Norska skákmótið Viswanathan Anand, til hægri, leggur Karjakin að velli. — Ljósmynd/Chesssbase

Um svipað leyti og Opna Íslandsmótið fór fram í Valsheimilinu á Hlíðarenda fylgdust Norðmenn spenntir með „Norska skákmótinu“ sem haldið var í sjötta sinn í Stafangri. Magnús Carlsen aftur í eldlínunni og efstur lengi vel eftir sigra á Caruana og Aronjan í byrjun móts en tapaði svo óvænt fyrir Wesley So og á lokametrunum skreið áskorandinn Caruana fram úr og varð einn efstur.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Caruana vinnur mót þar sem sem Magnús er meðal þátttakenda, sem er ekki slæmt innlegg hjá Bandaríkjamanninum fyrir taugastríðið framundan. Magnús hefur nú samt staðið vel fyrir sínu með sigri í Wijk aan Zee í ársbyrjun og á minningarmótinu um Gashimov í Shamkir í Aserbaídsjan. Þess utan hefur hann átt létt með að tefla við Caruana og þess vegna finnst frændum okkar horfur góðar fyrir einvígið sem hefst í London í nóvember nk. Engu að síður eru Norðmenn dálítið að klóra sér í höfðinu og spyrja hvernig megi standa á því að þeirra maður hafi aðeins einu sinni unnið „Norska mótið“ í sex tilraunum. Hvað um það, lokaniðurstaðan varð þessi:

1. Caruana 5 v (af 8) 2. – 4. Carlsen, Nakamura og Anand 4 ½ v. 5. – 6. So og Aronjan 4 v. 7. Mamedyarov 3 ½ v. 8. – 9. Vachier Lagrave og Karjakin 3 v. Kínverjinn Liren Ding varð að hætta keppni eftir þrjár umferðir eftir að hafa lent í hjólreiðaslysi.

Viswanathan Anand sem verður fimmtugur á næsta ári, langelstur keppenda, náði enn einu sinni góðum árangri. Það er alltaf áhugavert að sjá hann fást við byrjanir sem eru í deiglunni, sbr. eftirfarandi skák:

Norska skákmótið 2018; 6. umferð:

Sergei Karjakin – Viswanathan Anand

Drottningarbragð

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 Be7 5. Bf4 O-O 6. e3 c5 7. dxc5 Bxc5 8. Dc2 Rc6 9. a3 Da5 10. O-O-O Re4!?

Að hrókera langt í þessu afbrigði þótti dálítið djarft á sínum tíma en 10. leikur Anands er varasamur eins og Kasparov sýndi fram á í frægri skák við Vaganian á EM landsliða í Debrecen árið 1992.

11. Rb5 a6 12. Rc7 e5 13. Hxd5 exf4!

Hér er komin fram endurbót Anands á taflmennsku Vaganians sem lék 13. … f5 sem er mun lakara.

14. Dxe4 Dxc7 15. Hxc5 fxe3 16. Bd3 g6 17. fxe3

Eða 17. Dxe3 b6 18. Hg5 Ra5! og möguleikar svarts eru ekki verri.

17. … Be6 18. Dh4 Hae8 19. Be4 Db6 20. Dh6!?

Með hugmyndinni 20. … Dxc5 21. Rg5 Dxe3+ 22. Kb1 og svartur verður að láta drottninguna til að verða ekki mát.

20. … f5 21. Rg5 Hf7!

Sterkur varnarleikur og mun betri en 21. … He7 sem er svarað með 22. Rxe6 Hxe6 23. Bd5 og vinnur.

22. Bd5 Bxd5 23. Hxd5 Dxe3 24. Kb1 Hfe7 25. Hhd1 De2 26. h4?

Þetta hefur sennilega átt að vera vinningstilraun en er afleitur leikur. Best er 26. Hd6 og eftir 26 … Dxc4 getur hann þvingað fram jafntefli með 27. Hxg6+ hxg6 28. Dxg6+ Kh8 29. Dh6+ o.s.frv. Meira er ekki að hafa.

26. … Re5!

27. Rf3

Honum sást yfir að 27. Hd8 er svarað með 27. … Dxd1+! 28. Hxd1 Rg4 og drottningin fellur.

27. … De4+ 28. Ka2

Eða 28. Ka1 Rg4 29. Dc1 Re3 sem vinnur skiptamun.

28. … Dxc4+ 29. Ka1 Rg4 30. Dc1 Dxc1 31. Hxc1 Kg7 32. h5 Rf6!

– Þar féll annað peð og framhaldið alveg vonlaust. Karjakin gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 30. júní 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -