Íslandsmótið í Mosfellsbæ hefur verið algjörlega magnað og ótrúlega skemmtilegar og spennandi skákir í fyrstu tveimur umferðunum. Þeir Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson eru einir keppenda með 2 vinninga. Þrír hafa 1,5 vinning en auðvitað er of snemmt að spá of mikið í spilin þegar men hafa fengið mjög mismunandi andstæðinga.

Fyrsta skákin til að klárast var viðureign Héðins Steingrímssonar og Olgu Prudnykovu.  Héðinn virtist nokkuð vel undirbúinn og fékk fínt tafl úr enska leiknum. Olga hefði líklegast átt að fórna peði og svartur ætti að hafa fullnægjandi spil. Olga var hinsvegar aggresífari en það og fórnaði skiptamun. Ekki alsæm hugmynd en stöðuna þurfti að tefla af fítonskrafti til að réttlæta fórnina. Olga gerði það en kannski um of og hlýtur að hafa verið slegin einhverri skákblindu þegar hún drap á e3 snemma í miðtaflinu.

Auðveldur dagur á skrifstofunni fyrir Héðin en að sama skapi hefði Olga alltaf tekið 1 af 2 með svörtu á tvo stigahæstu skákmenn mótsins.

Hannes hafði hvítt gegn Degi og teflt var Tartakower afbrigðið í drottningarbragði. Dagur fékk stöðu sem var í fínu lagi en fór smá á taugum að óþörfu með 17…a5? eftir 18.bxa5 bxa5

Reyndist innskotið 19.Rxd5! hinsvegar svörtum ofviða. Hannes vann mikilvægt peð og hvítur fékk fulla stjórn á stöðunni, veikleikalaus og svartur auk þess með tvö veik peð til viðbótar. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Hannes.

Guðmundur Kjartansson mætti vel undirbúinn til leiks gegn Vigni sem átti ekki von á að Guðmundur myndi beita 1.e4 aftur eins og í fyrstu umferðinni. Tefld var Berlínarvörn og þræddu þer teóríu, sömu og kom upp í sigurskák Hjörvars með svörtu gegn Jonas Buhl Bjerra á EM Landsliða í Budva 2023 (Sigurskák Hjörvars var skýrð af Helga Ólafssyni)

Guðmundur breytti útaf og valdi 14.f3 í stað 14.Kc2 sem Jonas tefldi. Guðmundur tefldi hratt og fór ekki undir byrjunatíma sinn fyrr en eftir 18. leik sinn sem sýnir hvað hann var klár í slaginn. Þá þegar hafði Vignir leikið ónákvæmum leik og var algjörlega i köðlunum undan pressu Guðmundar.

Guðmundur vann peð en hefði líklegast getað gert betur. Í útsendingu eftir skákina týndi hann eina helst til Had1 í stað Hhd1 sem hefði verið farsælli leið. Vignir varðist vel peði undir í hróksendataflinu og Guðmundur fann enga leið áfram. Hann lenti í að þráleika þrisvar með lítinn tíma á klukkunni en þá var frumkvæði hvíts líklega horfið út í hafsauga.

Vel sloppið hjá Vigni en báðir mega vel við una, Guðmundur líklega við sín neðri mörk með 1 af 2 með tvo hvíta en á móti andstæðingarnir mjög sterkir.

Helgi Áss var næstur að klára þegar hann lagði Lenku Ptacnikovu að velli í þungri pósaskák. Athyglisvert er að Db3 leikur Helga snemma í byrjuninni hefur verið tefldur af Friðrik Ólafssyni! Helgi hafði aldrei mikið til að vinna með og úr en náði smá pressu á kóngsvæng með betri mislitann biskup í drottningarlausu endatafli.

Lenka varðist vel í erfiðri stöðu en fann ekki einu leiðina til að berjast áfram í lokin

Hér er eina leiðin fyrir svart að „kalla blöffið“ hjá  hvítum og taka á h6. 42…Bxh6 43.Hxh6+ Kg5 44.Hg6+ Kh5 lítur stórhættulega út en hvítur á ekkert mát í stöðunni. Skiljanlegt er hinsvegar að þora ekki út í þetta með lítinn tíma á klukkunni. Eftir gerðan leik 42…Kf7 er hvíta staðan unnin og Helgi vann skömmu síðar. Fullt hús hjá Helga Áss.

Bárður Örn Birkisson lenti í erfiðri vörn gegn Aleksandr Domalchuk-Jonassyni. Aleksandr vann peð og var kominn með Bárð í mikla klemmu í stöðu með mislitum biskupum þar sem peð Aleksandr voru öll á rétttum lit en peðs Bárðs á reitum samlita biskupnum.

Í gagnkvæmu tímahraki virtist Aleksandr eiga nokkuð einfalda vinningsleið.

37.Hh7 virðist binda svartan algjörlega niður en þess í stað lék Sasha 37.Bf3?! og eftir 37…Hf5 fellur skyndilega peðið á f6 og sviðið orðið gjörbreytt. Bárður náði að jafna taflið en staðan einfaldaðist meira og virtist stefna í jafntefli en þá lék Bárður sig í mát í einum leik í tímahraki. Sveiflukennd skák!

Hafi skák Sasha og Bárðar verið sveiflukennt er lágmark hægt að segja slíkt hið sama um skák Hilmis og Hjörvars. Eins og í gær fékk Hjörvar fína stöðu. Eins og í gær þurfti hann samt að hafa mikið fyrir skákinni og lék henni niður á svipuðum tíma og í gær.

Teflt var Najdorf afbrigið, Hg1-línan sem Caruana beitti einmitt gegn Firouzja og Himir beitti í sigurskák gegn Noregi á EM landsliða. Hjörvar gerði hinsvegar betur í miðtaflinu og tók yfir frumkvæðið og fékk mun betra tafl, líklega unnið. Eitthvað klikkaði hinsvegar í úrvinnslunni og Hjörvar missti af vænlegum leiðum og smátt og smátt fór staða Hilmis að lagast. Fór svo á endanum að Hilmir reis úr öskustónni og náði að leggja Hjörvar að velli.

Svekkjandi byrjun hjá Hjörvari sem er án vinninga eftir tvær umferðir þrátt fyrir tvær vinningsstöður. Hvort um seinheppni, æfingaleysi eða bæði sé að ræða skal ósagt látið.

Úrslit

Staðan

Það er nánast þannig að aldursforsetarnir raði sér í efstu sætin en mótið er stutt á veg komið og of snemmt að spá of mikið í spilin.

Útsending 2. umferðar:

Mótið heldur áfram á morgun með 3. umferð sem hefst eins og allar klukkan 15:00. Athyglisverðar og mikilvægar viðureignir eins og verða vill í svo jöfnu móti.

Vignir fær hvítt á Héðin í mikilvægri skák, Hjörvar fær hvítt á Hannes og sigur gæti hjálpað honum að byrja viðsnúning á þessu móti.

- Auglýsing -