Það hefur lengi loðað við landsleiki í handbolta að talað sé um „slæma kaflann“ hjá landsliðinu. Kannski á það við fleiri greinar, íslensku liðin virtust allavega taka út slæma kaflann í 5. umferð á EM landsliða hér í Budva í Svartfjallalandi. Ekki nóg með að bæði lið hafi tapað og liðið í opnum flokki sérstaklega illa en aukinheldur týndi forseti Skáksambandsins síma sínum á leið til Svartfjallalands og einn af liðsmönnum Íslands lenti í smá óhappi og slasaðist á löpp og missir allavega af næstu umferð. Segja má að frídagurinn í dag hafi verið kærkominn!

Opinn flokkur

Íslenska liðið var búið að vera á ágætis siglingu fram að þessu. Fínn sigur á Norðmönnum í 3. umferð og í raun hefði liðið átt að ná 2-2 jafntefli í fjórðu umferð gegn sterkum Ungverjum. Segja má að stórtapið sem varð að veruleika hér hafi því komið á óvart.

Hannes fékk hvítt og erfiðan andstæðing á efsta borði. Í miðtaflinu virtist Hannes verða eilítið planlaus, reyndi að endurtaka leiki en Fedoseev hafnaði því. Skömmu síðar náði Fedoseev tökum á c-línunni og náði að komast djúpt inn í herbúðir Hannesar sem nægði til vinnings.

Vignir virtist jafna taflið nokkurn veginn úr byrjuninni en lék svo nokkrum ónákvæmum leikjum og fór svo úr öskunni í eldinn með arfaslökum 20. leik, 20…Rf6??

21.Re6! kláraði skákina, Vignir á enn eftir að sýna sitt rétta andlit á þessu móti.

Guðmundur náði ekki nægjanlegum slagkrafti í aðgerðir sínar á kóngsvæng gegn Sebenik sem ætlar að reynast Guðmundi erfiður á þessum Evrópumótum. Framrás svarts á drottningarvæng bar meiri ávöxt að þessu sinni og við urðum að lúta í dúk.

Hilmir tapaði svo á fjórða borði. Svatur lenti í erfiðri vörn lengst af en þegar hvítur fór að byrja að plokka peð ofan á stöðuyfirburðina var ekki mikið eftir.

Sárt 0-4 tap og langversti dagurinn í opna flokknum. „Verðlaunin“ fyrir þetta tap er svo viðureign við enn sterkara lið Spánverja sem verður erfið prófraun!

Kvennaflokkur

Svíarnir hærri á flestum borðum og auðvitað með yfirburðarmannesku í Piu Cramling. Segja má að möguleikar okkar hefðu átt að vera ekki ósvipaðir og í viðureign liðsins í opnum flokki gegn Noregi, nýta hvítu mennina á öðru og fjórða borði.

Pia reyndist erfið eins og við var að búast. Hún tefldi í anda Petrosian og lét biskup sinn fyrir tvípeð í anti-Grunfeld, ekki ósvipað og í Petrosian-Schmidt frá 1971. Pia tefldi þétta pósaskák og kláraði svo með „Fréttablaðsleik“

30.Rf8+!! og svartur er mát í í tveimur leikjum til viðbótar. Mér varð litið á Juan Bellon liðsstjóra sænska liðsins þegar þessi leikur kom á borðið og hann átti erfitt með að fela brosið.

Lenka komst lítið áleiðis gegn Elinor Frisk. Hjörvar hvíldi í karlaliðinu og var duglegur að hjálpa kvennaliðinu við undirbúning. Hann er mjög hrifinn af hvítu stöðunni í þessum afbrigðum en vildi líklega Ra4 í stað Rd5. Frisk náði jafnteflinu nokkuð auðveldlega en Lenka auðvitað aldrei í neinni hættu.

Á þriðja borði mætti Jóhanna skák-áhrifavaldinum Önnu Bellon-Cramling sem er auðvitað dóttur Piu Cramling og liðsstjórans Juan Manuel Bellon Lopez. Í undirbúningi þessarar skákar gerði ég mistök sem liðsstjóri, ég myndi allavega nálgast þetta öðruvísi ef það fengist annar séns.

Ég ákvað að láta Jóhönnu tefla Benkö-bragð með svörtu. Ástæðan var í raun tvíþætt. Í fyrsta lagi vissi ég að Anna átti þar uppáhaldsafbrigði sem nokkuð auðvelt er að kortleggja…það var og gert og hefði líklega farið illa fyrir Önnu ef hún hefði farið í það afbrigði. Hin ástæðan var auðvitað að Anna myndi vafalítið eyða undirbúningi sínum í að skoða eitthvað allt annað…eins og má reyndar sjá í myndbandi hennar að hún gerði.

Gallinn auðvitað að Jóhanna væri að tefla eitthvað nýtt, ég taldi þá áhættu núllast út á því að Anna hafði litla reynslu í öðrum afbrigðum gegn Benkö. Hún hafði teflt aðallínuna einu sinni og e3 línu einu sinni. Við litum því á það og vorum tilbúin með gott plan gegn aðallínunni en náðum kannski ekki nógu miklum tíma í að undirbúa gegn e3 afbrigðinu sem Anna endaði á að velja.

Hinn gallinn var kannski að Anna myndi alltaf „finna rottuþefinn“ um leið og Jóhanna léki nýjum leik, 2..c5 sem hún hafði aldrei gert áður. Það hefði því kannski átt að vera fyrirsjáanlegra að hún myndi reyna að forðast uppáhaldsafbrigðið þar sem líkur á kortlagningu þar væru töluverðar.

Jóhanna lenti í miklum vandræðum í byrjuninni og skrifast tapið alfarið á fyrstu leikina þar sem báðar voru „out of book“ og verð ég því að taka þungann af þessu tapi á mig.

Anna skýrði skákina á Youtube-rás sinni.

Viðureignin var nú töpuð en það var hinsvegar gleðilegt að Hallgerður náði í sinn fyrsta sigur sem var nauðsynlegt fyrir sjálftraustið fyrir endasprettinn á mótinu.

Byrjunin misheppnaðist reyndar all harkalega en sem betur fer þá var „refsing“ svarts á þeim mistökum í raun og veru engin refsing ef hvítur teflir rétt og fórnar peði sem Hallgerður neyddist til að gera. Ef til vill er þessi leikur 6.Be3 sem var eiginlega leikið óvart ágætis vopn ef hvítur er búinn að skoða það vel, peðinu á b2 má fórna. Sú sænska þorði ekki í peðið og þá voru í raun engin vandamál og Hallgerður hafði þessa skák algjörlega á því að stýra henni inn á sína styrkleika og hér algjör reynslusigur á ferð!

Tap 1,5-2,5 og heilt yfir slakur dagur hjá íslensku liðunum. Kvennaliðið teflir næst við Norður-Makedóníu þar sem við eigum að vera sterkari á flestum borðum.

Mótshaldarar buðu upp á karokee skemmtun um kvöldið og mátti sjá ýmsa stórmeistara taka misgóða slagara við mismunandi undirtektir.

Frídagurinn fór að mestu í slökun, einhverjir tóku góða göngutúra, aðrir skoðuðu sig um en loks var tekinn góður kvöldmatur utan hótelsins til að brjóta aðeins upp rútínuna.

EM landsliða heldur áfram á morgun þegar sjötta umferð fer fram og eru allir staðráðnir í að gera vel í seinni hluta mótsins!

- Auglýsing -