Björgvin Víglundsson er kominn í ansi góða stöðu á Íslandsmóti öldunga (65+) en annarri umferð lauk í gærkvöldi. Björgvin lagði að velli næststigahæsta keppandann á mótinu, Braga Halldórsson, sem  þýðir að Björgvin er einn með fullt hús og líklegt að næsta skák gegn ríkjandi Íslandsmeistara muni jafnvel ráða úrslitum.

Lárus S Guðjónsson (0) – Þór Valtýsson (1914)

Þessi viðureign varð stutt og Þór vann í nokkrum leikjum. Lárus hefur ekki keppt mikið á kappskákmótum og augljóst að reynsluleysi og stress tóku völdin. Lárus greip um drottningu of snemma og ljóst að snertur maður hreyfður varð honum að falli.

Slysatap, gerist á öllum stigum skákarinnar. Frægt er þegar Anand tapaði í 6 leikjum. Anand var svo fljótur úr salnum að aðrir keppendur héldu að hann hefði bara samið stutt jafntefli en því var fjarri, Anand lék skelfilega af sér í byrjuninni og tapaði!

Við lifum og lærum, áfram í næstu skák!

Björgvin Víglundsson (2176) – Bragi Halldórsson (2047)

Næsta skák til að klárast var toppslagur Björgvins og Braga. Björgvin hafði hvítt og í svo stuttu móti er það ákveðin heppni að fá hvítt á réttum stöðum gegn réttum andstæðingum. Björgvin mætti Caro-kann byrjun Braga með draumóra-varíantnum (fantasy variation) 3.f3.

Björgvin fékk nokkuð þægilegt tafl, hann hélt peðamiðborði sínu (e4 og d4) og hafði auk þess biskupaparið. Í kjölfarið fékk hvítur stórhættulega frelsingja á c- og d-línunni sem leiddu svo til taktískra mistaka hjá svörtum þar sem hvítur vann mann.

Mikilvægur sigur hjá Björgvin sem er komin í mjög góða stöðu á þessu móti!

Ögmundur Kristinsson(1934) –  Kristján Örn Elíasson (1758)

Aftur átti Kristján Örn lengstu skák umferðinnar. Í gær var á ferðinni sannkölluð rússíbanaskak gegn Braga þar sem skákin skipti um eigendur eins og nærbuxur. Ögmundur hafði eitthvað betra eftir byrjunina en náði ekki að gera sér almennilega mat úr því og skákin var í jafnvægi eftir það og líklegast lítið hægt að gera á báða bóga þegar jafnteflið var samið.

Í 3. umferð fær ríkjandi Íslandsmeistari öldunga Þór Valtýsson hvítt á Björgvin Víglundsson. Líklega verður Þór að vinna þá skák til að hleypa mótinu upp. Ef Björgvin nær jafntefli eða betra stendur hann líklega ansi vel að vígi.

Björgvin hefur 2 vinninga úr 2 skákum og það lítur út fyrir að Þór Valtýsson sé líklegastur til að veita honum keppni. Ekki má þó afskrifa Ögmund en hann verður að vinna með svörtu gegn Braga til að blanda sér í baráttuna.

Næsta umferð fer fram á fimmtudag klukkan 19:30

- Auglýsing -