Fimmta keppnisdegi HM ungmenna í skák í Montesilvano á Ítalíu lauk fyrr í dag.

12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:

Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson

Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson

Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir

Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson

Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem

Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir FT Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.

Pörun og úrslit 5. umferðar.

Áður en fjallað verður um árangur krakkanna í 5. umferð HM í Ítalíu er um að gera að fjalla um skemmtilegt hraðskákmót sem haldið var í gærkvöldi og þónokkrir úr íslenska hópnum sóttu. 

Adam, Benedikt, Ingvar og Björn Ívar ræða málin. Mynd: Þórir Ben

Kappskákirnar hefjast klukkan þrjú og ekki er öllu lokið fyrr en um kvöldmatarleytið. Því þurfa aukaviðburðir eins og hraðskákin að hefjast frekar seint, en auglýstur tími var 21:30 til 23:00. 

Mótshaldarar stóðu svo sannarlega við upphafstímann og klukkurnar voru settar af stað á slaginu 21:30. Tæplega 200 manns áttu að tefla á níu umferða hraðskákmóti sem lyki 23:00. Það gekk hins vegar ekki alveg upp. Nefndi til dæmis alþjóðlegur skákdómari í hópnum að það væri furðulegur tvíverknaður að handskrifa öll úrslit á blað áður en þau voru færð inn í tölvu. Þrátt fyrir þessa hnökra var góð stemming í hópnum og “barinn” opinn þar sem hægt var að fá sér kaffi og sykraða drykki. Árangurinn var upp og niður eins og gerist en látum hér fleyg orð Benedikts Briem fylgja: 

“Ja skuh þegar manni gengur illa í hraðskákinni þá gengur manni vel í kappskákinni skrr skrr” 

En komum okkur nú að mótinu sjálfu. 

Opinn flokkur U18

FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson sýndi sitt rétta andlit í þessari skák gegn Fidemeistaranum Mattia Pegno. Upp kom staða í 1.d4 byrjun þar sem svartur hirðir bóndann á c4 og hangir á honum alla skákina. Peð er peð sagði Pedersen og allt það. Upphaflega var þetta Lundúnakerfið en snemma skiptist upp á svartreitabiskupum og hvítur lék c4 sem er auðvitað bara peð í hafið! (þó ekki Adr… nei ég var búinn með þennan brandara!) Taktfastur og skilvirkur skákstíll Aleksandrs blómstraði í skákinni. Líkja má unga manninum við kyrkislöngu í þessari skák. 

 

Aleksandr vann seiglusigur í dag. Mynd: Þórir Ben

Benedikt Briem hafði hér svart gegn Fide meistaranum Zhenyong Jayden Wong og enn kom upp katalónsk byrjun. Efir ónákvæmni Benedikts í miðtafli fékk hvítur myljandi sóknarfæri á kóngsvæng. Það var engin auðveld vörn gegn þessum tilfæringum hvíts og eftir mikið liðstap þurfti Benedikt að kasta handklæðinu.

Benedikt Þórisson fékk upp Grunfledsvörn í skák sinni gegn FM Unne Land sem breytti út af sínum hefðbundnu leiðum. Benedikt lék einum ónákvæmum hróksleik eftir byrjunina sem gaf hvítum góð tök á stöðunni. Í framhaldinu jók hvítur smátt og smátt yfirburði sína og Benedikt kom engum vörnum við. 

Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson tefldi skák sem verður að teljast að langmestu leyti mjög góð. Tefld var Sikileyjavörn þar sem Þorsteinn, með hvítt, byggði upp miklu meira rýma og trausta stöðu. Tilfæringar manna hingað og þangað voru ef til vill ekki mjög skilvirkar og missti hann af tækifæri til að ráðast í gegn. Þó hélst yfirburðastaðan því andstæðingurinn, Giancamillo Alessandroni, gat sig hvergi hrært. Svo kom að því. Þorsteinn lék ægilegum fingurbrjót, og fékk tapað tafl. En hvað gerði þá Ítalinn með langa nafnið? Hann bauð snarlega jafntefli sem var auðvitað þegið. Þetta er einkennilegur faraldur sem gengur yfir hjá ungum skákmönnum út í heimi, ég hef lítið orðið var við þetta á Íslandi – að þora ekki að tefla unnar stöður til vinnings. Þá er alveg eins hægt að sleppa því að tefla, eða allavega byrja á að spyrja sig, “af hverju er ég eiginlega að þessu?”. 

Opinn flokkur U16

Ingvar Wu Skarphéðinsson hafði svart gegn Bandaíkjamanninum FM Jonathan Chen. Upp kom áðurnefnt Vignis-afbrigðið í drottningarbragði og upp hófst mikil stöðubarátta. Ingvar missti tökin í stöðubaráttunni. Vonandi kemur Ingvar sterkur til baka á morgun, eftir góða byrjun á mótinu. 

Adam Omarsson tefldi ágætis skák að mörgu leyti gegn Nimzanum í dag. Staka peðið getur reynst skeinuhætt þegar það breytist í frípeð. Reitir í kringum það voru vel valdaðir þannig að í miðtaflinu var nokkuð ljóst að peðið yrði örlagavaldur í skákinni. Andstæðingur Adams, Meshal Alhejab, hjálpaði þó aðeins til með riddaraflani sem endaði auðvitað á því að riddari fór í hafið, þó ekki (ok ég er hættur!)

Þetta er Adam

Stúlnkaflokkur U16

Iðunn Helgadóttir fékk upp stöðu sem hún kannast vel við í byrjuninni. Í flókinni stöðu í miðtafli var að duga eða drepast. Í stað þess að vaða í flækjurnar sem hefðu gefið Iðunni mátsókn, valdi hún rólegri leið sem endaði í liðstapi, og Anastasia Dulteva hafði sigur. Leiðinlegt tap en þá er bara að bíta í skjaldarendurnar. 

Opinn flokkur U14

Mikael Bjarki Heiðarsson tefldi drottningarbragð og svartur valdi óvenjulega leikjaröð. Í þessum stöðum, skipta þó miðtaflsplönin mestu máli. Mikael þekkti vel til minnihlutaárásarinnar á drottningarvæng og yfirspilaði andstæðing sinn, Kýpverjann Constantionos Ioannou, í endataflinu.

Mikael Bjarki, og hluti íslenska hópsins, að tafli í lobbýinu

Matthías Björgvin Kjartansson lenti í hörkuvörn eftir stöðubaráttu í miðtafli þar sem honum fataðist flugið. En Matthías er baráttujaxl og lét ekki deigan síga. Andstæðingur Matthíasar, Zanas Nainys, reyndi hvað hann gat að vinna endataflið en hafði ekki erindi sem sem erfiði. Þegar komið var á fimmtu klukkustund taflmennsku náði Mikael að snúa taflinu sér í vil og átti síðan eftir að vinna hróksendataflið. Góður sigur!

Matthías Björgvin baráttujaxl. Mynd: Nikiel Photo

Markús Orri Jóhannsson var með jafna stöðu á borðinu þegar Malachi Naskov gerði sér ekki grein fyrir hættunni í stöðunni og Markús vann lið og í beinu framhaldi skákina. Nú hefur Markús unnið tvær skákir í röð og ætti að fá krefjandi andstæðing á morgun.

Markús Orri Jóhannsson hefur unnið tvær skákir í röð. Mynd: BÍK

Markús Orri Óskarsson fékk upp stöðuna af elhúsborðinu, en varð sleginn skákblindu í miðtaflinu og tapaði manni. Hann barðist þó eitthvað lengur og þeytti upp smá moðreyk en allt kom fyrir ekki og hann varð að leggja niður vopn um síður.

Stúlnkaflokkur U14


Guðrún Fanney Briem hafði svart gegn Mohd Afif Ainul Mardhiah og fékk stakt peð sem hún þurfti að verja. Eftir miklar tilfæringar komst hvítur í gegn og Guðrún þurfti að játa sig sigraða. Andstæðingur Guðrúnar tefldi mjög vel miðað við stig.

Gauti Páll tók þátt í hraðskákmótinu. Mynd: BÍK
Kaktusinn Daði
- Auglýsing -