Alþjóðlegur meistari Dagur Ragnarsson (fremst t.h.) náði lokaáfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli í Kragerö um síðustu helgi. Hér er hann á æfingu u-25 hóps Skákskólans sl. miðvikudagskvöld. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson

Nú þegar heimsmeistaraeinvígi Kínverjans Ding Liren og Rússans Jan Nepomniachtchi stendur fyrir dyrum og hefst samkvæmt dagatali FIDE þann 7. apríl nk. rifjast upp barátta og samkeppni tveggja frægra meistara á sjötta áratug síðustu aldar. Samuel Reshevsky og Miguel Najdorf fæddust báðir í Póllandi og Reshevsky, sem fluttist með foreldrum sínum til Bandaríkjanna kornungur, er án efa eitt frægasta undrabarn skáksögunnar. Najdorf heimsþekktur líka, ekki síst vegna heimsmets í blindfjöltefli sem fram fór eftir Ólympíumótið í Buenos Aires 1939 og mátti telja einhverskonar neyðarkall því fjölskylda hans í Póllandi var þá ofurseld æði þýsku nasistanna sem höfðu ráðist inn í Pólland.

Najdorf var sniðgenginn þegar heimsmeistaramótið í skák fór fram árið 1948 og er almennt talið að Mikhael Botvinnik og sovéska skáksambandið hafi átt stóran þátt í að koma í veg fyrir þátttöku hans. Najdorf hafði unnið Botvinnik á fyrsta stórmóti skákarinnar eftir lok seinni heimsstyrjöldina sem haldið var í Groningen árið 1946. Hann hafði lagt undir og vann góðan skilding í veðmáli um að slíkt myndi akkúrat gerast. Botvinnik var ekki skemmt.

Árið 1952 hófst í New York fyrsti áfangi einvígis þessara tveggja og gekk undir nafninu heimsmeistaraeinvígi hins frjálsa heims. Ekki galin nafngift því ári síðar í áskorendamótinu í Zürich voru sovésku keppendurnir að sögn Davids Bronsteins undir þrýstingi um að hagræða úrslitum til að koma í veg fyrir að Reshevsky ynni mótið og þar með áskorunarréttinn. Einvíginu var haldið áfram í Mexíkóborg og San Salvador. Í því kom greinilega fram að Reshevsky, sem vann 11:7, var langtum fremri en Najdorf. Lítum á eina skák úr einvíginu:

San Salvador 1952; 16. skák

Samuel Reshevskí – Miguel Najdorf

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. e3 a6 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bb3 c5 9. O-O Bb7 10. De2 Rbd7 11. Hd1 Db6 12. d5 e5

Nú til dags leika menn frekar c5-c4 því peðið á e6 gegnir oft ákveðnu varnarhlutverki.

13. a4 c4 14. Bc2 Hc8?

Ónákvæmni og Reshevsky er fljótur að refsa.

15. axb5 axb5

(Sjá stöðumynd 1)

16. Rxb5!

Bráðsnjöll leið sem byggist á leppun riddarans á d7.

16. … Dxb5 17. Ba4 Dc5 18. Rxe5 Dc7 19. Rxd7 Rxd7 20. Dg4

20. e4! var sennilega sterkara því 20. … Bxd6 er svarað með 21. e5! Bxe5 22. f4 o.s.frv.

20. … h5 21. Dh3 Bd6 22. Bd2 Ha8 23. Bc3 f6?

Hann gat barist betur með 23. … Hxa4 24. Hxa4 Re5.

24. Bc6! Hxa1 25. Hxa1 Bxc6 26. De6 Kf8 27. dxc6 Rb8

27. … Dxc6 strandar á 28. Bb4! Rc5 29. Bxc5 og vinnur.

28. Ha8 De7 29. Dd5 g6

 

 

 

30. Bb4!

– og svartur gafst upp.

Vignir Vatnar teflir á EM einstaklinga

Vignir Vatnar Stefánsson er fulltrúi Íslands á Evrópumóti einstaklinga sem hófst ín gær í Vrnjacka Banja í Serbíu. Mótið er geysilega sterkt því að á meðal tæplega 500 skráðra keppenda eru um 50 með 2600 elo-stig og meira. Vignir vantar einn áfanga í opnu móti til að verða útnefndur stórmeistari. Tefldar verða ellefu umferðir sem hefjast flestar kl. 14 að íslenskum tíma.

Á dögunum bárust þær fréttir úr herbúðum rússneska skáksambandsins að það hefði sagt skilið við ECU, Evrópska skáksambandið, sem stendur fyrir mótinu í Serbíu. Rússarnir vilja í staðinn efla tengsl við skáksambönd í Asíu.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 4. mars 2023

- Auglýsing -