Morgunblaðið/Dirk Jan ten Geuzendam

Jan Timman sat ekki auðum höndum meðan Covid-faraldurinn geisaði um heim allan. Meðal verka sem hann sendi frá sér er ágæt bók, The Unstoppable American Bobby Fischer’s road to Reykjavik. Bókin fjallar um feril Fischers frá því hann „snýr aftur“ vorið 1970 og fram að heimsmeistaraeinvíginu í Reykjavík sumarið 1972. Max Euwe hafði valið hann til að tefla á 1. borði heimsliðsins gegn úrvalsliði Sovétríkjanna en eftir mótmæli Bents Larsens sættist Fischer á að mæta Tigran Petrosjan á 2. borði. Sigurgangan sem bókin fjallar um á sér ekki hliðstæðu í skáksögunni; 3:1 sigur yfir Petrosan í keppninni HEIMURINN – Sovétríkin, sigur á óopinberu heimsmeistaramóti í hraðskák í Herceg Novi, 19 v. af 22, en Tal kom næstur með 14½ v. Sigur á alþjóðlega mótinu í Rovinj og Zagreb, 13 v. af 17, og aftur sigur á alþjóðlegu móti í Buenos Aires, 15 v. af 17. Hann hlaut 10 v. af 13 á 1. borði Bandaríkjamanna á Ólympíumótinu í Siegen, sigraði með yfirburðum á millisvæðamótinu í Palma í árslok með 18½ v. af 23. Síðan kom áskorendakeppnin með 6:0 sigri yfir Taimanov í Vancouver í Kanada og aftur 6:0 sigur yfir Bent Larsen í Denver í Bandaríkjunum og svo vann hann Petrosjan, 6½:2½, í Buenos Aires í Argentínu. Ef taldar eru allar kappskákir hans – og þar bætist við skák við Ulf Andersson, sem kostuð var af sænska dagblaðinu Expressen – tefldi Fischer 96 kappskákir á þessu tímabili, vann 66, gerði 26 jafntefli en tapaði fjórum sinnum, rösklega 82% árangur. Timman telur ekki með sigur yfir Oscar Panno úr síðustu skák millisvæðamótsins. Það finnst mér hæpið því að Fischer lék, 1. c4, náði í Panno sem mætti, stöðvaði klukkuna og gafst upp. Hann hafði viljað mótmæla sérréttindum þeim sem hann taldi Fischer njóta og hafði nokkuð til síns máls; aðaldómarinn í Palma, Belginn Alberic O’ Kelly, kom fram sem einhvers konar einkaþjónn Fischers. Með sjö sigrum í lokaumferðunum bættust svo 13 sigrar í áskorendakeppninni, samtals 20 sigurskákir í röð gegn fremstu skákmönnum heims.

Timman hefur áreiðanlega rétt fyrir sér er hann fullyrðir að Fischer hafi teflt hverja einustu skák til sigurs. Hann virtist stundum taka nokkra áhættu en einbeittur sigurviljinn hafði greinilega mikil áhrif á andstæðinga hans. Ólympíumótið í Siegen var lakasta mót hans en þar hlaut hann 10 vinninga af 13 mögulegum.

Samt voru þarna margar eftirminnilegar skákir; fimm sigrar í undarásum en í úrslitakeppninni fékk hann einungis 5 v. af átta mögulegum. Hann tapaði fyrir Spasskí í frægri skák en á einu augnabliki gegn Hort og Gligoric var hann með tapað tafl og með tapað lengi vel gegn Portisch í lokaumferðinni.

Ól í Siegen 1970:

Fischer – Hort

Hort bauð jafntefli um það leyti sem skákin fór í bið. Því var hafnað. Hér lék hann 51. … Bb4 en átti 51. … Bxe1! 52. Kxe1 Be6. Eftir að b3-peðið fellur staðfesta „vélarnar“ að svarta staðan er unnin.

 

 

Ól í Siegen 1970:

Gligoric – Fischer

Síðasti leikur svarts var 38. … Hh7-h6 . Hann hefði betur byrjað á 38. … Ke5 og Þá hefði sama staðan komið upp eftir 39. Kf3 Hh6. Nú lék Gligoric 39. Kf3 , svartur svaraði með 39. … Ke5 og vann eftir 65 leiki. Timman bendir réttilega á að eftir 39. Rb1!, sé hvíta staðan unnin. Riddarinn er á leið til d2 og þaðan til c4.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 23. apríl 2022.

- Auglýsing -