Við eigum enn fulltrúa meðal efstu manna á opna San Cristóbal de La Laguna 2024 mótinu á Tenerife en þeim fækkaði þó um einn. Vignir Vatnar Stefánsson vann sína skák og er jafn efstu mönnum en Aleksandr Domalchuk-Jonasson heltist örlítið úr lestinni þar sem hann tapaði í umferðinni. Dagur Ragnarsson vann sína skák og færist nær toppnum.
Vignir hafði hvítt gegn Uruguayanum Facundo Vazquez (2388). Vignir réðist til atlögu á kóngsvængnum eftir Ragozin byrjun og gjörsamlega valtaði yfir andstæðing sinn á kóngsvægnum. Gaman að sjá hvað Vignir getur látið sigra gegn svona andstæðingum líta auðveldlega út, klárt styrkleikamerki á vaxandi skákmanni!
Ekki gekk jafn vel hjá Aleksandr í umferðinni. Hann hafði hvítt gegn Francisco Fiorito sem hefur vafalítið ætlað að hefna fyrir hinn Fiorito fjölskyldumeðliminn í mótinu sem Aleksandr vann fyrr í umferðinni. Aleksandr fékk mjög þægilegt tafl en missti þráðinn á einhvern hátt…mögulega mætti skrifa það á krónískt tímahrak en líklegast er það eitthvað sem Aleksandr þarf að laga til að taka næsta skref í átt að stórmeistarastyrkleika.
Fiorito náði einhvern veginn að verjast og snúa svo taflinu sér í vil í endataflinu eftir að Aleksandr missteig sig. Svona skák þar sem manni fannst Aleksandr meira tapa heldur en hinn vinna.
Dagur náði í sigur gegn Sergio Hernandez (2151). Aðgerðir Dags á kóngsvæng virtust á leið í þrot en þá lék Sergio af sér og leyfði Degi að ná góðu mátstefi.
Vignir hefur nú 5 vinninga af 6 og er í efsta sæti ásamt Mike Ivanov sem hann hefur þegar mætt og þrjótinum honum Francisco Fiorito sem lagði Aleksandr að velli. Vignir fær möguleika á að koma fram hefndum á morgun. Aleksandr dettur aðeins niður en hann og Dagur hafa nú 4 vinninga en fá báðir sterka andstæiðnga.