Gull og silfur Vignir Vatnar Stefánsson og Alexandr Domalchuk-Jónasson báru af í efsta flokki á NM í skólaskák. — Ljósmynd/Helgi Ólafsson

Vignir Vatnar Stefánsson, nýorðinn 20 ára, kvaddi þennan keppnisvettvang, Norðurlandamótið, um síðustu helgi með öruggum sigri. Hlaut hann 5½ vinning af sex mögulegum og vann þar með sinn fjórða titil í einstaklingskeppni mótsins. Hann vann fyrst yngsta flokk Norðurlandamótsins árið 2013 á Bifröst og hefur verið með í öllum skólaskákmótunum frá árinu 2011 að einu móti undanskildu. Er hann einn sigursælasti keppandi þessara móta a.m.k. hvað titla varðar en margir af fremstu skákmönnum Norðurlanda hafa verið meðal þátttakenda, þ.á m. Magnús Carlsen.

Vignir Vatnar átti í harðri keppni við Alexandr Domalchuk-Jónasson sem hlaut fimm vinninga og lögðu þeir drjúgan skerf til vinningatölunnar samanlagt en íslenski hópurinn, sem taldi 10 keppendur í fimm aldursflokkum, hlaut 33 vinninga. Norðmenn fengu flesta vinninga en síðan komu Danir og Íslendingar í 3. sæti í hinni óopinberu keppni landanna sex. Frammistaðan í lokaumferðinni, 8½ v. af tíu mögulegum, hífði liðið upp. Margir af okkar keppendum voru á fyrra ári í riðlunum fimm.

Vignir Vatnar missti vinningsstöðu niður í jafntefli í 1. umferð og því var alls ekki ljóst hvort sigurinn í A-riðli yrði hans. Skák hans við Alexandr Domalchuk var um skeið jafnteflisleg en svo kom þessi staða upp:

NM í skólaskák 2013; 4. umferð

Vignir Vatnar Stefánsson – Alexandr Domalchuk-Jónasson

Síðasti leikur Vignis var hinn sakleysislegi 35. Hda7. Það var ekkert sem benti til annars en að hann vildi fara í uppskipti á a5 með dauðri jafnteflisstöðu.

35. … Hxc3?

Alexandr var orðinn dálítið tímanaumur og sá að hann gat leikið 35. … h5 en eftir 36. Hxa5 þarf hann ekki að fara í kaup strax heldur leikur best 36. … Hxc3 og eftir 37. Hxf5 exf5 er staðan auðvitað ekkert nema jafntefli.

36. g4!

Vignir grípur tækifærið.

36. … Hf6 37. Hf8! h5 38. g5 Hf5 39. Hfxf7 Hxf7 40. Hxf7

Eftir þessi óhagstæðu uppskipti á peðum er staða svarts afar erfið viðureignar, sennilega töpuð.

40. … Kg6 41. Ha7 Hc5 42. Kg3 Hb5 43. Kf4 Hf5+ 44. Ke4 Hb5 45. f4 Hb4+ 46. Ke5 a4 47. e4 Kh7 48. f5 exf5 49. exf5

Þó að liðsafli sé jafn ræður svartur ekki við peðaflauminn á kóngsvæng.

49. … Kg8 50. Ha8+ Kf7 51. g6+ Ke7 52. Hg8 Hb5+ 53. Kf4 Kf6 54. Hf8+ Ke7 55. Hf7+ Ke8 56. Hxg7 Ha5 57. f6 a3 58. f7+ Ke7 59. Hg8 Ha4+ 60. Kg5 Hg4+ 61. Kxh5 Hf4 62. He8+

– og svartur gafst upp.

Glæsilegur sigur Helga Áss

Helgi Áss Grétarsson vann glæsilegan sigur á Skákhátíð Fulltingis sem lauk sl. mánudag. Helgi náði þá að vinna stigahæsta keppanda A-riðils, Hjörvar Stein Grétarsson, í aðeins 33 leikjum og kórónaði með því frábæra frammistöðu sína í mótinu en hann vann allar þær fimm skákir sem hann tefldi, sem þýddi að með tveimur yfirsetum hlaut hann sex vinninga af sjö mögulegum. Erfiðar samgöngur og veikindi settu nokkurn svip á mótið, sem að öðru leyti heppnaðist vel. Vignir Vatnar Stefánsson varð í 2. sæti með fimm vinninga og í 3.-5. sæti komu Bragi Þorfinnsson, Jóhann Hjartarson og Þröstur Þórhallsson með 4½ vinning. Keppendur í A-riðli voru 26 talsins.

Í B-riðli varð Arnar Milutin Heiðarsson hlutskarpastur, hlaut fimm vinninga af sex mögulegum, Í 2.-3. sæti komu Lenka Ptacnikova og Gauti Páll Jónsson með 4½ vinning.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 25. febrúar 2023

- Auglýsing -