Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson er áfram efstur á Skákþingi Reykjavíkur en tapaði sínum fyrsta hálfa punkti í skemmtilegri skák við formann Taflfélags Reykjavíkur, FIDE-meistarann Ingvar Þór Jóhannesson. Sviptingarnar voru þónokkrar í þessari sjöundu umferð í Friðrikssalnum eins og skáksalurinn í TR verður hér eftir kallaður.
Vignir opnaði taflið með kóngspeði og vafalítið verið vel undirbúinn fyrir franska vörn Ingvars sem leitaði í Nimzovitsch afbrigðið í sikileyjarvörn 2…Rf6!? til að koma eilítið á óvart.
Svartur fær ákveðna harðlífiðsstöðu og hvítur stendur betur en hvítur þarf líka að finna leiðir til að brjótast í gegn. Þegar leið á taflið héldu varnir svarts og Ingvar kominn með færi á einum tímapunkti þó færin hafi skipst á báða bóga.
Heimildir herma að Ingvar hafi nagað sig vel í handarbökin þegar fréttist eftir skákina að svartur hefði átt 46…b5!! í þessari stöðu sem er sérlega stílhreinn og flottur leikur sem vinnur lið í öllum varíöntum.
Vignir sýndi enn og aftur varnarhæfileika sína í endataflinu og jafntefli niðurstaðan.

Það er sjaldan komið að tómum kofanum í byrjanafræðum hjá Birki Ísak Jóhannssyni. Oliver Aron Jóhannesson fékk að reyna það en hann var snemma í miðtaflinu kominn með næstum 40 mínútum verri tíma og hvítur hafði betri stöðu. Birkir vann peð og náði að hanga á umframpeðinu og láta það telja.

Landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson hefur engan veginn náð sér á strik á þessu móti og hann varð að lúta í dúk gegn Benedikt Briem. Hilmir tefldi Benoni vörnina full frjálslega og hvítur virtist fá allt sem hann vill, góðan riddara á c4 og e5-framrásina. Fín skák hjá Benedikt sem hefur komið á óvart á þessu móti.
Símon Þórhallsson hélt sér í toppbaráttunni með góðum stöðulegum sigri á landsliðskonunni Hallgerði Helgu. Símon tefldi líka við Hallgerði í Færeyjum á dögunum og í bæði skiptin hefur passífur hvítreitabiskup orðið Hallgerði að falli. Svarta staðan var passíf en lengi vel var ekki ljóst hvernig Símon ætlaði sér að brjótast í gegn en með seiglu og kostgæfni náði Símon því ætlunarverki.
Mikael Jóhann sá um „Fréttablaðsleikinn“ í umferðinni! Hvítur á leik
Einstaklega smekkleg drottningarfórn 27.Dxg6! og svarta staðan hrundi endanlega. 27…fxg6 var ekki í boði útaf 28.Hf8+ Kd7 og 29.Rc5 mát!

Hinn ungi Haukur Víðis Leósson tefldi mjög þroskaða skák með svörtu mönnunum í sjöundu umferðinni. Gríðarlega efnilegur skákmaður hér á ferðinni og lagði hann Ketil Sigurjónsson að velli í þessari skák í raun án þess að Ketill léki af sér liði.
Úrslit 7. umferðar:
Staðan:
Vignir enn efstur og tveir Blikar í öðru sætinu og mætast þeir í næstu umferð.
Pörun 8. umferðar:
Vignir hefur svart gegn Símoni og Benedikt og Birkir Ísak mætast í mikilvægri skák. Oliver hefur hvítt gegn Birni Hólm og Ingvar hefur hvítt á Mikael Jóhann.