16-manna úrslit á Íslandsmótinu í Netskák hefjast í kvöld. Mótið er haldið í samvinnu við Rafíþróttasamband Íslands og verður með glæsilegasta móti og sýnt á Sjónvarpi Símans!
Teflt verður annan hvern sunnudag og hefst veislan í kvöld með viðureignum Helga Ólafssonar gegn Þresti Þórhallssyni annarsvegar og Bragi Þorfinnssyni gegn Degi Arngrímssyni.
Útsending hefst klukkan 20:00 á Sjónvarpi Símans en einnig er hægt að fylgjast með á netinu hér -> RÍSÍ TV — Rafíþróttasamband Íslands (rafithrottir.is)
Tefld verða 10 skáka einvígi með tímamörkunum 3+2. Komist keppandi í 5,5 vinning er einvíginu lokið. Skilji menn jafnir 5-5 verður bráðabanaskák eða það sem menn kalla yfirleitt Armageddon þar sem hvítur hefur 5 mínútur gegn 4 hjá svörtu en svörtum nægir jafntefli til að vinna.
Hægt er að spá í spilin á Lengjunni. Eins og stendur er Bragi metinn sem örlítið líklegri gegn Degi Arngrímssyni en Helgi talinn mun líklegri gegn Þresti.
Mótið er eins og áður segir með glæsilegra móti og heildarverðlaun er 1 milljón króna eins og greint var frá í mótatilkynningu.