Rússneski stórmeistarinn og fyrrum Evrópumeistarinn Maxim Matlakov (2688) reyndist okkar manni erfiður í dag í 2. umferð á Heimsbikarmótinu í skák.

Hjörvar Steinn Grétarsson virtist mæta vel undirbúinn til leiks og hafði betri tíma framan af og staðan í fínu lagi. Hjörvar valdi að verja eitraða peðið í Najdorf afbrigði Sikileyjarvarnar. Þetta er sögulegt afbrigði og afbrigði sem meðal annars Bobby Fischer tefldi með svörtu.

Matlakov virtist smeykur við of sterkan tölvuundirbúning og breytti útaf snemma í miðtaflinu frá þekktum leiðum. Sú ákvörðun virtist gefa Hjörvari auðvelda tafljöfnun og mögulega á að fá einhver færi jafnvel. Hjörvari virtist hinsvegar skrikast fótur í miðtaflinu og nokkrir ónákvæmir leikir í röð, 20..Hab8 í stað 20…Hac8! og 25…Dc5?! í stað 25…Rc5 virtust gefa Rússanum þægilega stöðu. Virtist staðan frá þeim tímapunkti versna jafnt og þétt og Rússinn steig engin feilspor.

Einvígið heldur áfram á morgun og hefst eins og alltaf klukkan 12:00. Hjörvar hefur hvítt og tekst vonandi að koma andstæðingi sínum á óvart í byrjuninni og setja á hann pressu. Bráðabani á laugardaginn er ósk landans!

Í annarri umferð komu stóru nöfnin inn og heimsmeistarinn Magnus Carlsen hóf leik og vann sigur í sinni skák. Stóru fréttirnar voru þó að covid gæti mögulega veitt mótinu mikla skráveifu en Levon Aronian varð að gefa sína skák í dag. Hann er mögulega bara veikur með hita en gæti verið með covid. Andstæðingur Fabiano Caruana, Indónesinn Susanto Megaranto greindist hinsvegar með covid og þurfti að gefa sína skák þegar hún var stutt komin. Caruana þarf að fara í próf og framhaldið verður að koma í ljós. Vonandi setur þetta mótið ekki í uppnám!

Adhiban tefldi eins af skákum mótsins, hér er hún skýrð á ensku:

- Auglýsing -