Fjórir sigrar í röð Margeir Pétursson við taflið á Íslandsmótinu 2020. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Þrjú íslensk taflfélög taka þátt í Evrópukeppni skákklúbba sem lýkur nú um helgina í merkri menningarborg, Struga í Norður-Makedóníu. Meðal keppenda er heimsmeistarinn Magnus Carlsen sem teflir fyrir Offerspill Chess club. Hann mætti til leiks í 3. umferð en virðist hafa dregið sig út úr keppinni eftir stórtap norska klúbbsins í 5. umferð. Skákfélag Selfoss teflir fram langsterkustu „íslensku“ sveitinni en í henni eru fjórir rússneskir stórmeistarar, þ.ám. Evrópumeistarinn Anton Demchenko. Sveitinni tókst að vinna öfluga rússneska sveit, KPRF, í 5. umferð sem hafði innanborðs kappa á borð við Alexander Grischuk. En þetta verður að líkindum síðasta verkefni Donchenko, Demchenko, Antipov og Lomatov í bili a.m.k. fyrir skákklúbbinn úr Flóanum því að SSON hefur ákveðið að draga sig út úr keppni efstu deildar Íslandsmóts skákfélaga sem hefst um næstu helgi. Eftir tap fyrir danskri sveit í 6. umferð sat sveitin í 9. sæti af 38 liðum.

Víkingaklúbburinn er að mestu skipaður íslenskum skákmönnum á bilinu 1.800-2.324 elo-stig og hefur náð þokkalegum úrslitum miðað við mannskap en frammistaða Taflfélags Reykjavíkur er mun betri. Eftir stórt tap í 1. umferð vann TR næstu fjórar viðureignir og þar fór fremstur Margeir Pétursson sem vann allar skákir sínar. Margeir hefur fyrir löngu þróað með sér sinn eigin persónulega stíl sem kom vel fram í laglegri vinningsskák í 4. umferð:

Evrópumót skákklúbba 2021:

Emil Risteski (Gambit Asseko) – Margeir Pétursson (TR )

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 g6 3. c3

Margeir fékk Alapin-afbrigðið einnig upp í 1. umferð gegn Markus Ragger.

3. … d5 4. e5 a6 5. h3 Rc6 6. d4 Bg7 7. Be2 f6 8. exf6 Rxf6 9. dxc5 O-O 10. O-O e5 11. Ra3 h6 12. Rc2 Be6 13. Rh2 Kh7 14. Be3 Dd7 15. Bd3 Had8 16. f4

Hvorki betri leikur né verri en aðrir kostir.

16. … d4 17. cxd4?

Hann gat haldið jafnvægi með 17. fxe5 því að eftir 17. … dxe3 kemur 18. exf6 Bxe6 19. Be4 og hvítur heldur ákveðnu jafnvægi. Betra er hins vegar 17. … dxc3! og svarta staðan er eilítið betri.

17. … e4!

Lykilleikurinn. Riddarinn skreppur til d5 og staða hvíts hrynur.

– Sjá stöðumynd 1 –

18. Be2 Rd5 19. Kh1 Rxe3 20. Rxe3 Dxd4 21. Dxd4 Bxd4 22. Rc4 Bxc5 23. b3 Rd4 24. Bg4 Bxc4 25. Hfc1 b5 26. bxc4 b4 27. g3 h5 28. Bd1 e3 29. Kg2

 

 

29. … h4!

Skapar enn frekari veikingu í stöðu hvíts.

30. Rf3 Rxf3 31. Kxf3 hxg3 32. Be2 g5 33. Kxg3 Hxf4 34. Hd1

 

 

 

34. … Hd2!

Úrvinnslan er fumlaus. Svartur býður uppskipti – en á sínum forsendum!

35. Hxd2 exd2 36. Hd1 Hd4 37. Bg4 Bd6 38. Kf2 Bf4 39. Be2 a5 40. c5 Hd5 41. c6 Hc5 42. Bf3 Kg7 43. Ke2 Kf6 44. Be4 Ke5 45. Bb1 Hxc6 46. Bd3 Hc3

og hvítur gafst upp.

 

Hjörvar Steinn eða Vignir Vatnar

Barátta um efsta sætið á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur stendur nú á milli Hjörvars Steins Grétarssonar og Vignis Vatnars Stefánssonar en eftir fimm umferðir af níu í A-flokki mótsins hefur Hjörvar Steinn unnið allar skákir sínar en Vignir Vatnar kemur í humátt á eftir með 4½ vinning. Ljóst er að viðureign efstu manna í síðustu umferð verður hrein úrslitaskák.

Mótinu er skipt tvo flokka en í Opna flokknum eru Arnar Milutin Heiðarsson og Jóhann Ragnarsson efstir með 4½ vinning af fimm mögulegum.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 25. september. 

- Auglýsing -