Þriðja umferð, sem tefld var í gær, 20. janúar, var með daufasta móti. Að hluta til má rekja það til forfalla vegna veikinda, en fresta varð skákum Markúsar og Vals Darra, svo og skák Goða og Sigþórs.
Á efstu borðum áttust nú við reyndustu keppendurnir, sem flestir eiga áratuga skáksögu að baki. Hugsanlega bar reynslan þá Karl og Smára ofurliði, eða friðareðlið náði tökum á þeim, því þeir sömdu um skiptan hlut eftir aðeins 19 leiki, að sönnu í hnífjafnri stöðu. Hin reynsluboltaskák var milli Sigurðar fyrrum sýslumannsfulltrúa og eðlisfræðingsins Stefáns, sem unnuð hafði báðar skákir sínar til þessa. Þarna var að sönnu þungt lagst á árar og virtst Stefán, sem hafði svart ná að jafna taflið fremur auðveldlega. Krækti hann í peð í miðtaflinu og brást Sigurður við með því að flækja taflið sem mest hann mátti. Saxaðist nú á tíma beggja, einkum Stefáns. Flækjurnar dugðu Sigurði til að endurheimta peðið og svo var kóngur Stefáns orðinn heldur berskjaldaður. Í tímahrakinu lék hann svo af sér frípeðinu sem hann hafði sett allt sitt traust á og eftir það mátti hann sín lítils gegn málafylgju lögfræðinsinssem hafði sigur í málinu með tveimur samstæðum frípeðum. Þar með skaust hann fram úr eðlisfræðingnum og náði efsta sætinu.
Meðan á þessu gekk tefli æskan hratt og ónákvæmt í skák Björgvins og Baldurs. Fyrst lék Baldur af sé manni og stóð þá afar höllum fæti. Það kom þó ekki að sök, því skömmu síðar lék Björgvin af sér heilum hrók og eftir það varð tafli hans ekki bjargað. Þeim lá mikið á, ungu mönnunum og stóð klukka beggja nálægt 1:30 að loknum 62 leikjum sem það tók þá að ljúka skákinni. Fengu þeir föðurlegar ákúrur skákstjóra eftir skákina fyrir þetta óðagot.
Öllu rólegra var yfirbragðið í skák þeirra Eymundar og Benedikts. Sá síðarnefnd mátti brjótast til byggða innan úr Hörgárdal í snjókomu og þæfingsfærð, en lét það þó ekki hindra sig í því að bregða fyrir sig franskri vörn. Fékk hann prýðisgóða stöðu og lengi vel virtist skákin í jafnvægi; mönnunum fækkaði smátt og smátt á birðinu og upp kom endatafl þar sem báðir höfðu tvo hróka; Bensi valdað frípeð en Mundi einu opnu línuna á borðinu. Eftir 35 leiki sáu þeir félagar enga lausn á vanda stöunnar en að semja jafntefli. Það var þó kannski heldur vafasöm heldur vafasöm ákvörðun þar sem E. Lúther (sem stýrði hvítu mönnunum) átti þvingað mát í lokastöðunni og það í aðeins tveimur leikjum. Svona getur nú friðsemdin farið með menn!
Þar sem þriðju umferð er ekki að fullu lokið er staðan í mótinu ekki alveg ljós. Þó vitum við að Sigurður Eiríksson er einn í efsta sæti með 2,5 vinninga en þeir Stefán, Karl og Smári hafa 2 og gæti a.m.k. einn til viðbótar bæst í þann hóp. Röðun í 4. umferð, sem tefld verður miðvikudaginn 22. janúar kl 18, liggur líklega ekki fyrir fyrr en síðdegis á morgun, þann 21.