Sjöunda umferðin á EM landsliða í Batumi í Georgíu gaf vel fyrir okkar lið. Í opna flokknum vann íslenska liðið 2,5-1,5 sigur á því Færeyska og í kvennaflokki vannst einnig sigur með minnsta mun gegn sveit Svía. Frekari gleðitíðindi voru á boðstólnum í kvennaflokki þar sem Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir náði sér í áfanga að WIM titli með sigri í umferð dagsins!

Opinn flokkur

Frændur okkar Færeyingar…sýnd veiði en ekki gefin og allt það. Þrátt fyrir að það vanti Helga Dam Ziska í liðið þá er frændur okkar miklir baráttumenn og hafa iðulega náð rothöggum upp fyrir sinn þyngdarflokk á EM og ÓL.  Skyldusigur á pappírnum en það var vitað að það yrði ekki auðvelt!

Hannes traustur og verið okkar besti maður aftur!

Aftur var það Hannes sem setti tóninn en Hannes hefur verið í banastuði í undanförnum umferðum og farið fyrir liðinu með sinni miklu keppnisreynslu. Hannes afréð að fórna skiptamun snemma í miðtaflinu gegn Leningrad afbrigðinu og fékk í staðinn góða liðsskipan og góða stjórna á veikum hvítum reitum í herbúðum svarts.

Hannes vann svo skiptamuninn til baka og var þá peðum yfir með yfirburðatafl. Gaman að sjá Hannes í gírnum!

Ekki sofa á Gumma!

Guðmundur kom okkur í 2-0 og var einfaldlega númeri of stór fyrir Luitjen í þessari skák. Guðmundur herti tökin í byrjuninni og refsaði svo taktískum mistökum Færeyingsins unga af miklu öryggi.

Ekki góður dagur

Dagur átti slaka skák í Petroff og lenti í vel undirbúnum Rógva. Dagur lenti snemma í köðlunum og fékk fá tækifæri til að slá til baka og endaði skákin með rothöggi…engin Ali í frumkóginum hér!

Staðan því 2-1 fyrir Ísland og Vignir virtist í góðum málum þegar hér var komið við sögu.

Vignir við upphaf viðureignar

Taphættan virtist engin þegar staðan var orðin 2-1 fyrir Ísland. Taflið var þó þreytt áfram og eiginlega möguleikar á báða bóga, kannski ekki miklir en þeir voru til staðar. Vignir fann enga leið til að tefla til vinnings og frípeð hvíts á c-línunni var víst farið að orsaka áhyggjur hjá áhorfendum heima í stofu!

Vignir hélt stjórn, jafntefli í skákinni en sigur í viðureigninni! Vignir hefði vafalítið viljað vinna hér en engin skömm að gera jafntefli með svörtu við alþjóðlegan meistara.

Pörun liggur ekki fyrir að svo stöddu í næstu umferð.

Kvennaflokkur

Viðureign dagsins

Hér höfðum við stigahærri skákkonur á flestum borðum en þó nokkuð mjótt á mununum. Svíarnir rétt fyrir neðan okkur í styrkleikaröðinni.

WIM áfanginn í höfn!

Fyrsta skákin til að klárast var einstaklega gleðileg. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir náði að knésetja Juliu Ostensson í spennandi skák. Undirbúningur gekk fínt og Halla fékk þægilega stöðu með meira rými. Báðar eyddu miklum tíma enda staðan dýnamísk og krefjandi. Nálægt tímahraki missir Halla aðeins stjórn á stöðunni og rétt áður en hún klárast leikur Ostensson af sér í tímahraki.

Ostensson fór á taugum í hrakinu

23…Db5?? fer algjörlega á taugum í miklu tímahraki og gafst upp eftir 24.Rxa3 

Frábær niðurstaða og áfanginn í höfn!

Svíarnir svöruðu að bragði á fyrsta borði. Hin unga Valcu lagði þar Lenku að velli. Upp kom krefjandi staða í sikileyjarvörninni en í miðtaflinu náði Valciu yfirhöndinni og sleppti hreinlega ekki takinu, tefldi frábæra skák og var með 98% accuracy á Lichess svo dæmi sé tekið. Erfitt að eiga við það!

Frábær skák hjá Valcu

Staðan hér orðin 1-1.

Guðrún svaraði fyrir íslenska liðið. Teflt var London systemið og var Guðrún klár í það. Teflt var nýmóðins afbrigði þar sem hvítur fær mikið spil fyrir peð. Sú sænska var ekki alveg með á nótunum og lék nokkrum vafasömum leikjum.

19.Re8 skemmtileg vending og svartur fékk ekki rönd við reist eftir kraftmikla taflmennsku Guðrúnar, sigur í aðeins 21. leik…sem þó tóku sinn tíma!

Andersson fékk að finna fyrir London-systeminu!

Nú vantaði aðeins jafntefli til að tryggja sigur í viðureigninni. Sem betur fer leit sú jafna vel út hjá Jóhönnu! Smá miðtaflsbras var þá að baki og Jóhanna komin með biskupaparið og fínustu pressu.

28…Bxg3! hefði vissulega sparað smá frítíma og stress en jafnteflið var aldrei í hættu og í raun hefði Jóhanna átt að vinna þessa skák. Fyrirskipun liðsstjóra um jafnteflisboð reyndist réttmæt, staðan þá orðin 0.0 og Jóhanna hafði tekið geðheilsu liðsstjórans til athugunar með ábyrgum ákvörðunum í leikjunum á undan!

Íslenskur sigur!

Aftur sigur með minnsta mun!

Pörun liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Úkraínumenn voru í stuði í dag í opnum- og kvennaflokki. Sigrar á efsta borði hjá báðum sveitum halda opnum möguleikanum á tvöföldum sigri Úkraínu!

- Auglýsing -