Stefáns Kristjánssonar verður sárt saknað

0
1216

Fráfall Stefáns Kristjánssonar stórmeistara hinn 28. febrúar sl. er eitt mesta áfall sem skáklífið í landinu hefur orðið fyrir. Aðeins 35 ára gamall er genginn einn mesti hæfileikamaður sem fram hefur komið og voru hæfileikar hans ekki einskorðaðir við skákina. Svalari keppnismann undir pressu var ekki hægt að finna. Leiftrandi greind, gamansemi, góðvild og smá skammtur af því sem kalla mátti „afstöðuvanda“ gerðu hvern fund við þennan hressa félaga skemmtilegan. Rakið hefur verið hvernig hann komst í ólympíulið Íslands 17 ára gamall, varð alþjóðlegur meistari fljótlega upp úr því, raðaði inn stórmeistaraáföngum en virtist verða afhuga frekari skákafrekum undir lok síðasta áratugar. Um það er þó erfitt að fullyrða nokkuð; alvarlegt slys móður hans setti á manninn mark en það var ekki hans stíll að kvarta.

Ég fór í fjölmargar ferðir með honum á árunum 1998-2006 í ýmsum hlutverkum. Minnisstæð er t.d. ferð á EM unglingalandsliða 18 ára og yngri við Balatonvatn í Ungverjalandi með frábærum hópi ungmenna í flokki pilta og stúlkna. Þá eins og oft síðar kom yfir mig þessi tilfinning hversu gott það væri hafa slíkan liðsmann sem væri einhvern veginn með „allan pakkann“.

Við vorum nýkomnir frá ólympíumótinu í Bled 2002 og nokkrar vikur í HM 20 ára og yngri og sett upp æfingaáætlun. Dagur eitt: Í gamansömum tón kveðst Stefán vilja fá strax allan sannleikann um helstu byrjanir og engar refjar. Ég svara því til að ég sé því miður búinn að týna sannleikanum en við munum leita hans næstu daga. Ekki veit ég hvor lærði meira en það var gaman að fylgjast með Stefáni úr fjarlægð þegar hann var kominn á HM til perlu Indlands og Austurlanda fjær, Goa. Og nú röskum 15 árum síðar er ég að „gramsa“ á netinu og rekst á gamla frétt frá mótinu af erlendri vefsíðu og segir þar að austurblokkin sé mætt með sín bestu ungmenni, einnig ný stórveldi skákarinnar, Indverjar, Kínverjar og Víetnamar. Þetta er um miðbik og Armeninn Levon Aronjan og síðar sigurvegari er efstur með 5½ vinning að loknum sjö umferðum af 13. Stefán Kristjánsson er ½ vinningi á eftir. Hann varð síðan í hópi efstu manna.

Mér fannst gaman að lesa minningarorð þegar sagði frá því er Viktor Kortsnoj stóð yfir Stefáni og fylgdist með honum tefla og kvaðst síðar aldrei hafa getað getið sér til um leiki hans en hrósaði taflmennskunni. Helstu afrek Stefáns verða ekki rakin hér en í bestu skákum hans komu reiknihæfileikar hans vel í ljós eins og í eftirfarandi dæmi þegar langbesti skákmaður Pólverja nú um stundir tapar án þess að fá rönd við reist:

EM landsliða, Krít 2007:

Stefán Kristjánsson – Radoslaw Wojtaszek

Hollensk vörn

1. d4 f5 2. Rc3 Rf6 3. Bg5

Alltaf fundvís á óhefðbundnar leiðir.

3…. d5 4. Bxf6 exf6 5. e3 Be6 6. Df3 Dd7 7. Bb5 Rc6 8. Rge2 a6 9. Ba4 0-0-0 10. Rf4 Bf7 11. Rd3 g6 12. a3 Dd6 13. b4 Rb8 14. 0-0 h5 15. Bb3 h4 16. h3 Bh6 17. Hfc1 c6 18. Ra4 g5 19. c4!

Ef nú 19…. dxc4 þá kemur 20. Dxf5+! Be6 21. Rb6+ Kc7 22. Da5! með hótuninni 23. Rc4+.

19…. g4 20. Dxf5 Be6 21. Rb6 Kc7

G4N12J86422. Rxd5+! Kc8

22…. Dxd5 er svarað með 23. Dxd5! og vinnur.

23. Rb6+ Kc7 24. Da5! Bxe3 25. c5 Dg3 26. Rd5+!

– og svartur gafst upp, mátið blasir við á c7 eða e7.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2018

- Auglýsing -