Kirsan Ilyumzhinov hættir í haust.

Nú eru allar líkur á að skipt verði um forseta FIDE á þingi Alþjóðaskáksambandsins sem fram fer samhliða ólympíumótinu sem hefst 23. september í Batumi í Georgíu. Í framboði eru enski stórmeistarinn Nigel Short, Grikkinn Georgios Makropoulos, starfandi forseti FIDE, og Rússinn Arkady Dvorkovich, sem talinn er sigurstranglegastur þeirra þriggja. Stjórn SÍ hefur ekki ákveðið hvern sambandið styður í komandi kosningum.

Kirsan Ilyumzhinov, sem var kjörinn árið 1995, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri en hann átti vart annarra kosta völ eftir að hafa verið á bannlista hjá bandarískum yfirvöldum árið 2015 vegna viðskipta við sýrlensk yfirvöld. Og sennilega spillir einnig fyrir frásögn hans af því þegar hann var numinn brott af geimverum eitt septemberkvöld í Moskvu árið 1997.

Þá hefur hann nokkrum sinnum heimsótt illræmda einræðisherra og er skemmst að minnast þess frá sumrinu 2011 þegar hann gerði sér ferð til Líbýu til að hitta Muammar Gaddafi leiðtoga nokkrum mánuðum áður en hann var ráðinn af dögum.

Anatolí Karpov og Garrí Kasparov buðu sig fram í embætti forseta FIDE árin 2010 og 2014. Þeir töpuðu með miklum mun. Sá síðarnefndi er ekki hættur og er talinn einn helsti stuðningsmaður Nigels Shorts.

Karpov hefur lítið haft sig í frammi og um daginn settist hann niður við skákborðið. Á fjögurra manna móti með „gömlum kunningjum“, Lubomir Ljubojevic, Eugenio Torre og Anatolí Vaisser, sem fram fór í Platja d’Aro í Katalóníu á Spáni, voru tefldar sex at-skákir og 12 hraðskákir. Karpov sigraði, hlaut 12½ vinning (af 18), Vaisser kom næstur með 12 vinninga, Ljubojevic varð í 3. sæti með 7½ vinning og Torre rak lestina með fjóra vinninga. Síðan lá leið Karpovs til Kína þar sem hann vann Hou Yifan í sex skáka einvígi, 3½ : 2½. Tímamörk voru 15 10.

Það er alveg ljóst eftir að hafa rennt yfir þessar skákir að Karpov heldur enn góðum styrk og stíllinn hefur lítið breyst. Hann kann að gera sér mat úr litlu, endataflstæknin er góð og að leika mönnunum uppi í borði er kúnst sem hann hefur tileinkað sér betur en flestir:

Platja d’Aro 2018; 3. umferð:

Eugenio Torre – Anatolí Karpov

Drottningarpeðs-leikur

1. d4 d5 2. Bf4 c6 3. e3 Bf5 4. Rf3 e6 5. Be2 Bd6 6. Bxd6 Dxd6 7. 0-0 Rd7 8. c4 Rgf6 9. Rc3 0-0 10. Rh4 Be4 11. f3 Bg6 12. c5 De7 13. Rxg6 hxg6 14. f4 b6 15. b4 a5 16. a3 Ha7 17. Dc2 Hc8 18. Hfb1 Dd8 19. Ha2 Re8 20. Hab2 axb4 21. axb4 bxc5 22. bxc5 g5

Hvítur hefur meira rými en svartur eygir möguleika með þessum dæmigerða peðsleik.

23. g3 gxf4 24. exf4 Hca8 25. Hb7 g6 26. Kg2 Rg7!

Riddarinn finnur f5-reitinn. Það myndast ýmsir veikleikar í kjölfarið í herbúðum hvíts.

27. Bd3 Rf5 28. Bxf5 exf5 29. Hxa7 Hxa7 30. Db2 Kg7 31. Ha1 Hxa1 32. Dxa1 De8 33. Kf3 Rf6 34. h3 Dh8

Skyndilega er frumkvæðið í höndum svarts. Drottningin leitar eftir færum.

35. Kg2 Db8 36. 36. Db1 Da8 37. Da2 Db7 38. Da3 Re4 39. Rxe4 fxe4 40. g4 Db1 41. De3 Dc2+ 42. Kg3 f6 43. h4 Dd1 44. f5 gxf5 45. gxf5 Df1 46. Kg4 Dg2+ 47. Kf4

47…. Kh6!

Þá skerst kóngurinn í leikinn. Hvítur er varnarlaus.

48. Db3 Kh5 49. Dd1+ Kxh4 50. De1+ Kh5 51. Dd1+ Kh6 52. Db3

– og Torre gafst upp rétt áður en Karpov gat leikið 52…. Dg5 mát.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 7. júlí 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -