Ekki gekk neitt sérstaklega á opna San Cristóbal de La Laguna 2024 mótinu á Tenerife í sjöundu umferðinni sem fram fór í dag. Vignir Vatnar Stefánsson gerði jafnefli í sinni skák og sama gerði Aleksandr Domalchuk-Jonasson en Dagur Ragnarsson varð að lúta í dúk gegn stigahæsta manni mótsins. Þrátt fyrir rýra uppskeru í dag er Vignir enn í efsta sæti.
Vignir hafði svart gegn hinum unga Francisco Fiorito og varð lítið ágengt gegn frekar áhættulítilli taflmennsku Argentínumannsins með hvítt. Jafntefli sem lítið er hægt að gera í.
Dagur varð að lúta í dúk gegn stigahæsta manni mótsins, Merab Gagunashvili. Tefldur var Grunfeld og fékk Dagur færi á skemmtilegu þema sem hann þó missti af.
12…c6!? er nokkuð óvenjulegt hér þar sem bæði riddari og biskup til c7 tapa liði. Svartur vinnur því peðið á d4 reitnum.
Dagur lenti í erfiðri vörn en hélt lengi vel í von um að halda stöðunni sökum tilveru mislitra biskupa. Á endanum hafði Merab þó betur.
Aleksandr varð að sætta sig við þráleik ekki ósvipað og Vignir. Andstæðingur hans var aðeins stigalægri og eðlileg úrslit að gera jafntefli með svörtu við þær kringumstæður.
Vignir hefur nú 5,5 vinninga af 7 og er enn í efsta sæti en hópurinn hefur þó aftur þést á toppnum. Aleksandr hefur 4,5 vinning og Dagur 4 vinninga. Strákarnir hafa allir hvítt á morgun og tefla niður fyrir sig.