Kampakátir í Kjarvalsstofu Tiger Hillarp Persson, skákdómarinn Kristján Örn Elíasson og Vignir Vatnar Stefánsson. — Morgunblaðið/SÍ.

Á Íslandsmóti skákfélaga, keppnistímabilið 2021-2022, sem hófst í Egilshöll um síðustu helgi, hélt innreið sína ný deildaskipting sem kveður á um sex liða úrvalsdeild en jafnframt að hefðbundin keppni fari fram í öðrum deildum.

Íslandsmót skákfélaga dregur til sín nokkur hundruð skákmenn á ári hverju en var slegið af við upphaf Covid-19-faraldursins á síðasta ári og því var mikil tilhlökkun hjá skákmönnum að hefja leikinn aftur og nýr vettvangur féll vel í kramið. Teflt var í einum stórum íþróttasal en svæðið hólfað niður eins og sóttvarnareglur gera ráð fyrir.

Í úrvalsdeildinni tefla sex lið tvöfalda umferð. Nú eru gefin tvö stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Staðan eftir fyrri umferðina: 1. Taflfélag Garðabæjar 9 stig 2. TR 7 stig 3. Fjölnir 6 stig. 4. Skákdeild Breiðabliks 4 stig 5. Víkingaklúbburinn 3 stig 6. SA 1 stig.

Í 1. deild er TV með forystu, í 2. deild er -sveit skákdeildar Breiðabiks efst, í 3. deild c-sveit Skákfélags Akureyrar og í 4. deild hafði Skákfélag Sauðárkróks forystu.

Seinni umferð Íslandsmóts skákfélaga er á dagskrá í byrjun mars nk.

Vignir Vatnar vann Tiger Hillarp

Strax eftir fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga hófst fjögurra skáka einvígi Vignis Vatnars Stefánssonar við sænska stórmeistarann Tiger Hillarp Persson í Kjarvalsstofu við Austurvöll. SÍ stóð fyrir einvíginu í samvinnu við aðila á borð við Skákskóla Íslands, skákdeild Breiðabliks, Skákfélag Akureyrar og Vinnustofu Kjarvals. Gott framtak og sigur Vignis Vatnars, 2½:1½, sérlega ánægjulegur og í raun sanngjarn því varla er hægt að segja að hann hafi komist í taphættu gegn mun stigahærri andstæðingi. Hann vann aðra skák einvígisins en hinum lauk með jafntefli:

2. einvígisskák:

Vignir Vatnar Stefánsson – Tiger Hillarp Persson

Enskur leikur

1. Rf3 Rf6 2. c4 c5 3. Rc3 e6 4. g3 b6 5. Bg2 Bb7 6. 0-0 a6 7. He1 d6 8. e4 Dc7 9. b3 Be7 10. Bb2 0-0 11. d4 cxd4 12. Rxd4 He8 13. Hc1 Rbd7 14. f4 Hac8?

Í „broddgaltar-afbrigðinu“ er aldrei of varlega farið. Þessi leikur er ónákvæmur eins og Vignir sýnir strax fram á.

15. e5!

15….dxe5 16. fxe5 Rxe5 17. Bxb7 Hcd8

Sennilega hefur Tiger reiknað með að þessi leikur bjargaði málum. Svartur hótar 18…. Hxd4 19. Dxd4 Bc5 o.s.frv.

18. Ra4! Bc5 19. Bg2?

Slakur leikur sem skilar miklum ávinningi strax til baka og gott betur. Eftir 19. De2! stendur hvítur til vinnings.

19….Rg6 20. b4 Bxb4 21. Db3? Bxe1 22. Hxe1 e5 23. Rf5

23…. He6?

Það er hér sem Tiger missir af besta tækifæri sínu. Hann átti 23… b5! og hefur þá betra tafl því að 24. cxb5 axb5 25. Dxb5? strandar á 25…. Hb8 og svartur stendur til vinnings.

24. Re3! h5? 25. Rd5! Rxd5 26. cxd5 Hf6 27. Hc1 Db8 28. Rc3 b5 29. Re4 Hb6 30. d6 Hbxd6 31. Rxd6 Dxd6 32. Hf1 Hd7 33. h4 Rf8 34. De3 f6 35. Bf3 Dd3 36. Df2 Dg6 37. Kh2 Re6 38. De2 Dd3 39. Hd1 Dxd1 40. Dxd1 Hxd1 41. Bxd1

Eftir miklar sviptingar er komið upp endatafl þar sem svartur hefur þrjú peð fyrir manninn. En biskuparnir eru allsráðandi.

41…. g6 42. Bb3 Kf7 43. Kg2 b4 44. Kf3 Ke7 45. Bc2 Rf8 46. Ke4 Kd6 47. Kd3 Kc5 48. Bc1 Re6 49. Be3+ Kb5 50. Bb3 Rg7 51. Bc4+ Ka5 52. Bf7 Rf5 53. Bxg6

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 9. október 2021. 

- Auglýsing -