Alls fóru sjö skákmenn áfram í dag í opna flokknum í 16 manna úrslit á Heimsbikarmótinu í Baku í opnum flokki. Aðeins eitt einvígi þarf bráðabana á morgun. Á meðan þurfa þrjú einvígi af fjórum að fara í bráðabana í 8 manna úrslitum í kvennaflokki. Magnus Carlsen fór auðveldlega áfram og mætir Gukesh í næstu umferð, alvöru dæmi þar á ferð!

 

Magnus Carlsen (2835) – Vasyl Ivanchuk (2667)

Carlsen fór nokkuð örugglega áfram í þessari viðureign. Ólíkindatólið Ivanchuk hefur oft verið örlagavaldur í mótum hjá Carlsen. Vann hann t.d. á frægu áskorendamóti en á móti lagði hann Kramnik í lokaumferðinni sem hjálpaði svo Carlsen að komast í einvígið við Anand…and the rest is history!

Sá gamli virtist hinsvegar vanta eldmóð eða var hreinlega orðinn bensínlaus. Hann kom Carlsen á óvart í báðum skákunum en náði ekki að fylgja því eftir. Carlsen bauð Ivanchuk peð aðra skákina í röð. Líklegast voru þau í bæði skiptin eilítið eitruð en í þetta skiptið í 30. leik hafnaði Ivanchuk að taka peðið og bauð jafntefli. Carlsen hafnaði því þó að jafntefli kæmi honum áfram!

Ivanchuk virtist alveg missa móðinn, lék af sér peði af óþörfu og gaf svo í þessari stöðu.

Ljóst er að hvítur getur aldrei unnið en samt ekki alveg ljóst hvort hann þurfi að tapa. Því kom mörgum á óvart að Ivanchuk gafst upp í þessari stöðu! Hann má ekki taka peðið með …Bxb4 þar sem peðsendataflið er tapað. Hvítur þarf því að þjást í einhvern tíma peði undir en gæti mögulega myndað virki (e. fortress) eftir 5. reitarröð og haldið í horfið.

Nakamura kemur aðeins inn á það en hann skýrir báðar skákir einvígis Ivanchuk og Carlsen.

Úrslit: Magnus áfram 2-0

 

Fabiano Caruana (2782) –  Jan-Krzysztof Duda (2732)

Fabiano Caruana náði að leggja ríkjandi Heimsbikarmeistara að velli með svörtu mönnunum. Eftir kröftuga leiki 18…f5 og 19…Rc4 virtist Caruana taka yfir frumkvæðið og munaði mestu um að kóngsstaða hans var mun öruggari.

Úrslit: Caruana áfram 1,5-0,5

Ferenc Berkes (2615) – Pragganandhaa (2690)

Pragga er kominn áfram eftir flottan sigur í dag. Berkes hefur gengið vel með frönsku vörnina en Pragga var grimmur í dag og var duglegur að fórna.

27.Hxc6! var skiptamunsfórn sem opnaði flóðgáttir. Aftur fékk Pragga „Brilliant Move“ í 31. leik með Rc3xd5!!

Góð skák hjá Pragganandha

Úrslit: Pragga áfram 1,5-0,5

 

Nils Grandelius (2683) – Arjun Erigaisi (2704)

Arjun náði auðveldu jafntefli með hvítu og er kominn hér áfram. Hann mætir vini sínum og samlanda Pragganandha í næstu umferð.

Úrslit: Erigaisi áfram 1,5-0,5

Nijat Abasov(2632) – Salem A R Saleh (2661)

Nijat er á góðri leið með að vera nýjasta stjarnan í Azerbaijan. Bæði Radjabov og Mamedyarov ullu vonbrigðum þannig að hann er eina von heimamanna.

Salem reyndi að pressa á heimamanninn en hann var spakur og drep peð sem var í boði og hafði mun betra tafl. Á einum stað fékk Salem möguleika á að fórna fyrir sókn en missti af tækifærinu og eftir það virtist Abasov hafa allt „under control“ og sigldi þessu heim.

Úrslit: Abasov áfram 2-0

 

Leinier Dominguez (2739) – Alexey Sarana (2685)

Leinier vann í gær og Sarana náði engan veginn að ógna honum í dag, öruggt jafntefli og Bandaríkjamaðurinn kominn áfram og mætir samlanda sínum, Fabiano Caruana í næstu umferð.

Úrslit: Domginguez áfram 1,5-0,5

 

Wang Hao (2709) – Gukesh (2744) 

Gukesh ruggaði engum bátum með hvítu mönnunum og nældi sér í öruggt jafntefli eftir góðan sigur með svörtu mönnunum. Menn bíða spenntir eftir uppgjöri rísandi stjörnu nýju kynslóðarinnar gegn Magnus Carlsen.

Úrslit: Gukesh áfram 1,5-0,5

 

Ian Nepomniachtchi (2779) – Vidit Santosh Gujrathi (2723)

Einan viðureignin sem fer í bráðabana. Vidit hafði svart í Ítalanum og fékk ögn betra ef eitthvað er. Skákin þó alltaf frekar róleg og jafntefli líklegustu úrslitin.

Úrslit: Bráðabani!

 

Kvennaflokkur

Tan Zhongyi (2523) – Bella Khotenashvili (2475)

Sú kínverska vann í gær og þrátt fyrir mikla baráttu náði Bella ekki að búa til nægjanlegt spil til að ógna þeirri kínversku þrátt fyrir vaska baráttu.

Úrslit: Tan Zhongyi áfram 1,5-0,5

 

Nurgyl Salimova (2403) – Polina Shuvalova (2496)

Shuvalova svaraði fyrir sig og jafnaði metin 1-1 eftir mikla rússíbanaskák vægast sagt!

Úrslit: Bráðabani!

 

Anna Muzychuk (2504) – Elisabeth Paehtz (2471)

Paehtz heldur áfram að vera traust og tryggir sér bráðabana. Nær hún að leggja Wenjun OG Muzychuk??

Úrslit: Bráðabani!

Harika Dronavali (2500) – Alexandra Goryachkina (2557)

Ekkert skilur á milli og þær fara í bráðabana.

Úrslit: Bráðabani!

Upptaka af beinni útsendingu dagsins:

- Auglýsing -