Í dag var 6. umferð tefld á Evrópumóti ungmenna en í gær var frídagurinn góði. Sumir fóru út um daginn í leikjagarða eða sundlaugagarða og aðrir söfnuðu kröftum fyrir seinni hlutann í þessu krefjandi móti. Þjálfarar fóru á kaffihús og „laumustúderuðu“ en stúderingarnar fálust í því að safna saman spurningum og þrautum fyrir kvöldið á frídeginum. Þá var haldin sameiginleg dagskrá fyrir hópinn sem fjölmargir sóttu og þónokkrir foreldrar á hliðarlínunni líka.
Bjölluspurningar!
Fyrir þjálfarana var samt hápunktur dagsins að fara í leikfangabúð í miðborg Prag í leit að bjöllu fyrir bjölluspurningarnar. Fannst þar forláta handmáluð bjalla sem fékk um það bil 37 mínútna líftíma í yfirlýstu hlutverki sínu en Birkir Hallmundarson, fyrir hönd sigurliðsins, fékk að endingu bjölluna til varðveislu að lokinni keppni. En hvur voru úrslit spurningakeppninnar, kann einhver að spyrja. Jú Ólafur, ég get svarað því. Liðin voru fjögur og fékk Skibidi Ingvar 20 stig, SHIIII 20 stig, Morra Gambítur 22 stig og Skibidi Toilet 22 stig. Morra gambítur vann hins vegar á oddastigum fyrir að svara því rétt, hvaða Íslendingur hefur oftast teflt Czech Benoni í kappskák! Í sigurliðinu voru Markús Orri, Markús Orri, Birkir Hallmundarson, Tristan Fannar og Halldóra Jónsdóttir.
En þá er komið að umfjöllun um gengi dagsins í dag, en tékkneska krónan stendur í rétt rúmum 6 krónum.
Aðdáendur kvikmyndarinnar „Með allt á hreinu“ muna líklega vel eftir því þegar ansi lítið félagsheimili, nánast skúr, hefur risastóran sal þegar gengið er inn. Það má segja að svipuð stemming sé á hinu annars ágæta hóteli þar sem keppendur ásamt fjölskyldu og þjálfurum dvelja. Framhliðin er eins og á ósköp eðlilegu hóteli en það er ekki sama staða upp á teningnum baka til. Fólk getur metið það sjálft á myndunum!
En nú skulum við raunverulega fjalla um gengi dagsins, eftir ákveðinn hliðarvaríant hjá greinarhöfundi, jafnvel nýjungar!
Stúlkurnar stóðu sig vel í dag og fengu 5.5 af 7 mögulegum. Ekki nóg með að þetta sé fjölmennasti hópurinn frá upphafi sem teflir fyrir Íslands hönd á þessu móti, þá hafa aldrei mætt fleiri stúlkur mætt til leiks.
Guðrún Fanney Briem er að standa sig best og vann í dag stigahærri andstæðing. Andstæðingur hennar með hvítt var aðeins of ýtin með peðin (höfundur þekkir það) sem skildi eftir veikleika í stöðunni. Guðrún fékk tvisvar tækifæri til að fórna skiptamuni fyrir yfirburðastöðu, og í seinna skiptið var látið vaða. Hvíta staðan var merkilega fljót að molna niður! Hér fylgir skák Guðrúnar.
Einnig tefldi Mikael Bjarki Heiðarsson ansi góða skák í franskri vörn það mátti jafnvel sjá glitta í lítið tár þegar Frakkaskákmaðurinn Ingvar Þór Jóhannesson sá þá skák. Búðum var lokað á drottningarvæng, en síðan var skyndilega einhverskonar miðnæturopnum (staðan semsagt opnaðist seinna í skákinni – sá er ritar er að reyna að vera fyndinn) á sama væng og peð runnu þar áfram. Skemmtileg þung stöðubarátta og þarna á ferðinni stigahæsti mótherji Mikaels Bjarka sem hann hefur unnið! Skákinni verður bætt hér við síðar en hún var ekki á beinleiðisborði.
Eins og áður sagði stóðu stúlkurnar sig vel en Miroslava, Halldóra, Emelía Embla, Guðrún Fanney og Iðunn unnu sínar skákir. Einnig unnu Pétur Úlfar og Mikael Bjarki. Katrín María, Karma, Birkir, Theodór og Markús Orri Óskarsson gerðu jafntefli en aðrir töpuðu í þessari umferð.
Úrslit 6. umferðar
Framhaldið:
Einn af liðsstjórum hópsins, Ingvar Þór Jóhannesson, tók viðtal í dag í Sídegisútvarpinu á RÁ2 hægt er að nálgast það hér (hefst á 1:21 í þættinum)
Um mótið:
EM ungmenna í skák 2024 fer fram í Prag, Tékklandi. Íslensku fulltrúarnir á mótinu er 23 talsins, sem er metfjöldi. Alls telur íslenski hópurinn í kringum 60 manns enda eru á svæðinu bæði foreldrar, ömmur og afar og ýmsir aðrir áhugasamir fjölskyldumeðlimir. Gríðarlega stór og flottur hópur.
Teflt er í aldursflokkunum u8, u10, u12, u14, u16 og u18.
Fulltrúar Íslands á mótinu eru:
Þjálfarar íslenska hópsins eru Björn Ívar Karlsson, Daði Ómarsson og Ingvar Þór Jóhannesson. Gauti Páll Jónsson er mættur til leiks í seinni hálfleik að lokinni taflmennsku í Póllandi.