Björn Þorfinnsson varð hlutskarpastur á stórskemmtilegu og vel heppnuðu 20 ára Afmælismóti skákfélagsins Goðans sem lauk í dag í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Björn skildi jafn gegn bróður sínum Braga sem dugði til að vinna á oddastigum.
Fyrir lokaumferðina var Björn Þorfinnsson í efsta sæti og hans verkefni að mæta bróður sínum Braga eins og áður sagði. Simon Williams hafði svart gegn Jóni Kristni og Þröstur Þórhallssyni hvítt gegn Bárði Erni Birkissyni í mikilvægri oddastigaskák.

Byrjum á viðureigninni sem allir voru að fylgjast með, bræðrabyltan! Eftir goðsagnakennt jafntefli í fjöltefli við Simon Williams hafði gengið brösulega hjá Inga Hafliða Guðjónssyni að samtvinna taflmennsku og mótaundirbúning. Úthvíldu á sunnudeginum náði hann hinsvegar að snúa aðeins verra tafl gegn bróður sínum Lárusi Sólberg í sigur.
Lárus seildist of langt með 19…Rf2+?? en áttaði sig of seint á því að eftir 20.Hxf2 þá fellur drottningin ef svartur tekur á f2. Eftirleikurinn og montrétturinn hélt sér því hjá Inga að þessu sinni!
Gauti Páll fór með himinskautum snemma skákar sinnar gegn Degi Ragnarssyni. Stundum er þessi útgáfa af Gauta kölluð himin-Gauti. Þessi skák hafði ekki áhrif á topp 3 beint en allar skákir voru líklegar til að hafa ákveðið mikilvægi er kæmi að oddastigaútreikningum.
Framan af skák reis staða Gauta upp eins og glænýr Fönix! Gauti fórnaði manni og var að flengja Dag eftir öllum kúnstarinnar reglum í sikileyjarvörninni. Þegar menn eru að tefla glanspartý er samt alltaf hættan að vilja fórna aðeins yfir sig fyrir „fegurðarverðlaunin“ sem eru reyndar engin nema ansi góð tilfinning!
22.Hxd6? var óþarfi í stöðunni og svartur á barmi taps eftir leiki eins og 22.Rb6, 22.c4 eða 22.Dg7. Dagur komst aðeins inn í taflið og fann svo einu leiðina til að snúa taflinu sér í vil skömmu síðar.
24…Hh7! gefur svörtum betra tafl og Dagur nýtti sér þetta tækifæri sem Gauti í raun gaf honum!
Dagur hér orðinn tímabundið efstur og hrópaði „Stop the count!!“ …tímabundna sætið tók hann af Arnari Milutin sem sýndi fram á að Boor-attack lifir enn góðu lífi í snaggarlegri skák. Svarta staðan strax orðin mjög erfið í 10. leik en mannsfórnin kannski full mikið af því góða.
Nú fór að draga til tíðinda í titilbaráttunni. Simon Williams náði að klára sína skák gegn Jóni. Simon fékk mjög gott endatafl og nýtti biskupaparið vel og Jón hafði auk þess veikt stöðu sína mikið á hvítu reitunum og sýndi Simon fína stórmeistaratækni í endataflinu.
Í kjölfarið kom þráleikur í skák Þrastar og Bárðar. Þröstur hafði haft vaðið fyrir neðan sig framan af en var nýbúinn að fórna manni. Mögulega hefði Þröstur getað leikið He3 og teflt taflið áfram en í því var líka ákveðin áhætta. Bárður krafðist í stöðunni þegar sama staðan kom upp í þriðja skiptið.
Skömmu eftir þessar sviptingar tóku öldurnar að lægja í skák Braga og Björns. Bragi hafði fengið betra tafl og pressað en Björn náði að verjast skiptamun undir og komast í endatafl með öll peðin á sama væng og staðan hélt og sigurinn í höfn!
Jafnteflið tryggði Braga svo 3. sætið á oddastigum!
Úrslit umferðarinnar:
Lokastaðan:
Björn varð því hlutskarpastur á oddastigum, jafn Simon að vinningum sem hlaut 2. sætið. Bragi tók 3. sætið á oddastigum.
Markús Orri hlaut U18 verðlaunin, Áskell Örn Y65 verðlaunin og Lárus H. Bjarnasun U1800 verðlaunin.
Mótahaldið tókst glimrandi vel og á Goðinn mikið hrós skilið og hafa þeir lofað að mótið verði haldið aftur, líklegast að tveimur árum liðnum!
*** Fréttin verður uppfærð með myndum af sigurvegurum síðar í dag ***
Styrktaraðilar Afmælismóts Goðans 2025
Þingeyjarsveit
Sel-Hótel Mývatn
Landsvirkjun
Sparisjóður Suður Þingeyinga
Framsýn
Jarðböðin
HSÞ
GPG