Góð frammistaða Guðmundur Kjartansson hefur náð bestum árangri íslenska liðsins og er með 5 vinninga eftir sex umferðir. — Morgunblaðið/Gunnar Björnsson

Æsispennandi lokaumferð lauk á Evrópumóti landsliða í skák í dag. Okkar fólk endaði mótið með stæl og í fyrsta skipti á mótinu unnu við sigur bæði í opnum flokki og í kvennaflokki. Úkraínumenn komu, sáu og sigruðu. Ótrúlegur liðssigur Úkraínumanna sem tefldu án Ivanchuk, Ponomariov og Eljanov sem hafa verið þeirra bestu menn í langan tíma.

Kósóvómenn reyndust ekki mikil mótstaða í lokaumferðinni. Okkar menn unnu 3,5-0,5 sem er góður sigur. Hjörvar var eini sem missti niður jafntefli en andstæðingur hans líka sá langsterkasti í sveitinni. Guðmundur Kjartansson innsiglaði gott mót og endaði með 7,5 vinning af 9 á mótinu, geggjaður árangur!

Hjörvar fékk eitthvað betra en náði ekki að gera sér mat úr því í byrjuninni. Saraci tefldi vel og var kominn með betra en fór þá að „redúsera primitíft“ svo vitnað sé í Inga R. Jóhansson heitinn. Jafntefli var alltaf líklegast en Hjörvar lét Saraci aðeins hafa fyrir því í lokin.

Hannes endaði mótið á jákvæðan hátt og seinni hálfleikur mótsins mun betri hjá Hannesi. Það má með sanni segja að Hannes hafi „kreyst drulluna“ úr andstæðingi sínum í dag enda var drottningarendataflið líklegast steindautt jafntefli.

Helgi átti ekki í teljandi vandræðum með Perpatim Makolli. Makolli er ágætis skákmaður þannig séð en númeri of lítill fyrir svona mót. Mistök í byrjuinni gáfu Helga strategískt þægilegt tafl og svo fékk Helgi létta æfingu í taktík í lokin.

Guðmundur kláraði sitt mót með „klassískum“ Gumma svíðingi með svörtu í Caro-Kann

Lokaniðurstaðan varð 25. sæti en Ísland var númer 27 í styrkleikaröðinni. Viðunandi árangur ef horft er á sæti en heilt yfir voru of margar viðureignir vonbrigði og meira býr í liðinu. Sést að í raun best á því að allir lækkuðu á stigum nema Guðmundur sem svo sannarlega dróg vagninn……það vann enginn Guðmund!

Spennan á toppnum var hreint út sagt rosaleg í opna flokknum! Fjórar þjóðir voru jafnar fyrir lokaumferðina, Frakkland, Azerbaijan, Armenía og Úkraína. Fyrir lokaumferðina stóðu Úkraínumenn verst að vígi þegar kemur að oddastigum. Þjóðirnar mættust innbyrðis í lokin, Frakkar mættu Azerum og Úkraínumenn mættu Armenum.

Snemma náðu Úkraínumenn að vinna skák, Korobov lagði Sargissian á fyrsta borði. Eftir magnaða skák og baráttu náði Volokitin líka að vinna þannig að Úkraínumenn unnu 3-1 sigur. Flestir héldu að nú þyrftu þeir að treysta á Azera til að halda jafntefli í sinni viðureign. Allar skákir þar höfðu enda með jafntefli en Alireza Firouzja var með hróksendatafl, 2 peð gegn 1 á móti Shakh Mamedyarov. Úkraínumenn með pálmann í höndunum! Þá gerðist hið ótrúlegt, Alireza nær að svíða endataflið á móti Mamedyarov!

Ótrúlegur sigur hjá Alireza sem nær nú að komast yfir 2800 stiga múrinn, yngstur skákmanna í gjörvallri skáksögunni! Magnað afrek! Það hefði líka verið magnað afrek að tryggja Frökkum Evrópumeistaratitilinn en á endanum höfðu Úkraínumenn betur og brúðu bilið og gott betur í oddastigunum. Vóg þar mest glæsilegur 3-1 sigur í lokaumferðinni og en oddastigin eru „vegin“ þannig að það er betra að vinna stórt þegar kemur að þeim. Æsispennandi mót og stórkostlegur sigur hjá Úkraínumönnum…liðsstjóri þeirra Oleksandr Sulypa mikill Íslandsvinur og bæði haldið hér námskeið og teflt með Taflfélagi Reykjavíkur.

En yfir í kvennakeppnina. Rússar unnu yfirburðasigur, gáfu engan grið og unnu allar sínar viðureignir, níu af níu og enginn afsláttur!

Ísland mætti N-Makedónu í lokaumferðinni. Ein af tveimur sveitum sem var fyrir neðan okkur í styrkleikaröðinni.

Lenka lagði grunninn með góðum sigri á fyrsta borði. Lenka tefldi allar skákirnar og sýndi mikinn karakter á mótinu!

Jóhanna lenti í erfiðri vörn en náði að bjarga erfiðu endatafli í blálokin. Það fyndna við endataflið er að ef að Bojana hefði mætt á æfingar íslenska kvennaliðsins hefði hún mögulega þekkt endataflið betur og náð að kreysta fram vinning í lokin!

Liss tapaði sinni skák eftir mistök í miðtaflinu. Staðan var fín en líklega hófst spírallinn niður á við í kjölfarið á …g6 leiknum sem var veiking sem reyndist á endanum erfið fyrir svart.

Hrund endaði mótið með glæsibrag og vann sinn fyrsta sigur og tryggði jafnframt liðssigur í lokaumferðinni!

Lokaniðurstaðan hjá kvennasveitinni var nokkuð góð. Sveitin var númer 29 í styrkleikaröðinni, þriðja neðsta sveitin. Okkar stúlkur unnu sveitirnar fyrir neðan en unnu auk þess góðan sigur á Tyrkjum og enduðu með 7 matchpoints í 27. sæti með sveitum á borð við Ísrael og Króatíu.

Skemmtilegt Evrópmót að baki…næst á dagskrá er sjálft Heimsmeistaraeinvígið! Veislan heldur áfram!

Opinn flokkur á Chess-results

Kvennaflokkur á Chess-results

- Auglýsing -