Landsliðsmaðurinn, Íslandsmeistarinn og stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson hóf í dag taflmennsku á opnu móti á Ítalíu en einn af okkar efnilegustu skákmönnum Aleksandr Domalchuk-Jonasson er einnig með í för. Báðir unnu þeir sínar skákir gegn stigalægri andstæðingi í fyrstu umferð.
Helgi mætti ítölskum skákmanni, Alberto Centamore (2151) og hafði hvítt. Upp kom drottningarbragð en Helgi flýtti sér aðeins um of í byrjuninni.
Hér lék Helgi of snöggt 9.Dc2?! og missir af einfaldri leið 9.Bxf6 Bxf6 10.Dh5 og vinnur peð. Helgi þurfti því að hafa meira fyrir skákinni en ella, sem er kannski ágætt til að koma sér af stað. Ítalinn gaf eftir í miðtaflinu og frípeð Helga á d-línunni varð of hættulegt.
Skák Aleksandrs var ekki í beinni en hann sendi okkur hana. Hann hafði hvítt gegn Þjóðverjanum Philipp Biedenkopf (2106). Lítið kom úr byrjuninni og þurfti Aleksandr að treysta á yfirburði í miðtaflinu sem gengu eftir. Göngutúrinn með kónginn til að búa til mátnet í lokin var skemmtileg vending!
Á morgun fá þeir báðir andstæðinga með yfir 2200 elóstig og hafa svart.
Spilimbergo Open er 9 umferða opið mót sem fram fer í ítalska bænum Spilimbergo frá 9-15. ágúst. Mótið er fyrir skákmenn yfir 2000 elóstigum með yfir 150 skákmenn. Belginn Daniel Dardha er stigahæstur keppenda of meðal þátttakenda er YouTube-stjarnan Levy Rozman sem eltist nú við stórmeistaratitilinn. Helgi Áss er númer 12 í stigaröðinni og Aleksandr er númer 30. Tímamörk eru 90+30