Dagur Sverrisson

Ísland á tvo fulltrúa á Heimsmeistaramóti barna í skák, sem fram fer á í Montesilvano á Ítalíu dagana 15.-26. nóvember. Í dag lauk tíundu umferð þar sem Dagur Sverrisson í U8 náði sér í  góðan sigur, hans annan sigur í röð. Birkir Hallmundarson tapaði sinni skák í U12 gegn feykisterkum Hollendingi með 2285 og FIDE-meistaratitil!

Birkir Hallmundarson teflir í flokki 12 ára og tapaði gegn þessum sterka skákmanni.

Birkir Hallmundarson

Andstæðingur Birkis tefldi feykivel og gaf aldrei færi á sér. Til marks um styrkleikann fann hann eina mát í tveimur leikjum fyrir hvítt í þessari stöðu sem ég eftirlæt lesendum sem góða æfingu!

Birkir hefur 5 vinninga eftir þessa skák og situr í 80. sæti en hóf leik númer 62 í styrkleikaröðun.

Dagur Sverrisson

Dagur Sverrisson teflir í flokki 8 ára og yngri. Dagur tefldi Grand-Prix árás með hvítu gegn mongólskum strák. Dagur fékk hættulega kóngssókn og tefldi hana meistaralega.

18.g4! rýfur vald biskupsins á h3 reitinn, svartur er orðinn varnarlaus 18…Dd7 19.Dh6! hótar máti á g7 19…Hg8 og hér kláraði Dagur skemmtilega með drottningarfórn sem á að vera í vopnabúri góðra skákmanna…

20.Dxh7+! og mátar í næsta leik með hrók á h3!

Dagur hefur 4,5 vinning eftir umferðina og er í 84. sæti en var númer 83 í styrkleikaröð. Dagur varð þó að gefa eina skák vegna veikinda sem skekkir stöðuna.

Lokaumferðin fer fram á morgun.

- Auglýsing -