Helgi Áss vann Jón Viktor

Helgi Áss Grétarsson heldur vinningsforystu á Þröst Þórhallsson fyrir síðustu umferð Opna Íslandsmótsins, minningarmóts um Hermann Gunnarsson. Helgi vann sannfærandi sigur á Jóni Viktori Gunnarsson í níundu og næstsíðustu umferð í gærkvöldi og þarf aðeins jafntefli í dag til þess að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Hann hefur svart gegn Héðni Steingrímssyni í lokaumferðinni í dag kl. 11. Þeir hafa marga hildi háð við skákborðið og er búist við hörkuskák.

Staða efstu manna fyrir síðustu umferð er þessi:

1. Helgi Áss Grétarsson 8 v. (af 9) 2. Þröstur Þórhallsson 7 v. 3. Héðinn Steingrímsson 6 ½ v. 4.-8. Bragi Þorfinnsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jón Viktor Gunnarsson, Sigurbjörn Björnsson og Vignir Vatnar Stefánsson 6 v. 9.-14. Gauti Páll Jónsson, Lenka Ptacnikova, Justin Sarkar (Bandaríkjunum), Baldur Kristinsson, Aron Thor Mai og Benedikt Briem 5½ v.

Helgi Áss hefur ekki teflt mikið undanfarin ár en hefur heldur aukið taflmennsku sína og hefur teflt frísklega.

Þröstur Þórhallsson sem hefur verið í forystu allt mótið en tapaði fyrir Jóni Viktori í áttundu umferð er sá eini sem getur náð Helga – og ef svo fer verða þeir að tefla skákir með styttri umhugsunartíma strax eftir lokaumferðina. Íslandsmeistaratitillinn gefur sjálfkrafa sæti í landsliði Íslands en fyrir liggur að Ísland tekur þátt í næsta Ólympíumóti sem fram fer í Batumi í Georgíu í haust.

Jón Viktor, sem varð Íslandsmeistari árið 2000, hafði hvítt gegn Helga Áss í mikilvægustu viðureign níundu umferðar og gat með sigri komist upp við hlið hans. Það var bókstaflega allt undir en meiri pressa á Jóni sem varð að vinna til að eiga möguleika á titlinum. Skákin fylgir hér á eftir og var sviptingasöm lengi vel. Jón Viktor komst ekkert áfram í byrjun tafls og Helgi Áss hafði eilítið betri stöðu lengst af og í miðtaflinu tókst honum með lagni að auka frumkvæði sitt og vinna sannfærandi sigur:

Opna Íslandsmótið 2018; 9. umferð:

Jón Viktor Gunnarsson – Helgi Áss Grétarsson

Pirc-vörn

1. e4 d6 2. d4 Rf6 3. Rc3 g6 4. f4 Bg7 5. Rf3 c5 6. dxc5 Da5 7. Dd4!?

Óvenjulegur leikur í afbrigði Pirc-varnar sem kallast „austurríska árásin“. Svona tefldi Hollendingurinn van Kampen með góðum árangri gegn Ungverjanum Rapport á Reykjavíkurskákmótinu 2014.

7. … O-O 8. Bd2 Rc6 9. Dc4 Be6 10. Db5 Dc7 11. Bd3 d5 12. e5 Rd7 13. Be3 Bh6!

Sterkur leikur sem hótar að taka peðið á e5. Jón reynir ekki að verja það.

14. O-O Rdxe5 15. Rxe5 Rxe5 16. Re2 Bd7 17. Db3 Rg4 18. Bd4 e5 19. fxe5 Be3+ 20. Bxe3 Rxe3 21. Hf4 Dxc5 22. Kh1 b6 23. Rd4 Rg4 24. e6 fxe6 25. Hxg4 e5

26. He4 exd4 27. He5 Bc6 28. Be4 Kg7 29. Dg3 Hae8 30. Hxe8 Hxe8 31. Bd3 Bb5 32. Hf1 Bxd3 33. cxd3 Hf8 34. He1 Db4 35. De5 Kh6 36. h3?

Fyrst hér missir hvítur þráðinn. Eftir 36. Dg3! er jafntefli líklegustu úrslitin.

36. … Dd2 37. De7 Df2 38. He5 Df1+ 39. Kh2 Df4+ 40. Kh1 Hf7 41. De6 Hc7 42. He1 Hc2 43. b4 Dg3 44. Hg1 Dxd3 45. De7 De4 46. Df8+ Kh5

Hvítur á enga möguleika gegn kónginum og frípeðið á d-línunni ræður úrslitum.

47. Df7 h6 48. Df1 d3 49. a4 He2 50. Dd1 d2 51. a5 b5

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 9. júní 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -