Í dag fór fram þriðja umferð Heimsmeistaramóts ungmenna í skák í Montesilvano á Ítalíu.
12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:
Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem
Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.
Á mótinu gilda afar strangar reglur. Nokkrir ónefndir Íslendingar léku stórkostlega af sér fyrir umferð dagsins er þeir mættu til leiks meðal annars í stuttbuxum og inniskóm. Þessar reglur verða hér eftir í hávegum hafðar. Einnig er þess krafist að keppendur mæti á skákstað 14:30 því það tekur tíma að fara í gegnum öryggiseftirlitið. Í dag hófst skákin á slaginu 15:00.
Annars er rútínan í nokkuð föstum skorðum, og morgunmatur hefst klukkan 7:30. Þess má geta að í dag hljóp annar þjálfara íslenska liðsins í hringi áður en morgunmatur hófst, meðan hinn synti í sjónum. Hvor er hvað?
Íslensku keppendurnir hafa sýnt góð vinnubrögð og eyða morgninum bæði við undirbúning og uppbyggilega hreyfingu. Hér er spilaður fótbolti, hlaupið og farið í ræktina og gönguferðir. Þegar umferð dagins var farin af stað nýttu þjálfarnir og foreldrarnir tækifærið og röltu um bæinn. Stöldruðu þeir meðal annars við á ítalskri hárgreiðslustofu þar sem Gauti Páll settist í rakarastólinn.


Opinn flokkur U18
Aleksandr Domalchuk-Jonasson fékk upp stöðu sem líktist helst franskri vörn, en skákin hófst sem Sikileyjavörn, og hafði Aleksandr svart. Grikkinn Spyros Hartofylakas hafði hvítt og stóð hann lengi í okkar manni, eða í rúma 80 leiki. Aleksandr hafði máski ekki fram á margt að færa í endataflinu, en með stanslausu juði og pressu, brotnaði Spyros líkt og grískur vasi.

Benedikt Briem fékk góða stöðu með svörtu gegn katalónskri byrjun Króatans FM Novosel (2375), as good as it gets. Jafnaði taflið, jafnvel með örlítið betra tafl í miðtaflinu. Þegar líða tók á skákina, var þó helst hvítur með örlítil færi, fyndi hann tölvuleiðina. En allt kom fyrir ekki. 40. leikur hvíts var hræðilegur, drottningin lokast inni og auðvitað sá Benedikt það. Ivanchuk sagði í frægu viðtali að erfiðustu leikirnir í skák væru afturábak-riddaraleikir.
Sjá má augnablikið á mínútu 5:21 í þessu myndbandi:

Benedikt Þórisson hafði svart gegn heimamanninum CM Paduano. Upp kom Grunfelds-vörn og Paduano vék frá sínum hefðbundnu leiðum þegar hann lék 3. f3. Það má alltaf líta á það sem sálrænan sigur þegar andstæðingurinn forðast það sem hann gerir venjulega. Benedikt var vel með á nótunum í f3-afbrigðinu og svaraði af krafti. Líklega var Benedikt við það að fá betra tafl þegar hann fór aðeins of geyst í hlutina. Paduano vann skiptamun í framhaldinu en Benedikt varðist af hörku. Í erfiðu endatafli, sem Ítalinn tefldi mjög vel, tapaði Benedikt á endanum.
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson hafði hvítt gegn Kusakulpiboon frá Tælandi. Byrjunin þróaðist á rólegan hátt og svartur jafnaði taflið og líklega gott betur en það. Þorsteinn Jakob gerði þó vel í því að halda pressu á stöðu svarts og uppskar mjög vænlegt endatafl, manni yfir. Úrvinnslan var þó nokkuð erfið því riddari hvíts á e3 var leppur og ekki auðvelt að losa um hann. Eftir nokkrar tilfærslur tókst Þorsteini Jakob þó að lagfæra stöðuna og náði að innbyrða baráttusigur.

Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson hafði svart gegn hinum hollenska Kobe Smeets. Það er spurning hvort hann sé skyldur hollenska stórmeistaranum Jan Smeets? Upp kom Tarrasch-afbrigði franskrar varnar og Hollendingurinn lék mjög óvæntum 7. Dg4!? sem enginn hafði séð áður, hvorki Ingvar né þjálfarateymið. Ingvar brást rétt við en missti af góðum valkosti og fékk í framhaldinu mjög slæma stöðu. Smeets vann vel úr yfirburðunum og tap hjá Ingvari niðurstaðan.
Eftir óræða byrjunartaflmennsku beggja tapaði Adam Omarsson skiptamuni. Það var þó heilmikil “lús” í stöðunni og færi á báða bóga. Adam missti af stórskemmtilegu tækifæri eftir 34. leik svarts. Í staðinn átti liðstapið eftir að segja til sín og tapaðist skákin í endatafli. Hins vegar átti Adam í þessari stöðu 35. Bxc4+!
Stúlknaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir hafði hvítt gegn Braeutigam frá Þýskalandi. Sú þýska valdi sjaldgæfa leið í Kóngs-indverskri vörn en Iðunn brást rétt við. Í miðtaflinu hafði Iðunn góða stöðu en hleypti andstæðingi sínum í sókn á kóngsvæng. Þess í stað gat hún haldið góðum tökum á stöðunni og hefði þá staðið mun betur. Þegar staðan opnaðist missti Iðunn tökin og tapaði.
Opinn flokkur U14
Matthías Björgvin Kjartansson fékk góða stöðu eftir byrjunina með hvítu gegn Poljan frá Króatíu. Staðan var þó ansi lokuð og eftir töluverðar tilfærslur opnaðist staðan svörtum í hag. Eftir mikla baráttu lék Matthías af sér og svartur hafði sigur.
Mikael Bjarki Heiðarsson hafði hvítt gegn hinum sterka FM Villa Tornero (2383). Andstæðingurinn kom á óvart í byrjunarvali, tefldi Benoni í stað Nimzo-indverskrar varnar eins og við var búist. Mikael Bjarki tók stöðulega ranga ákvörðun og svartur fékk of hættuleg færi sem okkar maður réð ekki við.
Markús Orri Jóhannsson hafði hvítt gegn Kanchev frá Búlgaríu. Markús var vel undirbúinn og fékk upp stöðuna sem hann stefndi að. Hann hafði góð færi eftir byrjunina en missti tökin á stöðunni í miðtaflinu og tapaði skömmu síðar. Hér var um reynsluleysi að ræða en Markús Orri er að byggja upp mikla þekkingu með góðum vinnubrögðum á mótinu og á mikð inni.
Markús Orri Óskarsson hafði svart gegn heimamanninum Zamir. Engar skákir fundust í gagnagrunnunum með Zamir þrátt fyrir ítarlega leit. Markús Orri er þó vel með á nótunum í sínum byrjunum og mætti fullur sjálfstrausts til leiks. Upp kom Nimzo-indversk vörn og Zamir tefldi ómarkvisst eftir byrjunina. Markús Orri setti pressu á veikt peð á b3 og á bjó til hótanir á kóngsvæng á sama tíma. Skemmtilegur Dg5-leikur gerði svo út um skákina. Vel útfærður sigur hjá Markúsi. Hans fyrsti á heimsmeistaramóti og án nokkurs vafa ekki sá síðasti.
Stúlknaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem hafði svart gegn hinni bandarísku Namala. Upp kom Caro-kann vörn og Guðrún Fanney þekkti fræðin mun betur en andstæðingur sinn. Hún tók skemmilega ákvörðun og hrókaði langt, opnaði svo stöðuna á miðborðinu og hvíti kóngnum fór að líða illa bakvið brotthætta peðastöðu. Guðrún Fanney vann peð og svo annað og kláraði skákina á sannfærandi hátt.

Opinn U18
Opinn U16
Stúlkur U16
Opinn U14
Stúlkur U14
chess.com
chess24
Opinn flokkur U18 á chess-results
Opinn flokkur U16 á chess-results
Stúlknaflokkur U16 á chess-results
Opinn flokkur U14 á chess-results
Stúlknaflokkur U14 á chess-results