Sjötta umferð á EM landsliða kláraðist í dag, síðasta umferð fyrir frídag. Íslenska landsliðið í opnum flokki gerði jafntefli við sveit Finna en sigur náðist í kvennaflokki í viðureign við lið Skota. Liðin eiga bæði eitthvað inni og vonandi sækja þau í sig veðrið í lokaumferðunum!
Opinn flokkur


Þrátt fyrir að Finnarnir séu sæti ofar en við í styrkleikaröð þá hvíldu þeir sinn besta mann þannig að við ættum að eiga yfirhöndina í þessari viðureign í flest skipti!
Það var Hannes sem setti tóninn með því að ná í fyrsta punktinn í þessari viðureign. Hannes mætti Íslandsvininum Tappani Sammaluvo og hafði hvítt.
Upp kom Petroffs vörn og Hannes nennti greinilega engri „move-for-move“ teóríu og lék 4.Bd3, óvenjulegur leikur og kom biskupnum svo fyrir á f1 og tefldi taflið. Hannes með örlítið betra eins og venjan er í Petroff en missti þó af skemmtilegri stungu snemma tafls.
Hérna hefði 18.Rxg5! verið smekklegur. Þar sem riddarin á h5 er ofaní virðist 18…Dxg5 leikurinn en millileikurinn 19.Re4 Df5 gefur kost á 20.Dxh5 og svo gaffall á f6!
Hannes fékk annan séns til að taka á g5 og nú klikkaði ekkert!
24.Rxg5! var góður 24…hxg5 25.Bxf5 Bxf5 26.Dxg5+ Bg6 27.Rxg6 og svarta kóngsstaðan er hrunin, hvítur hefur fína menn og auk þess fullt af peðum fyrir manninn! Hannes vann ekki bara, hann mátaði!
Ísland komið á bragðið og leit viðureignin ágætlega út þegar hér var komið við sögu.

Aleksandr var í erfiðri skák lengi og alltaf með verra og endaði í endatafli með mislitum biskupum og hrók hjá báðum þar sem Aleksandr var að reyna að halda í horfið en staðan alltaf þægilegri á hvítt. Hvítur komst peði yfir og smát tog smátt hrundi staðan hjá Aleksandr sem varð að sætta sig við tap.
Þarna hafði Guðmundur fengið jafnteflisboð á öðru borði en Helgi liðsstjóri hafnaði því. Guðmundur varð að bíða átekta eftir skák Vignis á efsta borði. Skákin virtist þó alltaf ætla að enda í jafntefli hjá Guðmundi og gerði það.

Vignir tefldi mjög fína skák í Catalan. Þrátt fyrir fínan undirbúning Sipila náði Vignir stórhættulegu frípeði á c-línunni sem hélt hættulegum færum á hvítt. Afleikur kom loks í 42. leik hjá svörtum eftir að Vignir hafði hlaðið praktískum vandamálum á svörtu stöðuna.
Því miður fann Vignir ekki vinninginn, lék hér 45.Hxa2? Það virðist vera að 45.Hg7+ sé vænlegur en 45…Kh8 46.Da7 er svarað með 46…Df6 (eini leikurinn) og svarta staðan virðist hanga saman, …f4 er að koma og mótspilið virðist nóg. Mögulega hefði verið hægt að þæfa þessa stöðu eitthvað áfram.
Vinningurinn lá í 45.Db3+ en er flókinn! 45…Dd5 46.Hg7+ Kh8 47.Db2 og vinnur a-peðið undir góðum kringumstæðum. T.d. 47…Dd4 48.Dxa2 og nú er ekkert hald í að hafa drottninguna á f6 þar sem svartur hótar ekki að vekja upp a-peðið.
Eftir gerðan leik Vignis náði Finninn strax að einfalda taflið. Jafntefli niðurstaða í skákinni og viðureigninni.
Á endanum svekkjandi úrsit, við hefðu með lítilli heppni unnið þessa viðureign. Finnarnir hvíldu sinn besta mann og þetta því klárlega vonbrigði.

Næst á dagskrá er sveit Færeyja sem eru án Helga Dam Ziska. Skyldupunktur allan daginn!
Kvennaflokkur



Jóhanna var fyrst til að klára. Andstæðingur hennar tefli 1…e5 í fyrsta skipti og svo Petroff. Reid hafði alltaf teflt sikileyarvörn en hér átti greinilega að koma á óvart og tefla traust. Jóhanna lék 3.Rc3 og þá fór ungfrú Reid í „tankinn“ og hugsaði í 20 mínútur. 3.Rc3 var greinilega ekki í undirbúningnum og nú þurfti að tefla stöðuna.
Í kjölfarið kom skrautlegur kafli þar sem svartur krafðist þess að fórna e5 peðinu en hvítur rað-neitaði. Furðulegir leikir svarts söfnuðust þó fljótt saman og staðan hrundi algjörlega og auðveldur sigur í höfn hjá Jóhönnu.

Lenka fékk erfiðasta verkefnið og mætti Keti sem er stórmeistari. Tefld var kóngsindversk vörn og Lenka ákvað að taka liðið sem Keti fórnaði en gerði það örlítið gegn betri vitund eins og hún sagði sjálf eftirá. Svarta sóknin varð stórhættuleg og hvíta vörnin krefjandi. Fór svo að Keti hélt pressunni og náði að brjótast í gegn í lokin.
Staðan hér orðin 1-1.

Andstæðingur Iðunnar breytti líka útaf sínu eins og stelpan á þriðja borði. Tefldi 1.e4 í stað enska leiksins. Uppstillingin sem hún valdi var traust og Iðunn þurfti að vera þolinmóð. Endaði Iðunn á að fá betra tafl en hvítur fékk þó einn góðan séns!
29.c5 hefði verið skemmtileg stunga hér. Ekki má taka á c5 þar sem hvítur skýtur inn í fxg6 og á svo skákina á c4.
Sú skoska missti af þessu, gleymdi svo peðinu á h4 í tímahraki og svarta staðan styrktist og hvíti kóngurinn orðinn veikur. Hér skildi algjörlega á milli og Iðunn kom okkur í 2-1
Hallgerður varð því að ná jafntefli til að tryggja sigurinn. Staðan hjá Hallgerði var hinsvegar erfið hér, sat í hróksendatafli peði undir eftir að hafa lent í vandræðum þar sem Rutherford virtist gríðarlega vel undirbúin og tefldi hratt og örugglega.
Í endataflinu kom kannski styrkleikamunurinn loks í ljós. Hvítur hafði á tíma unnið tafl en tefldi ónákvæmt og endataflsreynsla Höllu var klárlega mun meiri og jafnteflinu siglt í höfn eftir mistök hjá hvítum.
Sigur með minnsta mun en við tökum hann!

Næst á dagskrá er viðureign gegn Svíþjóð. Hallgerður er í færi á WIM normi með sigri og réttri pörun.
- Heimasíða mótsins
- Chess-results – opinn flokkur
- Chess-results – kvennaflokkur
- Beinar útsendingar – Opinn flokkur
- Beinar útsendingar – kvennaflokkur
- Bein lýsing (ECU TV)















