Sjötta umferðin gekk ekki nógu vel hjá íslensku liðunum á Evrópumóti landsliða hér í Budva í Svartfjallalandi. Liðið í opnum flokki fékk gríðarlega erfiða viðureign við Spánverja sem tapaðist 0,5-3,5. Í kvennaflokki misstum við unna viðureign niður í 2-2 jafntefli.

Opinn flokkur

Feykisterkt lið Spánverja beið í sjöttu umferð. Allir liðsmenn yfir 2600 og liðið númer 6 í styrkleikaröðinni. Magnað að lenda á þessu liðið eftir skell í fimmtu umferðinni. Spánverjarnir leyfðu sér að hvíla sjálfan Alexei Shirov.

Við náðum aðeins í hálfan punkt og það var á efsta borði. Hjörvar mættir þar David Anton Guijarro. Hjörvar var undir pressu lengst af í skákinni með svörtu mennina og var peði undir seinni part skákarinnar. Segja má að Hjörvar hafi teflt eins og hann á að sér hvað best og varðist mjög vel í þessari skák gegn algjörum toppskákmanni!

Hannes tapaði sinni annarri skák í röð með hvítu og hefur verið einhver þreyta í taflmennsku Hannesar nú um miðbik mótsins. Peð fór í hafið í miðtaflinu en byrjunin var í fínu lagi.

Vignir tapaði í algjörri maraþonskák gegn Eduardo Iturrizaga. Vignir lengi í erfiðri vörn og lenti peði undir. Lengi vel virtist stefna í jafntefli þar sem Iturrizaga virtist ekki vera að finna vinningsleiðina. Á einhverjum tímapunkti gat Vignir krafist jafntefli þar sem sama staðan kom upp þrisvar en það leið það mikill tími á milli að hann missti af því.

Eitt hundrað fjörutíu og einn leikur takk fyrir!

Hilmir fékk hvað bestan sénsinn á að gera eitthvað en á einhverjum tímapunkti leit út fyrir að hann gæti komið biskupi svarts í vandamál á h4 reitnum. Hilmir fann enga leið og lenti svo í hörkutaktík þegar svartur drap með riddara á b2.

Annar skellur, 0,5-3,5 og þrátt fyrir að við séum að tefla upp fyrir okkur eigum við að ná fleiri vinningum, sérstaklega með hvítu mönnunum.

Næst á dagskrá er lið Skota sem er eiginlega algjör skyldusigur. Lið Skota er hálfgert „túristalið“ hafa enga skák unnið á mótinu, aðeins náð jafnteflum og tapaði öllum viðureignum 0,5-3,5 nema einni.

Kvennaflokkur

Við mættum lægst skrifaða liðinu, Norður-Makedóníu í sjöttu umferðinni. Við vorum stigahærri á öllum borðum og hér hefði krafan átt að vera sigur allan daginn!

Makedónarnir voru þó fyrri til og náðu í vinning á fjórða borði. Ung stelpa, Zhezhovska tefldi þar mjög vel og hefur staðið sig vel á mótinu og verður komin yfir 2000 stig áður en langt um líður. Liss lenti í hvössu afbrigði og hafi hvítur betur á hreinu hvert kallarnir áttu að fara. 10…b6? var ekki í anda stöðunnar og svarta staðan varð fljótlega nánast óteflandi.

Sem betur fer jöfnuðum við nokkuð fljótlega viðureignina. Hallgerður vann sína aðra skák í röð og er að uppskera aðeins betur í takt við taflmennskuna. Hallgerður ákvað að leika 2.Bc4 sem virðist hafa verið góður lestur, andstæðingur hennar var eitthvað að gæla við Petroff nýlega og eyddi strax 5 mínútum í upphafi skákar. Svartur lenti í passífri stöðu og riddaratilfærslan Rb8-c6-d8-f7-h8 endaði með Rh8-g6 sem var tapleikur.

Undirbúningur gekk fínt í skák Jóhönnu og fékk hún fínt tafl með svörtu strax í byrjuninni. Miðtaflið varð líka þægilegra og á endanum vann Jóhanna peð en í endataflinu voru öll peðin á sama vængnum. Eftir síðustu hrókakaupin voru líklegast allir praktískir sénsar nánast farnir og jafntefli óumflýjanlegt.

Viðureign réðist því á síðustu skákinni á fyrsta borði. Þar hefðum við átt að klára dæmið og vinna þessa viðureign með minnsta mun. Olga hafði lengst af mun betri stöðu eftir byrjunina og í miðtaflinu en fann ekki slagkraft í að klára þar. Hún missti taflið niður í hróksendatafl og vann skákina í raun „aftur“ þar og gerði allt rétt.

Báðir vöktu upp drottningu, aðeins til þess að skipta svo upp og fara aftur í kapphlaup. En nú gerði Olga mistök í kapphlaupinu.

Hér lék Olga 52.Kg6?? sem missir skákina niður í jafntefli. Hvítur varð að leika 52.g3 og skákin teflist alveg eins…með einum lykilmun! Kapphlaupið í skákinni endaði svona:

Ef hvítur hefði hinsvegar byrjað á g3 í stað þess að fara í h-peðið hefði sama staða komið upp…nema að svartur hefði átt h-peð. Tilvist h-peðsins þýðir auðvitað að vörnin með kónginn fyrir framan peðið er ekki lengur patt og því yrði svartur óverjandi mát. Með eindæmum svekkjandi niðurstaða en svona getur skákin verið.

Í sjöundu umferðinni mætir kvennaliðið stallsystrum sínum frá Finnlandi. Við erum stigahærri á öllum borðum en Keinanen á fyrsta borði er grjóthörð!

Baráttan um titilinn ætlar að verða grjóthörð. Í kvennaflokki leiða Frakka með 11 stig, rétt á undan Búlgörum sem hafa 10 stig. Azerbaijan og Þjóðverjar hafa svo 9 stig.

Í opna flokknum er baráttan einnig grjóthörð. Þjóðverjar og Englendingar hafa 10 stig en Rúmenar og Serbar 9 stig.

Í lokin koma svo athyglisverðar skákir. Teimour Radjabov tapaði í aðeins 19 leikjum í dag. Á sínum tíma þótti Azerinn allt að ósigrandi, gerði mikið af jafnteflum og erfitt var að leggja hann að velli. Grískur andstæðingur hans gjörsamlega slátraði honum og kláraði skákina með 1:28 á klukkunni. Allt að því neyðarlegt tap fyrir Azerann, sérstaklega í liðakeppni!

Í kvennaflokki heldur Eline Roebers áfram að heilla með mikilli kraftataflmennsku. Hún lagði þýska stórmeistarann Elisabeth Paehtz að velli í fjörugri skák.

- Auglýsing -