Olga Prudnykova hefur tekið forystu á Íslandsmóti kvenna eftir góðan sigur gegn Jóhönnu Björgu í 2. umferð. Guðlaug Þorsteinsdóttir og Lenka Ptacnikova gerðu innbyrðis jafntefli og eru hálfum vinningi á eftir Olgu. Iðunn Helgadóttir vann „unglingauppgjörið“ en það reyndist hádramatísk skák!

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2014) – Olga Prudnykova (2268)

Olga beitti afbrigði í Sikileyjarvörn kennt við Nimzovitsch, riddari til finnur sex í öðrum leik. Afbrigðið er lúmskt að mörgu leiti og ýmsar skemmtilegar leiðir á svart. Jóhanna brást við með De2 í þriðja leik sem er allt í lagi en ef hvítur vill stilla upp i kóngsindverska-árás þá er 3.d3 líklega betri kostur. 4.c3 virðist svo engan veginn passa við 3.De2. Olga fékk mjög þægilegt tafl og þó að e6 leikur hvíts virki ógnandi þá eyðir hvítur fjórum leikjum Rg1-f3-g5-e6xf8 í að skipta upp á riddara fyrir biskup sem hefur ekki hreyft sig. Svartur endar með stöðu þar sem hvítur er mörgum tempóum undir! Það segir eiginlega sýna sögu að þrátt fyrir að það sé jafnt á liðsafla eftir 15. leik hvíts að þá er tölvumatið -12,5 eða kolunnið tafl á svart.

Olga fann í kjölfarið gervifórn sem leiddi til mátsóknar og aðra skákina í röð mátar Olga andstæðing sinn, í þetta skiptið eftir 22 leiki!

Guðlaug Þorsteinsdóttir(1984) –  Lenka Ptacnikova (2139)

Guðlaug vann góðan sigur í fyrstu umferð og beitti hvítu mönnunum vel gegn Lenku. Guðlaug hafði lengst af betra tafl en aldrei nóg til að búa til stór vandamál fyrir svartan. Lenka einfaldaði taflið í mislita biskupa og líklegast var endataflið alltaf „steindautt jafntefli“ en Guðlaug hefði líklegast getað látið svartan hafa vel fyrir hlutunum með 34.Bc2!? þar sem svartur þarf örugglega að vinna vel fyrir jafnteflinu. Jafntefli varð niðurstaðan i mislingunum.

Guðrún Fanney Briem (1706) – Iðunn Helgadóttir (1694)

Lengast skák umferðarinnar varð „unglingauppgjörið“. Í byrjuninni var skipst á ónákvæmum leikjum en 12. leikur svarts var ekki góður. 12…b5??

Guðrún fékk valdaðan frelsingja eftir 13.cxb6 og framhald skákarinnar litaðist mikið af þessu augnabliki. Hvítur hafði strategískt unnið tafl en fór illa með tímann. Til dæmis væri hægt að setja spurningamerki við að eyða 10 mínútum af 28 í að leika 28.h3 þegar hvítur getur eiginlega leikið hverju sem er.

Þetta tímahrak átti eftir að kosta hjá hvítum.

Eftir 37 leiki hafði hvítur yfirburðatafl. Mikilvægasta verkefnið hér fyrir hvítt er að ná tímamörkum án þess að lenda í vandræðum. Í stað þess að leika einhverjum öruggum leik valdi hvítum vandræði með 38.De6? og hleypti svörtum í mótspil með 38…Dxg3. Akkúrat það sem þú vilt ekki með strategísk unnið tafl á hvítt. Hvítur gat enn kúplað út með 39.Hf1 en 39.Dxc6? hleypti svörtum inn í skákina. Svartur gat hleypt öllu í bál og brand með 41…Bf6 í stað 41…Bg5? en hvítur slapp með skrekkinn.

Hvítur er hér +9 í „apparatinu“ og beinast liggur við að leika bara 46.c6 og spyrja svartan hvernig hann haldi taflinu gangandi. Með lítinn tíma fór hvítur á taugum og sá drauga og lék 46.b8=D?? og allt í einu er svartur kominn á flot.

47.Dxe4?? gaf svörtum svo vinninginn og Iðunn missti ekki af 47…Bh2+ og hvíta drottningin fellur. Grátlegt tap hjá Guðrúnu en stór lexía í að taka praktískar ákvarðanir!

Úrslit umferðarinnar

Staðan

3. umferð fer fram fimmtudaginn klukkan 19:30 í Skáksambandi Íslands í Faxafeni 12.

Enn er allt galopið og úrslit munu ráðast í viðureignum Olgu við Guðlaugu og Lenku sem eru í síðustu umferðunum!

- Auglýsing -