Lenka, Helgi Áss og Gauti

Spennandi og skemmtilegu Íslandsmóti í skák lauk í gær í Valsheimilinu. Lokaathöfn mótsins fór fram að móti loknu og sigurvegarar krýndir. Andi Hemma Gunn sveif yfir og allir hressir!

Eins og fram hefur komið varð Helgi Áss Grétarsson Íslandsmeistari eftir spennandi og skemmtilegt mót. Helgi Áss hlaut 8½ eftir spennandi skák í lokaumferðinni gegn Héðni Steingrímssyni. Helgi hlaut 1½ vinningi meira en næstu menn.

Helgi hefur ekki teflt sem atvinnumaður í skák síðan 2002. Helgi tók ákvörðun um þátttöku aðeins degi fyrir mót.

Viðtal RÚV við Helga að lokinni skák má finna hér.

Verðlaunahafar í opnum flokki: Mynd KM

Glæsilegur árangur hjá Helga Áss sem hefur teflt lítið sem ekkert teflt síðustu ár.  Árangur Helga samsvaraði 2663 skákstigum og hækkar hann um 20 stig fyrir hana. Frábært frammistaða hjá skákáhugamanninum!

Sigur Helga þýðir að hann fær sjálfkrafa rétt á landsliðstreyju Íslands á ólympíuskákmótinu í Batumi í haust þiggi hann sæti í liðinu. Helgi fær einnig keppnisrétt fyrir Íslands hönd á EM einstaklinga sem fram fer í Skopje í Makedóníu í mars 2019.

Fjórir skákmenn urðu jafnir í 2.-5. sæti. Það urðu stórmeistararnir Þröstur Þórhallsson, Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar Stefánsson og FIDE-meistarinn Sigurbjörn Björnsson.

Lokastöðuna má finna á Chess-Results.

Íslandsmót kvenna

Lenka Ptácníková tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna með jafntefli við Gauta Pál Jónsson í lokaumferðinni. Góð úrslit fyrir bæði reyndar því varð um leið unglingameistari Íslands!

Verðlaunahafar í kvennaflokki. Mynd KM

Lenka hlaut 6 vinninga. Frammistaða hennar var góð en hækkar um 17 skákstig fyrir hana. Guðlaug Þorsteinsdóttir varð önnur með 5 vinninga og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir þriðja með 4½. Vert er að benda á frábæran árungur Iðunnar Helgadóttur, sem varð fjórða með 4 vinninga þrátt fyrir mjög ungan aldur.

Lenka hefur verið lengi verið langbesta skákkona landsins. Sjöundi Íslandsmeistaratitillinn í röð og sá tíundi í heild!

Unglingameistaramót Íslands (u22)

Spennan fyrir lokaumferðina var mikil. Vignir Vatnar Stefánsson var efstur fyrir umferðina en hann tapaði fyrir Hannesi Hlífari Stefánssyni eftir að hafa leikið hróki beint í dauðann í erfiðri stöðu. Gauti Páll Jónsson og Alexander Oliver Mai náðu honum að vinningum og eftir stigaútreikning var Íslandsmeistaratitilinn Gauta, silfrið Vignis og bronsið Alexanders.

Unglingameistari Íslands 2018 – Mynd KM

Verðskuldaður sigur hjá Gauta sem tefldi vel, skemmtilega og frumlega á mótinu. Hann hækkar um 30 stig fyrir frammistöðuna á mótinu.

Tvenn aukaverðlaun voru veitt á mótinu. Þau voru annars vegar fyrir bestan árangur miðað við eigin skákstig fyrir þá sem hafa meira en 2000 skákstig og hins vegar fyrir þá sem hafa minna en 2000 skákstig.

Framtíðin og framtíðin: Mynd: KM

Helgi Áss vann verðlaunin fyrir þá stigahærri sem er eitthvað sem er býsna óvenjulegt að sigurvegari mótsins vinni! Benedikt Briem vann verðlaun fyrir þá stiglægri en frammistaða hans var frábær.

Benedikt hækkar mest allra fyrir frammistöðu sína á mótinu eða 121 skákstig. Í næstu sætum eru Arnar Heiðarsson (92), Birkir Ísak Jóhannsson (66) og Iðunn Helgadóttir (49).

Helgi hélt ræðu í mótslok þar sem hann þakkaði fyrir sig og hvatti unga skákmenn til dáða. Skák ætti að vera skemmtileg og menn yrðu að kunna njóta hennar og um leið að læra að takast á mótlæti og töp sem væri hluti skákarinnar.

Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Róbert Lagerman og Þórir Benediktsson voru skákstjórar mótsins og skiluðu af sér frábæru starfi. Björn Ívar Karlsson var tæknistjóri mótsins og venju samkvæmt gekk það óaðfinnanlega fyrir sig.

Valsheimilið var frábær skákstað og fá Valsarar miklar þakkir fyrir frábært samstarf.

- Auglýsing -