Íslendingar áttu sex keppendur í hinum ýmsu aldursflokkum á Evrópumóti ungmenna í Rúmeníu en mótinu lauk á fimmtudaginn. Þrír keppendur náðu yfir 50% árangri sem er alltaf gott því styrkleikinn á þessum vettvangi er mikill.
Birkir Hallmundarson, sem tefldi í opna flokknum 10 ára og yngri, fékk flesta vinningana, 5½ af 9 og hafnaði í 21.-30. sæti af 100 keppendum. Hann tapaði tveim fyrstu skákum sínum en efldist mjög eftir það.
Benedikt Briem, sem tefldi í opnum flokki keppenda 18 ára og yngri, fékk fimm vinninga af níu og varð í 22.-39. sæti ásamt Alexander Domalchuk-Jónassyni. Keppendur þar voru 85 talsins.
Jósef Omarsson tefldi í opna flokknum 12 ára og yngri og fékk 4½ v. Matthías Björgvin Kjartansson hlaut þrjá vinninga af níu í 16 ára flokknum og Emilía Embla Berglindardóttir fékk sömu vinningatölu í flokki stúlkna 12 ára og yngri.
Á næstu vikum og mánuðum fara fram heimsmeistaramót ungmenna í Egyptalandi, Mexíkó og á Ítalíu og Íslendingar munu eiga fulltrúa á öllum þessum mótum.
Alexander Domalchuk á eftirfarandi skák; snörp atlaga hefst skyndilega eftir þunglamalega liðsflutninga:
EM ungmenna 2023; 3. umferð:
Alexander Domalchuk-Jónasson – Teodor-Mihnea Voicu
Enskur leikur
1. c4 e5 2. Rc3 Rf6 3. Rf3 Rc6 4. e4
Afbrigði enska leiksins sem Magnús Carlsen hefur gert vinsælt.
4. … Bb4 5. d3 d6 6. a3 Bxc3+ 7. bxc3 0-0 8. g3 Re7 9. Bg2 Rg6 10. 0-0 c6 11. He1 He8 12. Db3 h6 13. a4 Dc7 14. Hb1 b6 15. Ba3 Be6 16. d4 Hab8 17. Rd2 Hed8 18. Dc2 c5 19. d5
Það er svolítið merkilegt að „vélarnar“ meta þess stöðu hreint ekki lakari fyrir svartan. En allir gegnumbrotsmöguleikar liggja þó hvíts megin.
19. … Bd7 20. Bc1 a6 21. Bf1 Hb7 22. f3 Hdb8 23. Da2 Dd8 24. Bd3 Re8 25. Rf1 Rc7 26. Be3 Df6 27. Hf1 h5 28. h4 Re7 29. Dc2 Dg6 30. Kh2 f6 31. f4 Hf8 32. fxe5 fxe5 33. Rf5
(Sjá stöðumynd 1)
33. … Rxf5 34. exf5 De8 35. a5 b5 36. Bg5 Bc8 37. f6 gxf6 38. Bxf6 Df7
Það er auðvitað engin vörn til í þessari stöðu. Klaufalegum leik, 39. … Ra8, má svara með 40. Dd2.
39. Bxe5 Dd7
40. Bh7+! –
og svartur gafst upp.
Goslokamótið í Eyjum
Vignir Vatnar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson urðu efstir og jafnir á goslokamóti Taflfélags Vestmannaeyja sem haldið var í Þekkingarsetri Vestmannaeyja um síðustu helgi. Þeir hlutu báðir sjö vinninga af átta mögulegum en Vignir var hærri á stigum. Í þriðja sæti varð greinarhöfundur með 6½ vinning. Keppendur voru 23 talsins og voru tefldar at-skákir með tímamörkunum 15-5.
Mótið var liður í þéttri dagskrá helgaðri því að 50 ár eru frá gosinu í Heimaey og goslokum sem miðuð eru við fyrstu dagana í júlí 1973. Þar var Arnar Sigurmundsson gerður að heiðursfélaga Taflfélags Vestmannaeyja en hann gekk í félagið árið 1958 og hefur æ síðan verið einn af máttarstólpum þess, fjórfaldur Vestmannaeyjameistari og formaður TV um langt skeið. Hann er þriðji heiðursfélagi TV.
Sigurbjörn Sveinsson skáld og höfundur hins kliðmjúka texta sem hefst á orðunum: Yndislega eyjan mín,/ó hvað þú ert morgunfögur!, kennari, barnabókahöfundur og skákdæmahöfundur, var sá fyrsti sem var heiðraður með þessum hætti. Sigmundur Andrésson bakarameistari, sem var aðsópsmikill í skáklífinu í Eyjum eftir gos, var svo gerður að heiðursfélaga TV 1988.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 16. september 2023