Atskákmót hjá TR í kvöld. Tefldar eru fimm skákir og tímamörkin eru 10 mínútur á skákina að viðbættum 5 sekúndum á hvern leik. Teflt er í einum flokki. Mótin eru öllum opin og reiknuð til alþjóðlegra atskákstiga. Teflt er í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og taflmennskan hefst stundvíslega klukkan 19:30. Það þarf ekki að skrá sig fyrirfram, nóg að mæta á staðinn. Umsjón með mótunum hafa þeir Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll Jónsson. Þátttökugjald er 500kr. en frítt er fyrir 17 ára og yngri.

Veitt eru verðlaun, 3000 króna inneign í Skákbúðina, fyrir sigurvegara mótsins, og fyrir bestan árangur miðað við eigin stig (rating performance).

————–

Davíð Kjartansson var í tvöföldu hlutverki á síðasta Þriðjudagsmóti, því samtímis þvi að sinna líflegri  verslun á vegum Skákbúðarinnar sem fór fram í rýminu við skáksalinn lét hann sig ekki muna um að taka líka þátt og vinna mótið.

Davíð gaf ekki mikil færi á sér og endaði með fullt hús vinninga. Hann var aldrei í hættu; einna helst var það Þórður Arnarson sem virtist hafa sæmilega vænlega stöðu á tímabili gegn honum í 3. umferð en Davíð sá við öllu og hafði sigur að lokum. Í öðru sæti varð síðan Kristófer Orri með 4 vinninga. Hann var þó taplaus en jafntefli í 2. umferð gegn Mohammadhossein Ghasemi og svo annað gegn Guðna Péturssyni í 4. umferð þýddi að hann tefldi aldrei við Davíð. Jafntefli eru dýr þegar umferðirnar eru ekki fleiri. Í þriðja sæti varð síðan áðurnefndur Mohammadhossein en hann varð efstur þriggja með 3½ vinning. Loks varð Sigurbjörn Magnússon efstur á frammistöðustigum. Hann varð í 14. sæti en eins og jafnan þegar stigalausir standa sig vel, telur frammistaðan mikið og ekkert nema gott um það segja.

Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má annars nálgast hér á chess-results.

 

- Auglýsing -