Fullt hús Hjörvar Steinn Grétarsson (t.v.) vann úrslitaskákina við Vigni Vatnar Stefánsson í lokaumferð haustmóts TR. — Ljósmynd/Hallfríður Sigurðardóttir

Armeninn Tigran Vartan Petrosjan er merkilegt fyrirbrigði í skáksögunni. Hann varð heimsmeistari árið 1963 með því að vinna Mikhail Botvinnik 12½:9½ og hélt titlinum í sex ár. Hann hafði teflt 27 skákir í áskorendamótinu í Curacao 1962 án þess að tapa og á millisvæðamótinu í Stokkhólmi sama ár var hann einnig taplaus. Hann hafði tekið þátt í sjö ólympíumótum og aldrei tapað. Sumarið 1969 missti hann heimsmeistaratitilinn til Boris Spasskí en varð efstur á sovéska meistaramótinu um haustið ásamt Polugajevskí, taplaus, og vann svo einvígið um titilinn, 3½:1½.

Petrosjan hafði ekki tapað skák í áskorendaeinvígjunum 1971 er hann mætti til leiks gegn Fischer; honum hafði dugað sigur og sex jafntefli í fyrsta einvígi við V-Þjóðverjann Robert Hübner, sem vegna slæmrar hljóðvistar á einvígisstað hætti keppni þegar þrjár skákir voru ótefldar. Síðan vann Petrosjan Viktor Kortsnoj og aftur dugði einn sigur og svo níu jafntefli.

Eins og stundum vill verða með þá sem þróað hafa með sér næmt hættuskyn var Tigran alltaf svolítið hræddur við að tapa og engan mann óttaðist hann meira en Bobby Fischer. En fyrsta skákin hafði hrist upp í honum og hann sýndi á sér óvæntar hliðar í næstu viðureign:

Áskorendakeppnin, Buenos Aires 1971; 2. skák:

Tigran Petrosjan – Bobby Fischer

Grünfelds-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. Bf4 Bg7 5. e3 c5 6. dxc5 Da5 7. Hc1 Re4

Lítt þróað afbrigði í þá daga en sást síðar í einvígi Karpovs og Kasparovs.

8. cxd5 Rxc3 9. Dd2 Dxa2 10. bxc3 Da5 11. Bc4 Rd7 12. Re2 Re5 13. Ba2 Bf5?

Slakur leikur og helsta ástæðan fyrir hrakförunum. Það er eins og Fischer hafi ofmetið biskupaparið.

14. Bxe5!

Einfalt og snjallt. Annar leikur sem „vélarnar“ telja jafnvel betri er 14. e4!

14. … Bxe5 15. Rd4 Dxc5 16. Rxf5 gxf5 17. 0-0 Da5 18. Dc2 f4 19. c4 fxe3 20. c5!

„… láta velta á vorsins eld þinn vetrarsnjáða yfirbótafeld.“ Hending úr kvæðabálknum Rubaiyat eftir Persaskáldið Omar Khayyám flýgur manni í hug. Petrosjan brýtur af sér alla hlekki hugans og teflir frábæra skák.

20. … Dd2 21. Da4 Kf8 22. Hcd1 De2 23. d6! Dh5 24. f4 e2

25. fxe5 exd1(D) 26. Hxd1 Dxe5 27. Hf1!

Petrosjan beinir skeytum sínum að f7-peðinu og þar með kóngsstöðunni. Svartur er varnarlaus.

27. … f6 28. Db3 Kg7 29. Df7 Kh6 30. dxe7 f5 31. Hxf5 Dd4+ 32. Kh1

– og svartur gafst upp.

Í næstu skák sótti Fischer í byrjun fast að Petrosjan sem varðist öllum atlögum og náði síðan betra tafli. Þá kom þessi staða upp:

Áskorendakeppnin, Buenos Aires 1971; 3. skák:

Bobby Fischer – Tigran Petrosjan

Svartur á með hægfæra þróun peðastöðunnar á drottningarvæng að geta teflt til vinnings. En skákin tók óvænta stefnu:

30. De2 De5 31. Dh5 Df6 32. De2 He5 33. Dd3 Hd5

Þegar hér var komið sögu kallaði Fischer á skákstjórann Lothar Schmid og krafðist jafnteflis á þeirri forsendu að eftir fyrirhugaðan leik, 34. De2, væri sama staðan komin upp þrisvar. Gremjulegt fyrir Petrosjan sem hefði átt að leika 33. … b5 og nudda taflið áfram lengi vel því að óvirk staða hvíts er erfið.

Fjórða varð stutt jafntefli og í þeirri fimmtu átti Petrosjan góð færi í miðtaflinu en jafntefli varð niðurstaðan. Eftir fimm skákir af tólf var staðan því jöfn, 2½:2½.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 16. október 2021. 

- Auglýsing -