Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2521) gerði jafntefli gegn pólska alþjóðlega meistaranum Lukasz Liczernski (2460) á alþjóðlega mótinu í Przeworsk í Póllandi í gær.
Hannes hefur 5½ vinning eftir 7 umferðir og er efstur á mótinu.
Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram í dag.
Þátt taka 10 skákmenn, og tefla allir við alla. Þar af eru þrír stórmeistarar. Hannes er þriðji í stigaröð keppenda. Meðalstigin eru 2451 skákstig.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast flestar kl. 13)
———–
Guðmundur Kjartansson (2402) og, Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2338) taka þátt í alþjóðlegu móti í München í Þýskalandi.
Þeir töpuðu báðir fyrir afar sterkum andstæðingum í þriðju umferð sem fór í gær.
Gummi tapaði fyrir serbneska (áður rússneska) stórmeistaranum Alexey Sarana (2685). Hann er einn fjölda margra rússneskra skákmanna sem flutti frá heimalandinu eftir innrás Rússa í Úkranínu.. Sasha tapaði fyrir spænska stórmeistaranum Oleg Korneev (2457). Þeir hafa báðir tvo vinninga.
Tvær umferðir eru tefldar í dag og er sú fyrri nú í gangi.
162 skákmenn taka þátt í mótinu og þar af eru 12 stórmeistarar. Guðmundur er nr. 25 í stigaröð keppenda en Aleksandr er nr. 36.
———–
FIDE-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon (2279) er meðal keppenda á EM öldunga sem fram fer í Acqui Terme á Ítalíu. Hann gerði jafntefli í gær við hollenska alþjóðlega meistarann Mark Van Der Werf (2396)
Daði hefur 5½ vinning og er í 5.-12. sæti. Í dag teflir hann við enska stórmeistarann Keith Arkell (2390). Sigur gæti þýtt mögulegt verðlaunsæti. Jafnvel skipt efsta sæti.
Alls eru tefldar níu umferðir. Í flokki Sigurðar Daða (50+) eru 80 keppendur frá 25 löndum. Þar af eru 5 stórmeistarar og 7 alþjóðlegir meistarar. Daði er tíundi í stigaröð keppenda.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 13)