
Nú þegar heimsmeistaraeinvígi Kínverjans Ding Liren og Rússans Jan Nepomniachtchi stendur fyrir dyrum og hefst samkvæmt dagatali FIDE þann 7. apríl nk. rifjast upp barátta og samkeppni tveggja frægra meistara á sjötta áratug síðustu aldar. Samuel Reshevsky og Miguel Najdorf fæddust báðir í Póllandi og Reshevsky, sem fluttist með foreldrum sínum til Bandaríkjanna kornungur, er án efa eitt frægasta undrabarn skáksögunnar. Najdorf heimsþekktur líka, ekki síst vegna heimsmets í blindfjöltefli sem fram fór eftir Ólympíumótið í Buenos Aires 1939 og mátti telja einhverskonar neyðarkall því fjölskylda hans í Póllandi var þá ofurseld æði þýsku nasistanna sem höfðu ráðist inn í Pólland.
Najdorf var sniðgenginn þegar heimsmeistaramótið í skák fór fram árið 1948 og er almennt talið að Mikhael Botvinnik og sovéska skáksambandið hafi átt stóran þátt í að koma í veg fyrir þátttöku hans. Najdorf hafði unnið Botvinnik á fyrsta stórmóti skákarinnar eftir lok seinni heimsstyrjöldina sem haldið var í Groningen árið 1946. Hann hafði lagt undir og vann góðan skilding í veðmáli um að slíkt myndi akkúrat gerast. Botvinnik var ekki skemmt.
Árið 1952 hófst í New York fyrsti áfangi einvígis þessara tveggja og gekk undir nafninu heimsmeistaraeinvígi hins frjálsa heims. Ekki galin nafngift því ári síðar í áskorendamótinu í Zürich voru sovésku keppendurnir að sögn Davids Bronsteins undir þrýstingi um að hagræða úrslitum til að koma í veg fyrir að Reshevsky ynni mótið og þar með áskorunarréttinn. Einvíginu var haldið áfram í Mexíkóborg og San Salvador. Í því kom greinilega fram að Reshevsky, sem vann 11:7, var langtum fremri en Najdorf. Lítum á eina skák úr einvíginu:
San Salvador 1952; 16. skák
Samuel Reshevskí – Miguel Najdorf
Slavnesk vörn
1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. e3 a6 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bb3 c5 9. O-O Bb7 10. De2 Rbd7 11. Hd1 Db6 12. d5 e5
Nú til dags leika menn frekar c5-c4 því peðið á e6 gegnir oft ákveðnu varnarhlutverki.
13. a4 c4 14. Bc2 Hc8?
Ónákvæmni og Reshevsky er fljótur að refsa.
15. axb5 axb5
(Sjá stöðumynd 1)
16. Rxb5!
Bráðsnjöll leið sem byggist á leppun riddarans á d7.
16. … Dxb5 17. Ba4 Dc5 18. Rxe5 Dc7 19. Rxd7 Rxd7 20. Dg4
20. e4! var sennilega sterkara því 20. … Bxd6 er svarað með 21. e5! Bxe5 22. f4 o.s.frv.
20. … h5 21. Dh3 Bd6 22. Bd2 Ha8 23. Bc3 f6?
Hann gat barist betur með 23. … Hxa4 24. Hxa4 Re5.
24. Bc6! Hxa1 25. Hxa1 Bxc6 26. De6 Kf8 27. dxc6 Rb8
27. … Dxc6 strandar á 28. Bb4! Rc5 29. Bxc5 og vinnur.
28. Ha8 De7 29. Dd5 g6
30. Bb4!
– og svartur gafst upp.
Vignir Vatnar teflir á EM einstaklinga
Vignir Vatnar Stefánsson er fulltrúi Íslands á Evrópumóti einstaklinga sem hófst ín gær í Vrnjacka Banja í Serbíu. Mótið er geysilega sterkt því að á meðal tæplega 500 skráðra keppenda eru um 50 með 2600 elo-stig og meira. Vignir vantar einn áfanga í opnu móti til að verða útnefndur stórmeistari. Tefldar verða ellefu umferðir sem hefjast flestar kl. 14 að íslenskum tíma.
Á dögunum bárust þær fréttir úr herbúðum rússneska skáksambandsins að það hefði sagt skilið við ECU, Evrópska skáksambandið, sem stendur fyrir mótinu í Serbíu. Rússarnir vilja í staðinn efla tengsl við skáksambönd í Asíu.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 4. mars 2023