Alþjóðlegu meistararnir Dagur Ragnarsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson héldu áfram taflmennsku á alþjóðlegu móti í New York á föstudeginum. Fyrir keppnisdag tvö höfðu þeir báðir unnið sína skák en framundan eru bara tvöfaldir keppnisdagar. Aleksandr var góður í dag, vann sína skák með hvítu á meðan Dagur tapaði sinni en svo skildu þeir jafnir innbyrðis í þriðju umferð.
Dagur átti ekki góðan dag í 2. umferð. Í 15. leik í miðtaflinu lék Dagur illa af sér í jafnri stöðu og sá sér þann kost vænstan að reyna að fórna drottningu til að blíðka goðin. CM Nitesh Cherukuri (2179) hélt góðum tökum á stöðunni og gaf drottninguna til baka á góðum tíma til að fá kolunnið endatafl.
Skák Aleksandrs í 2. umferð gekk öllu betur. Sasha hafði hvítt en eyddi reyndar óheyrilega miklum tíma gegn „frestuðu Benkö-bragði“ hjá Luc Hoffman (2130). Þrátt fyrir að Sasha stæði aldrei illa var skákin smá barningur og okkar maður í sínu venjulega sprúðlandi tímahraki.
Í kringum 30. leik náði Aleksandr að stýra taflinu í hróksendatafl peði yfir (eins og í gær!) en þó með töluverðri tæknivinnu sem átti enn eftir að vinna. Sasha vann þessa vinnu og skákina!
Í seinni umferð dagsins, 3. umferð mótsins mættust þeir svo innbyrðis. 19. leikja skák þeirra hafði teflst áður í skák Mamedyarov og Karjakin frá árinu 2017. Mögulega tilviljun en heimildamenn Skak.is þykjast hafa séð þá félaga á leik New York Knicks og Minnesota Timberwolves að skák lokinni!
Á morgun heldur gamanið áfram en þá verður aftur tefld tvö tvöföld umferð eins og á sunnudaginn og á mánudaginn. Alvöru dagskrá, stóra Eplið verður að bíða nema blaðasnápar Skak.is hafi haft rétt fyrir sér með mætingu þeirra í Madison Square Garden!
- Mótið á chess-results
- Mótið á lichess (velja IM-D flokk)