Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson og alþjóðlegi meistarinn Aleksandr Domalchuk-Jonasson halda áfram í dag á Evrópumóti einstaklinga og komið er að 2. umferð. Báðir unnu þeir með svörtu í 1. umferð -> Vignir og Aleksandr unnu báðir í Rúmeníu | Skak.is

Verkefni dagsins líta svona út og hefst taflmennskan klukkan 13:00 að íslenskum tíma.

Báðir hafa hvítt og mætir Vignir Tyrkneskum IM Eren Ataberk. Sá er kominn réttum megin við tvítugt og þó hann sé örugglega fínn skákmaður er ekkert undrabarn hér á ferð. Aleksandr Domalchuk-Jonasson mætir mjög sjóuðum rúmenskum stórmeistara sem hefur margoft teflt fyrir hönd Rúmeníu, Mircea Parligras.

Skákir þeirra er hægt að sjá á lichess (tengill neðst) eða í lichess spilaranum hér í fréttinni!

Keppendur á mótinu í ár eru alls 375 og er Vignir númer 69 í stigaröðinni en Aleksandr númer 179. Heimamaðurinn Bogdan-Daniel Deac (2692), sigurvegari á síðasta Reykjavíkurskákmóti, er stigahæstur og eins er Alexey Sarana (2689) alltaf líklegur en fyrir aðeins 2 árum vann hann þrjú mismunandi evrópumót á sama ári þ.e. með mismunandi tímamörkum og bæði einstaklings- og liðakeppni! Tefldar eru 11 umferðir með einum frídegi. Mikið er í húfi en 20 efstu skákmenn mótsins komast á Heimsbikarmótið sem fram fer síðar á þessu ári.

- Auglýsing -