Lokaumferðin á EM einstaklinga í Petrovac í Svartfjallalandi fór fram í dag. Vignir Vatnar gerði jafntefli í lokaumferðinni og Guðmundur Kjartansson náði í eina íslenska sigurinn í umferðinni. Þrír íslenskir skákmenn mættu ekki til leiks í lokaumferðinni, ýmist vegna veikinda eða þreytu/bugunar sem er því miður leiðinlegt að sjá.
Vignir Vatnar Stefánsson var efstur Íslendinga með 6 vinninga fyrir umferðina og Guðmundur hafði 5 vinninga…aðrir minna!
Vignir hafði hvítt gegn georgískum IM en náði ekki að yfirspila hann í miðtaflinu þrátt fyrir ágætis tilraunir. Á endanum átti Georgíumaðurinn örlítið hættulegri færi en jafnteflið virtist aldrei í hættu.
Guðmundur Kjartansson náði að bjarga því sem bjargað varð í annars dapri umferð. Miðtafl hans gegn ísraelskum FM varð ansi órætt vægast sagt en Guðmundur hafði betur í flækjunum. Ekki oft sem hægt er að leyfa andstæðingnum að vekja upp með skák á viðlíka hátt og hafa unnið tafl!
Skemmtileg skák!
Úrslit umferðarinnar
Aðeins tvær tefldar skákir í lokaumferðinni en þær fóru nokkuð vel.
Lokaniðurstaðan er 6,5 vinningur hjá Vigni og 83. sætið. Vignir er aðeins fyrir ofan styrkleikaröðun sína og hækkar um rúmlega 1 elóstig fyrir frammistöðuna.
Guðmundur endaði með 6 vinninga og í 154. sæti, aðeins fyrir neðan styrkleikaröðuna sína. Guðmundur lækkar um 12 elóstig.
Hannes endaði með 4,5 vinning í 280. sæti og lækkar um tæp 28 elóstig.
Helgi Áss endaði í 315. sæti með 4 vinninga og lækkar um tæp 23 elóstig.
Aleksandr endaði einnig með 4 vinninga í 317. sæti og lækkar um tæp 22 elóstig.
Serbinn sókndjarfi Alexander Indjic hafði sigur á mótinu, gerði jafntefli við Daniel Dardha í lokaumferðinni og endaði með 9 vinninga, stórkostlegur árangur. Serbar hafa verið einstaklega farsælir undanfarið, Sarana varð Evrópumeistari ekki fyrir löngu og Serbar unnu EM landsliða 2023.
Flestir af sterkustu virku skákmönnum þjóðarinnar tóku þátt að þessu sinni. Íslensku keppendurnir voru:
Vignir Vatnar Stefánsson (2530) nr. 86
Hannes Hlífar Stefánsson (2485) nr. 116
Guðmundur Kjartansson (2470) nr. 122
Helgi Áss Grétarsson (2441) nr. 139
Aleksandr Domalchuk-Jonsson (2399) nr. 183