Hraðskákmeistarar Víkingaklúbbsins. Mynd: Helgi Árnason.

Hraðskákmót taflfélaga 2023 bar að þessu sinni upp á Íslenska skákdaginn 26. janúar. Mótið var síðast haldið í september 2019 og því orðið langþráð tækifæri íslenskra skákmanna að takast á við taflborðið á þessum skemmtilega vettvangi.

Séð yfir skáksalinn. Mynd: HÁ

Skákdeild Fjölnis hefur haldið utan um hraðskákmótið í nokkur ár og svo var einnig nú. Sjö taflfélög skráðu 14 sveitir til leiks á mótið sem haldið var í sal Rimaskóla. Fínasta þátttaka og flestir af sterkustu skákmönnum landsins mættir til að tefla fyrir félögin sín.

Viðureign efstu sveitanna Víkingaklúbbsins og A sv. Breiðabliks

Tefldar voru 7 umferðir þar sem skámenn tefldu með svart og hvítt í hverri umferð, samtals 14 skákir með tímamörkin 3.2. Skákstjóri var Kristján Örn Elíasson.

Silfursveit Breiðabliks. Mynd: HÁ

Víkingasveitin, með grjótharða og þétta skáksveit og stórmeistarann Jóa Hjartar á 1. borði, vann mótið örugglega að þessu sinni. Víkingarnir hlutu 68 vinninga af 84 mögulegum eða rúmlega 80% vinningshlutfall. Vel gert. Baráttan um silfrið og bronsið reyndist meiri allt að lokum. Breiðablik A sveit náði 2. sætinu með Vigni Vatnar á 1. borði og sveit TR-A  sveit nældi í 3. sætið með einum vinningi minna en Blikarnir. Verðlaun B sveita hlutu Breiðabliksmenn en TR ingar hirtu til sín verðlaunagripi fyrir bestu C og D sveitirnar.

Bronssveit TR. Mynd: HÁ.

Mótið gekk nokkuð fljótt og vel fyrir sig. Skákin hófst kl. 19.00 og endaði með verðlaunaafhendingu kl. 22:30.

Skákdeild Fjölnis þakkar taflfélögunum fyrir góða þátttöku og velmannaðar skáksveitir. Ósk Fjölnismanna er að hraðskákmótið festi sig í sessi sem viðburður á Íslenska skákdeginum.

- Auglýsing -