Íslandsmeistarinn ásamt Benedikti Briem sem fékk verðlaun fyrir bestan árangur miðað við eign skákstig.

Helgi Áss Grétarsson er skákmeistari Íslands 2018 en eins og fram hefur komið er þetta í fyrsta sinn sem Helgi landar titlinum í ellefu tilraunum. Hann er nú 41 árs að aldri, hefur lítið teflt undanfarin ár, en kveðst hafa fengið skákáhugann aftur fyrir nokkru síðan og uppskeran er glæsileg. Með sigrinum öðlast Helgi Áss sjálfkrafa rétt til að tefla í landsliði Íslands. Hann hefur ákveðið að gefa kost á sér í ólympíuliðið sem teflir á Ólympíumótinu í Batumi í Georgíu í september nk.

Helgi Áss hafði vinningsforskot á Þröst Þórhallsson fyrir lokaumferðina og dugði jafntefli gegn Héðni Steingrímssyni og mátti eftir atvikum tapa ef Þröstur, sem kom næstur honum að vinningum, næði ekki að vinna Sigurbjörn Björnsson. Úrslit skáka lokaumferðarinnar gerðu sigur Helga Áss enn stærri, hann náði jafntefli eftir nokkurn barning í skák sinni við Héðin og þar sem Þröstur tapaði fyrir Sigurbirni var munurinn á Helga og næstu mönnum 1 ½ vinningur. Lokastaðan hvað varðar efstu menn:

1. Helgi Áss Grétarsson 8 ½ v. (af 10) 2. – 5. Þröstur Þórhallsson, Héðinn Steingrímsson, Sigurbjörn Björnsson og Hannes Hlífar Stefánsson 7 v. 6.-9. Jón Viktor Gunnarsson, Bragi Þorfinnsson, Baldur Kristinsson og Justin Sarkar og Baldur Kristinsson 6 ½ v.

Íslandsmeistari kvenna 2018 varð Lenka Ptacnikova sem hlaut 6 vinning og Íslandsmeistari unglinga 2018, Gauti Páll Jónsson sem einnig hlaut 6 v.

Staðan sem Helgi Áss fékk upp gegn Héðni í lokaumferðinni var að sönnu gleðisnauð en þó logaði á ljóstíru í huga hans; Þröstur var líka með vonda stöðu gegn Sigurbirni þegar hér var komið sögu:

Opna Íslandsmótið, minningarmót um Hemma Gunn, 10. umferð:

Héðinn – Helgi Áss

Síðasti leikur Helga var 34. … b7-b5. Þó næsti leikur Héðins sé ekki slæmur þá virðist hann hafa verið algerlega blindur á þá krafta sem leyndust í stöðunni:

34. axb5

34. Rc7! vinnur strax, t.d. 34. … bxa4 35. Re6 Bd6 36. g5+! og mátar eða 34. .. g5 35. Re6 Bd6 36. Rf1! ásamt – Rg3 við tækifæri og kóngurinn er lentur í mátneti.

34. … Bc5 35. b6??

Hvítur átti a.m.k tvo vinningsleiki og einfaldast er 35. Hc7, t.d. 35. .. Hxb5 36. Kg3 Bd6 (36. … g5 er svarað með 37. Rc3! og vinnur mann) 37. g5+! Kxg5 38. Hh7! og næst 39. Rf3 mát.

35. … Bxb6 36. Rxf6 Rxf6 37. Hxf6 Bd8

– Nú er staðan í jafnvægi og keppendur sömdu um skiptan hlut eftir 68 leiki. Þröstur tapaði svo fyrir hinum ört vaxandi Sigurbirni Björnssyni. Annar keppandi á svipuðum aldri, Baldur Kristinsson, náði góðum árangri í mótinu.

Framkvæmd opna Íslandsmótsins tókst vel og umgjörð þess var smekkleg í hátíðarsal Vals að Hlíðarenda. Skákstjórn, þ.m.t. tæknimál, voru í góðum höndum Björn Ívars Karlssonar og Ingibjargar Eddu Birgisdóttur.

Nokkur orð um breytt fyrirkomulag Íslandsmótsins á ólympíuári. Ef grannt er skoðað þá tefla fremstu menn okkar fáar virkilega krefjandi viðureignir, Helgi Áss tefldi fjórar skákir við keppendur yfir 2300 elo stigum, Þröstur, Hannes og Héðinn einnig fjórar. Þetta opna mótshald stenst því ekki samanburð við keppni í landsliðsflokki, t.d. hið öfluga Íslandsþing árið 2015. Það breytir þó engu um þá staðreynd að Helgi Áss tefldi best allra og sigur hans var verðskuldaður í hvívetna.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 16. júní 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -