Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritar reglugerð um afrekssjóð í skák. Mynd: Heimasíða mennta- og barnamálareyðuneytisins

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað nýja reglugerð um afrekssjóð í skák. Reglugerðin tilgreinir með hvaða hætti styrkveitingar til skákmanna munu fara fram.

Ný lög um skák taka gildi 1. febrúar 2025. Þá verða störf og föst laun stórmeistara lögð niður. Auk styrkja til stórmeistara verður einnig hægt að úthluta styrkjum til framúrskarandi eða efnilegra skákmanna úr nýjum afrekssjóði. Stórmeistarar á launum frá ríkinu njóta forgangs til styrkja árið 2025.

Markmiðið með reglugerðinni er að búa afreksskákmönnum og efnilegum skákmönnum fjárhagslega og faglega umgjörð til að hámarka árangur sinn í skák.

„Íslenskir skákmenn hafa náð framúrskarandi árangri á alþjóðavísu. Við viljum halda áfram að styðja við öflugt afreksstarf hérlendis og búa til umgjörð utan um stuðninginn sem hvetur til iðkunar og árangurs, líkt og þekkist í öðrum greinum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Auglýst er árlega eftir umsóknum í afrekssjóð út frá stefnu og skilyrðum sjóðsins. Stjórn sjóðsins metur umsóknir og leggur fram tillögur að úthlutun til ráðherra. Miðað er við að úthlutun styrkja sé tilkynnt fyrir 1. febrúar ár hvert.

Ráðherra skipar þrjá fulltrúa í stjórn afrekssjóðs í skák til þriggja ára í senn, tvo samkvæmt tilnefningum Skáksambands Íslands og einn án tilnefningar. Stjórn leggur fram tillögu til ráðherra um stefnu við úthlutun styrkja úr sjóðnum til þriggja ára í senn og um styrkveitingar úr sjóðnum, auk þess að fylgjast með því að skákmenn sem fá úthlutað úr sjóðnum fari að skilmálum.

Heimilt að gera þær kröfur til umsækjenda að þeir njóti ekki annarra launa eða greiðslna á því tímabili sem styrkurinn nær til og gera kröfu um endurgreiðslu ef ákvæðum styrktarsamnings er ekki fylgt. Til að bæta stöðu og auka möguleika kvenna í skák er heimilt að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin.

Af heimasíðu mennta- og barnamálaráðuneytisins

- Auglýsing -