Stíft hefur verið teflt hjá FEB í Ásgarði, Stangarhyl í vetur eins og undanfarin mörg ár. Þátttaka með afbrigðum góð, keppendur þetta 30 að jafnaði í vikulegum mótum.

Alls hafa 138 skákmenn mætt þar til tafls undanfarin 10 ár 1 sinni eða oftar skv. fróðlegri samantekt sem Finnur Kr. Finnsson hefur gert. Þar af eru 20 öldungar nú farnir yfir móðuna miklu en efnilegir „ungliðar“ fyllt þeirra skörð eftir því sem þeir hafa náð aldri til. Oftast hefur Jón Víglundsson, fv. bakarameistari teflt eða 330 sinnum. Nokkrir aðrir 200-300 sinnum, forsvarsmenn klúbbsins að sjálfsögðu, þeir Garðar Guðmundsson, formaður, Finnur, Jónas Ástráðsson, Viðar Arthúrsson auk Magga Pé, þar á meðal Guðfinnur og Einar S., enda þótt þeir hafi jafnoft eða oftar att kappi í Riddaranum, þar sem er teflt allt árið um kring sem og í KR.

Á vorhraðskákmótinu á þriðjudaginn var, sem jafnframt var lokamót vertíðarinnar, urðu þeir Bragi Halldórsson og Guðfinnur R. Kjartansson jafnir og efstir að vinningum, með 11 af 13 mögulegum. Sá fyrrnefndi var úrskurðaður sigurvegari á stigum á öðru broti, án endurtalningar. Sæbjörn Larsen þriðji með hálfum vinningi minna.  Þór Valtýsson fjórði með 10  en eftir það fór að teygjast úr lestinni.

Þór var hlutskarpastur þennan veturinn af samanlögðum vinningum, Guðfinnur annar og Gunnar Örn Haraldsson þriðji.

Það er huggun harmi gegn fyrir marga að geta í staðinn brugðið sér í Hafnarfjörð og teflt í hópi Riddara reitaða borðsins í sumar, sem er miklu skemmtilegra en að reita arfa að sögn þeirra sem best þekkja til og njóta jafnfram forsælunnar þá sjaldan  sól skíni í heiði.

- Auglýsing -