Fjórða keppnisdegi HM ungmenna í skák í Montesilvano á Ítalíu lauk fyrr í dag.
12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:
Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem
Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir FT Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.
Opinn flokkur U18
Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafði hvítt gegn FM Qalichava frá Georgíu. Upp kom Dc2-afbrigði nimzo-indverskrar varnar sem Aleksandr hefur mikla reynslu í. Georgíumaðurinn reyndist vel undirbúinn og tefldi byrjunarleikina rösklega. Engu að síður hafði Aleksandr heldur betra tafl og átti á einum stað kost á því að ná upp vænlegri stöðu. Eftir talsverðar flækjur á kóngsvæng átti Aleksandr ekki annarra kosta völ en að þráleika og jafntefli niðurstaðan.
Benedikt Briem hafði hvítt gegn FM Melian frá Paragvæ. Melian þessi tapaði nýlega fyrir vopnabróður Benedikts, Vigni Vatnari Stefánssyni á HM U20 í Mexíkó. Benedikt stefndi því að sjálfsögðu að sigri í skákinni. Upp kom katalónsk byrjun og Melian vék frá þeirri leið sem hann hefur alltaf teflt, 4…Bb4+, og lék þess í stað 4…Be7. Eftir 8…b4 er líklega best að leika 9. Rfd2 og sækja c4-peðið en fórna í staðinn d-peðinu. Hvítur fær þá góðar bætur í framhaldinu. Leiðin sem Benedikt valdi leiddi til tafljöfnunar fyrir svartan og líklega gott betur því í miðtaflinu réð svartur ferðinni. Benedikt varðist vel og komst út í órætt hróksendatafl þar sem báðir keppendur höfðu peðameirihluta á sitthvorum vængnum. Líklega átti Melian vinningsmöguleika en staðan krafðist mikillar nákvæmni. Þá missti Melian þráðinn og lék 38…Kd4? sem Benedikt svaraði með 39. e6, því næst 40. He1 og svo 41. f5. Eftir það voru hvítu peðin óstöðvandi og Benedikt landaði baráttusigri. Benedikt hefur byrjað mótið af miklum krafti, hefur 3 vinninga eftir 4 umferðir og er í hópi efstu manna.
Benedikt Þórisson hafði hvítt gegn Posaskov (2169) frá Litháen. Í undirbúningi fyrir skákina skoðuðum við aðal leiðina í ensku árásinni gegn Najdorf-afbrigði Sikileyjarvarnar. Hvítur getur leikið 16. Rbd4!? eins og þekkt er t.d. úr skákinni Karjakin – Anand, 2006 (https://www.chessgames.com/perl/chessgame?gid=1385670). Um er að ræða mikinn rúlluskautavaríant þar sem tölvurnar hafa tæmt flest afbrigði langt fram í endatafl. Það var því ákveðið að velja næstvinsælasta leikinn í stöðunni, 16. fxe6, sem hefur þó verið teflt í mörg hundruð skákum. Niðurstaða undirbúningsins var sú að ef hvíti biskupinn tæki sér stöðu á c4 og kóngurinn skýldi sér á bakvið hann á c2-reitnum þyrfti hvítur ekki að hafa áhyggjur af kóngsstöðunni. Hann hefði góð tök á hvítu reitunum,, riddarinn hefði aðgang að f5 reitnum og hvítur gæti þeytt peðum sínum fram á kóngsvængnum. Tölvurnar meta stöðuna í jafnvægi en tilfinning okkar var sú að auðveldara væri að tefla hvítu stöðuna en þá svörtu. Benedikt lá yfir afbrigðinu fram eftir degi og tefldi svo nokkrar æfingaskákir til þess að sannreyna hugmyndir sínar.
Það var svo ánægjulegt að sjá svo Posakov leika byrjunarleikina hratt og fara beint út í afbrigðið sem við höfðum skoðað mest. Eftir 21. Bc4 fór Litháinn svo að hugsa og valdi 21…Rc5? sem tapar strax. Benedikt hafði eytt miklum tíma í að rannsaka 21…Da8 fyrir skákina. Benedikt skipti upp á öllu og í framhaldinu valdar biskupinn á c4 hálfhring riddarans á c7 og svartur er mjög aðþrengdur. Benni lék einungis einum ónákvæmum leik í framhaldinu (25. Kc2?! en 25. Kb1! vinnur á smekklegan hátt þar sem hvítu mennirnir takmarka allt hreyfifrelsi svörtu mannanna). Svartur hefði þurft að finna 26…Bf6 og getur reynt að berjast fyrir jafnteflinu. Eftir 26…Bf4? 27. Rh5 g5 28. Hd1! var ekkert sem stoppaði innrás á sjöundu reitaröð og arabískt mát á h7. Frábær sigur hjá Benna.
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson hafði svart gegn CM Miazhynski frá Austurríki. Upp kom Panov árásin gegn Caro-kann vörn. Þorsteinn Jakob hafði ákveðið fyrir skákina að koma andstæðingi sínum á óvart með 6…g6, með peðsfórn í framhaldinu. Miazhynski virtist þekkja hugmyndirnar í afbrigðinu nokkuð vel en Þorsteinn Jakob átti engu að síður kost á vænlegri leið sem hann missti af. Í flækjunum í miðtaflinu vann Austurríkismaðurinn skiptamun og Þorsteinn Jakob laut í dúk. Eftir skákina viðurkenndi Miazhynski að hann hefði verið heppinn, því hann hefði teflt afbrigðið gegn vini sínum og hefði því góða reynslu í því.
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson hafði hvítt gegn Rohit frá Indlandi. Upp kom katalónsk byrjun og Ingvar lenti í töluverðum vandræðum eftir byrjunarleikina. Með óvæntri peðsfórn náði hann frumkvæðinu aftur og hafði mjög vænleg færi í miklum flækjum þar sem svarti kóngurinn sat fastur á miðborðinu. Því miður missti Ingvar af bestu leiðinni og Rohit komst aftur inn í skákina og vann um síðir.
Adam Omarsson hafði svart gegn Huang frá Tævan. Upp kom ensk árás gegn Najdorf-afbrigði Sikileyjarvarnar. Adam fór með riddara sinn á h5 og hefði þurft að opna f-línuna með því að leika f6 í framhaldinu. Hann valdi annan kost og hvítum tókst að koma riddara sínum fyrir á c6-reitnum. Hvítur fór svo í stórsókn á kóngsvængnum sem Adam réð ekki við og tapaði.
Stúlknaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir hafði svart gegn Suyerkulova frá Kasakstan. Upp kom Taimanov-afbrigði Sikileyjarvarnar og hvítur fór í óvanalegt ferðalag með drottningu sína til h5. Iðunn átti skemmtilegan möguleika eftir byrjunina, að leika f6, rétt eins og Adam, og opna þannig stöðuna sér í hag, með mjög vænlegum færum. Hún missti af hugmyndinni, þurfti að eyða talsverðum tíma í framhaldinu og hvítur tók yfir frumkvæðið. Í flækjunum vann hvítur lið og Iðunn tapaði.
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson hafði svart gegn heimamanninum Clerici. Upp kom Panov-árásin gegn Caro-kann vörn og Mikael tefldi mjög vandað. Hann fékk upp betra tafl í miðtaflinu, vann peð og átti vænlega stöðu. Þá varð honum á slæmur fingurbrjótur og lék skákinni af sér. Slæm yfirsjón sem getur því miður hent bestu menn. Nú er að hrista þessa skák af sér og gera sig kláran í þá næstu.
Matthías Björgvin Kjartansson hafði svart í drottningarbragði gegn Karam frá Líbanon. Upp kom svokallað Vignis-Vatnars-afbrigði, þar sem svartur setur biskupinn sinn snemma á d6. Matthías tefldi mjög vel og aðgerðir hvíts á kóngsvængnum, að reyna að stinga upp í biskupinn á d6 með því að leika f4, heppnuðust ekki vel. Hvítu mennirnir stóðu illa og í tilraun sinni til þess að losa sig lék hvítur af sér skiptamun. Matthías vann vel úr yfirburðunum og innbyrti öruggan sigur. Vel útfærð skák.
Markús Orri Jóhannsson hafði hvítt svart gegn Shah frá Kenýa. Upp kom skoskur leikur og Markús Orri vék frá hefðbundnum leiðum með 4…Bb4!? og virtist með því slá andstæðinginn sinn út af laginu. Markús vann peð í framhaldinu en staðan var viðsjáverð því Shah hafði virka drottningu og tvo hróka sem settu pressu á stöðu Markúsar. Með lagni tókst Markúsi að virkja drottningu sína og komast innfyrir varnir andstæðingsins, skapa máthótanir og máta svo kóng Shah á miðju borði.
Þess má geta að orðið shah þýðir kóngur á persnesku. Svo við höldum áfram með persnesku fræðin þá þýðir orðið mat fastur eða frosinn. Shahmat þýðir því ,,kóngurinn er fastur” en hugtakið varð svo að skák og mát þegar skáklistin kom vestur á bóginn, fyrr á öldum.
Markús Orri Óskarsson hafði hvítt gegn Hernandez frá Ástralíu. Upp kom Nimzo-indversk vörn og Markús Orri tók á sig stakt peð. Hann átti ýmsa möguleika tengda peðinu og þá aðallega að ýta því fram undir einhverjum kringumstæðum. Oft er lykilatriði í stöðum með stakt að tefla hnitmiðað og forðast uppskipti. Hernandez fékk færi á hagstæðum uppskiptum og endaði með biskupaparið og mun virkari stöðu. Markús Orri réð ekki við hættulegar hótanir Ástralans og tapaði.
Stúlknaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem hafði hvítt gegn Maral frá Mongólíu. Guðrún fékk upp það afbrigði sem hún hafði skoðað helst fyrir skákina og uppskar spennandi sóknarfæri á kóngsvæng. Röng ákvörðun í framhaldinu olli því að Maral tók yfir frumkvæðið og hafði sigur á endanum.
Að lokinni 4. umferð hefur Benedikt Briem flesta vinninga Íslendinganna, þrjá talsins. Hann teflir á 15. borði í umferð morgundagsins og verður í beinni, eins og áður. Spennandi að fylgjast með því.
Dagleg rútína gengur sinn vanagang hjá íslenska hópnum. Keppendur hittast í morgunmat og svo hefjast stúderingar af krafti um eða upp úr kl. 9:00 og standa til kl. 12:30. Þá er matur til kl. 13:00 og svo er sest við undirbúninginn aftur, upprifjun á því sem farið var yfir um morguninn og æfingaskákir í því sem á að tefla. Sumir taka létta slökun fyrir skák en aðrir fara út og stunda hreyfingu. Keppendur hafa verið duglegir að hreyfa sig og í morgun náðu þjálfararnir að fá sér göngutúr með fram ströndinni áður en undirbúningur hófst. Áskorun hins metnaðarfulla skákmanns í ferðum sem þessum er að forðast það að eyða öllum deginum inni á hótelherbergi, sem getur valdið sleni og einbeitingarleysi. Líkamleg hreyfing og ferskt loft í lungun er ekki síður mikilvægt.
Annars er gaman að segja frá því að hin ákaflega kurteisa og vingjarnlega herbergisþerna, sem sér um hótelgang íslenska hópsins, er mikill stuðningsmaður Íslands. Hún hefur lært nöfnin á flestum íslensku keppendunum og í gær brosti hún fallega áður en umferðin hófst, steytti hnefann á loft og hrópaði Forza Islanda!
Opinn U18
Opinn U16
Stúlkur U16
Opinn U14
Stúlkur U14
chess.com
chess24
Opinn flokkur U18 á chess-results
Opinn flokkur U16 á chess-results
Stúlknaflokkur U16 á chess-results
Opinn flokkur U14 á chess-results
Stúlknaflokkur U14 á chess-results