Frá HM öldunga. Mynd: FIDE

Tveir íslenskir stórmeistarar sitja að tafli erlendis þessa dagana. Henrik Danielsen (2514) teflir á HM öldunga á Ítalíu en Héðinn Steingrímsson (2504) teflir á alþjóðlegu móti í Dallas í Bandaríkjunum.

Henrik teflir í flokki 50+ og hefur 5 vinninga að loknum 8 umferðum. Slæmur kafli í 5.-6. umferð þegar tvær skákir töpuðust. Henrik hefur hins vegar unnið tvær skákir í röð og er í 24.-38. sæti. Alls eru tefldar 11 umferðir.

Alls taka 148 þátt í flokki Henriks og þar af 14 stórmeistarar. Henrik er næststigahæstur keppenda.

——

Héðinn Steingrímsson teflir á alþjóðlegu móti í Dallas í Bandaríkjunum. Héðinn vann stigalágan andstæðing í gær. Í dag eru tefldar tvær umferðir.

Alls taka 22 skákmenn þátt í flokki Héðins. Héðinn er fjórði í stigaröð keppenda.

- Auglýsing -