku í atskák og hraðskák. Lokaniðurstaðan: 1. So 24½ v. 2. Nepomniachtchi 21½ v. 3. – 4. Vachier Lagrave og Firouzja 18 v. 5. – 6. Aronjan og Rapport 17½ v. 7. – 8. Caruana og Svidler 17 v. 9. Bacrot/Kramnik 15 v. 10. Radjabov 14 v.

Lítum á snaggaralegan sigur So frá atskákhluta mótsins yfir fremsta skákmanni Frakka. Sá teflir Grünfelds-vörn við öll tækifæri:

Wesley So – Vachier Lagrave

Grünfelds-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. e4 Rxc3 6. bxc3 Bg7 7. Rf3 c5 8. h3

Sjaldséður leikur. 8. Hb1 og 8. Be3 eru algengustu leikirnir í stöðunni.

8. … O-O 9. Be2 Rc6 10. Be3 cxd4 11. cxd4 f5 12. Bc4+ Kh8 13. O-O!?

Reynir ekki að hindra framrás f-peðsins. Yfirráðin yfir opnu línunum tryggja alltaf ákveðið jafnvægi.

13. … f4 14. Bd2 Rxd4 15. Bc3 Rxf3+ 16. Dxf3 Bd7 17. Hfd1 Dc7 18. Hac1 Had8 19. Bb4 Bc6 20. Bd5 De5 21. Hc5 Bxd5 22. exd5 Hd7

Gefur kost á snarpri atlögu. „Vélarnar“ mæla með 23. … Df6.

23. d6! De6 24. dxe7 Hxd1+ 25. Dxd1 Dxe7 26. Hc4?!

Eilítið ónákvæmur leikur sem vinnur þó strax. Hér var best að leika 26. Hb5 og seilast eftir b-peðinu., t.d. 26. … Hd8 27. Df3 o.s.frv. Nú getur svartur haldið jafnvægi með 26. … Df7! en taldi sig hafa fundið betri leik.

26. … Hd8?

 

27. Hc8!

– Snaggaralegur leikur sem gerir út um taflið þegar í stað. Vachier-Lagrave gafst upp.

Hjörvar teflir við Stupak í 1. umferð

FIDE hefur birt pörun í 1. umferð heimsbikarmótsins í Sotsjí sem hefst 12. júlí nk. Hjörvar Steinn Grétarsson tekur þátt í mótinu sem núverandi Íslandsmeistari [Aths. ritstjóra: Rétturinn fylgdi sigrinum í Íslandsbikarnum] og hann mætir Hvít-Rússanum Kirill Stupak í fyrstu umferð.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 19. júní 2021 

- Auglýsing -